Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Engilbert Ingvarsson, Berti á Mýri, varð fyrstur til þess að stinga sér til sunds í Sundhöllinni á Ísafirði, en hún var tekin í notkun fyrir um 70 árum. Hann atti kappi við Þorvarð Jónsson, síðar yfirverkfræðing hjá Landsímanum. „Hann hafði verið í sumarvinnu á Hvanneyri, þjálfaðist þar mikið í að synda, var kröftugur og stór strákur og hafði betur á þessum 16 metrum eða svo,“ segir Engilbert.
Sundhöllin var fyrsta sundlaugin á Ísafirði. Engilbert rifjar upp að áður en krakkar tóku fullnaðarpróf í skólanum hafi þeir verið sendir á sundnámskeið í Reykjanesi auk þess sem þar hafi stundum verið sundnámskeið fyrir sjómenn.
Málaði Sundhöllina
„Ég vann við málun í Sundhöllinni hjá Finnbirni Finnbjörnssyni málarameistara og þegar allt var tilbúið vildu þeir láta einhverja stinga sér í laugina fyrir viðstadda,“ segir Engilbert, sem hefur skrifað nokkrar bækur og rekur þessa sögu í bókinni Þegar rauði bærinn féll . „Ég hafði lært að synda í 19 gráðu heitu vatni í gamalli torfsundlaug í Snæfjallahreppi, sem ungmennafélagið lét byggja, og eins í Reykjanesskóla, mátti heita vel syndur eftir að hafa tekið svokallað fimmta Reykjanesstig, sem fólst meðal annars í því að synda fimm kílómetra. Því var ég valinn í fyrsta kappsundið.“Engilbert segir að laugin hafi þegar notið mikilla vinsælda og mikil aðsókn hafi verið á sundnámskeið, bæði hjá börnum og fullorðnum. „Þörfin var greinilega mikil,“ segir hann.
Engilbert fæddist í Unaðsdal í Snæfjallahreppi og fór 17 ára til Ísafjarðar til þess að vinna fyrir sér. Hann vann í þrjú ár hjá Finnbirni og næsti vinnustaður var prentsmiðjan Ísrún. „Þar lærði ég bókband, en síðan flutti ég inn í sveit 1953 þar sem við hófum búskap á Tirðilmýri.“ Þau Kristín Daníelsdóttir brugðu búi 1987 og fluttu til Hólmavíkur. Þar vann hann hjá hreppnum, meðal annars í félagsheimilinu og sem vigtarmaður við höfnina. „Við komum hingað til Ísafjarðar aftur í fyrra til þess að eyða ellinni í Hlíf 2.“
Þegar Engilbert var bóndi fór hann oft í sjósund. „Já, þegar það var sólskin og gott veður,“ segir hann. „Það var samt kalt.“ Hann synti líka einu sinni stakkasund ásamt öðrum á sjómannadegi við höfnina á Ísafirði. „Það voru svo fáir sem kunnu að synda á þessum árum, en ég var 18 ára þegar laugin var byggð.“
Þetta eru liðnir tímar og nú segist Engilbert nánast ekkert fara í laugina, hvað þá í sjósund. „Ég er bara í ræktinni, sem kallað er,“ segir hann, „geng á göngubretti.“