Sigurlín Hermannsdóttir segist á Leirnum hvorki sveitamaður (þótt hún hafi verið sumarbarn í sveit) né Norðlendingur svo hún yrki bara úti á túni og tómt bull: Vinur minn Vilhjálmur Hlini með Valgerði átti fimm syni.

Sigurlín Hermannsdóttir segist á Leirnum hvorki sveitamaður (þótt hún hafi verið sumarbarn í sveit) né Norðlendingur svo hún yrki bara úti á túni og tómt bull:

Vinur minn Vilhjálmur Hlini

með Valgerði átti fimm syni.

Var drýldinn að vanda

er drakk hann sinn landa

en víðáttuvitlaus með gini.

Sigrún Haraldsdóttir yrkir:

Frökenin Kalla á Kletti,

úr klaufunum gjarnan sletti,

sig frjálslega bar

því forlofuð var

glóandi gervihnetti.

Og enn yrkir hún:

Rolf var að rölta eftir ströndinni

með remington-byssu í höndinni,

fugla hann sá

fljúga þar hjá

og stúlkukind standandi á öndinni.

Páll Imsland heilsaði leirliði í logni og blíðu – „nú er „þorraát“ í algleymingi og allir kviðir meir eða minna fullir af fornfæðu. Mér varð á í öðru samhengi en leirnum að rifja upp tvær matar- og drykkjarlimrur sem bera svip af þorrafæðu og læt þær því fljóta í leirbullinu.

Fyrst er þurrfæðan:

Ef éturðu gráðugt af grind

og garnir og súrsaða þind

eru áhrifin skýr

og alls ekki rýr,

þegar leysirðu lyktþrunginn vind.

Svo er blautfæðan:

Hann Skýrleikur Falsson í Skoti

sér skemmti með Rósbjörgu' í Koti.

Þau spjölluðu´ á dýnu

með sparlaki fínu

og skáluðu' í skyrsýru' og floti.“

Jóhann S. Hannesson orti:

Það er furðulegt ástand í Ankara.

Þar er allt fullt með vestfirska sankara.

Þeir kaupa upp allt

sem er yfirleitt falt

jafnvel antika gólfteppabankara.

Þorsteinn Valdimarsson orti í orðastað Snjáku:

Þó að öðrum ói við snjó,

fæ ég aldrei nóg af snjó

– hvorki úti né inni –

og einu sinni

varð ég öllsömul snjóug af snjó!

Kristján Karlsson orti:

„Það kvað vera fallegt í Kína,“

sagði kona eða lét í það skína.

Hvað hún hét veit nú enginn,

hún er annaðhvort gengin

eða afplánar varfærni sína.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is