Slys Umferðarslys valda miklum þjáningum og kostnaði.
Slys Umferðarslys valda miklum þjáningum og kostnaði. — Morgunblaðið/Júlíus
Velferðarráðuneytið hefur ekki tekið saman upplýsingar um kostnað heilbrigðiskerfisins vegna umferðarslysa. Í skriflegu svari heilbrigðisráðherra við spurningu Vilhjálms Árnasonar alþingismanns er bent á tvær skýrslur um málið. Þeim ber illa saman.

Velferðarráðuneytið hefur ekki tekið saman upplýsingar um kostnað heilbrigðiskerfisins vegna umferðarslysa. Í skriflegu svari heilbrigðisráðherra við spurningu Vilhjálms Árnasonar alþingismanns er bent á tvær skýrslur um málið. Þeim ber illa saman.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2012 var reiknað út að kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna umferðarslysa árið 2009 hefði verið 700 milljónir kr. sem svarar til 930 milljóna á núverandi verðlagi. Í nýrri skýrslu frá 2014 er áætlaður heildarkostnaður vegna umferðarslysa 48 milljarðar á verðlagi 2015 og eru þá undan skilin óhöpp án meiðsla. Sjúkrakostnaður er ekki skilgreindur sérstaklega en talið að hann sé líklega metinn of lágt í tölum Hagfræðistofnunar.

Þegar spurt er um kostnað við hvert banaslys og alvarlegt slys er áfram vísað til nýrri skýrslunnar. Þar kemur fram að kostnaður við hvert banaslys er áætlaður 660 milljónir kr. og hvert alvarlegt slys talið kosta 86 milljónir.

123 komu á bráðadeildir

Fram kemur í svarinu að 123 einstaklingar voru lagðir á bráðadeildir Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri vegna umferðarslysa á síðasta ári. Um 8% af heildarbráðakomum á Landspítala eru vegna umferðarslysa.

Í svari heilbrigðisráðherra kemur fram að á Reykjalund hafa á árabilinu 2010-2015 komið 90 til 100 sjúklingar á ári til endurhæfingar í kjölfar umferðarslysa. Það svarar til 10% af heildarfjölda sjúklinga. Á Landspítalanum voru alls 19 sjúklingar skráðir á endurhæfingardeild vegna umferðarslysa. Þeir voru ýmist lagðir inn á deild eða komu í dagdeildar- eða göngudeildarmeðferð.