Þorskur Árið 2015 reyndist gott þegar kom að útflutningi íslenskra sjávarafurða. Fersk flök og flakabitar voru sú afurð af þorski og ýsu sem jók hvað mest við sig í magni og að verðgildi.

Þorskur Árið 2015 reyndist gott þegar kom að útflutningi íslenskra sjávarafurða. Fersk flök og flakabitar voru sú afurð af þorski og ýsu sem jók hvað mest við sig í magni og að verðgildi. Hlutfall afla sem ráðstafað var til vinnslu ferskra flaka var yfir 30% í þorski og yfir 37% í ýsu.

Eins og línuritin sýna hefur verð á ferskum þorskflökum haldist hátt og stöðugt allt árið og framboðið er jafnara yfir árið en það var fyrir nokkrum árum. Ýsuflökin sveiflast meira í verði eftir því hversu mikið er flutt út. Markaðir fyrir fersk ýsuflök eru einkum í Bandaríkjunum og Bretlandi og verðsveiflan er mest á Bandaríkjamarkaði þar sem íslensk ýsuflök eru nánast einráð á markaði. Það er því líklegt að afhendingaröryggi skapi jafnari verðþróun og þar njótum við góðs af öflugri ferðaþjónustu sem eykur framboð á flugfrakt. Strandveiðar auka einnig framboð á ferskum fiski yfir sumarmánuðina sem áður voru rólegir.

Verð á heilfrystri ýsu frá Noregi féll mikið árið 2015 og hafði sú verðlækkun áhrif á verð frystra íslenskra ýsuflaka og því má segja að sterk staða á mörkuðum fyrir ferska ýsu hafi bjargað miklum útflutningsverðmætum hérlendis. Þannig jókst útflutningsverðmæti ferskra ýsuflaka um 4,7 milljónir evra eða tæpar 668 milljónir íslenskra króna, frá árinu 2014. Samsvarandi verðmætaaukning í ferskum þorskflökum er tæpir 5,2 milljarðar íslenskra króna en þar verður þó að taka tillit til aukins afla.

Vöruþróun er greinilega að skila miklum árangri og það gerir fyrirtækjunum hægara um vik að verjast verðlækkunum á vöruflokkum, til að mynda heilfrystum afurðum líkt og gerðist í Noregi. Auðveldara er að skipta úr ferskframleiðslu yfir í fryst eða saltað en á hinn veginn.