Þorgrímur fæddist í Reykjavík 4.2. 1924, sonur Þorgríms Sigurðssonar togaraskipstjóra, lengst af á Baldri, og Guðrúnar Jónsdóttur Mýrdal húsfreyju.

Þorgrímur fæddist í Reykjavík 4.2. 1924, sonur Þorgríms Sigurðssonar togaraskipstjóra, lengst af á Baldri, og Guðrúnar Jónsdóttur Mýrdal húsfreyju.

Þorgrímur skipstjóri var sonur Sigurðar Sigurðssonar, sjómanns í Vík og á Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd, og Margrétar Magnúsdóttur frá Auðnum á Vatnsleysuströnd. Guðrún var hálfsystir Sigurjóns Mýrdal skipstjóra, afa Garðars Mýrdal, yfireðlisfræðings við Landspítalann. Guðrún var dóttir Jóns Mýrdal, bróður Eldeyjar-Hjalta, afa Hjalta Geirs Kristjánssonar forstjóra.

Eiginkona Þorgríms var Jóhanna Kjartansdóttir Örvar frístundamálari, en hún lést í fyrra. Þau eignuðust þrjú börn, Hönnu Þóru, Hrafnhildi og Þorgrím Þór.

Þorgrímur ólst upp við Unnarstíginn í Reykjavík, var í Landakotsskóla og Miðbæjarskóla, brautskráðist úr VÍ 1942 og stundaði framhaldsnám í verslunarfræðum, spænsku, ensku og blaðamennsku við Rider College í Trenton í New Jersey í Bandaríkjunum.

Þorgrímur byrjaði ungur að vinna fyrir sér við saltfiskbreiðslu, var fisksendill og bar út póst í aukavinnu, var hjálparkokkur á togaranum Baldri á síldveiðum, háseti þar og sigldi til Englands á stríðsárunum. Hann starfaði á skrifstofu síldarverksmiðjunnar á Djúpuvík, hjá heildversluninni Columbus, hjá Fiskimálanefnd, skipulagði afgreiðslustöð ms Laxfoss í Reykjavík og starfrækti hana fyrsta árið, og starfaði hjá fyrirtækinu Gísla Halldórssyni hf. 1947.

Þorgrímur stofnaði eigið fyrirtæki, heildverslunina Þ. Þorgímsson & Co, 1942, og starfrækti það síðan. Þá starfrækti hann verksmiðjuna Varmaplast í 33 ár, sem framleiddi plasteinangrun til húsa.

Þorgrímur sat í stjórn Sálarrannsóknarfélags Íslands um árabil, í stjórn Alliance Francaise, var einn af stofnendum Club Romania, félags áhugamanna um rómönsk tungumál, og var ræðismaður Síle.

Þorgrímur lést 29.1. 2012.