Við vorum nánast jafngamlar, það munaði bara tveimur mánuðum, hún fædd í júní og ég í ágúst. Ég var svo heppin að kynnast henni þegar foreldrar mínir sendu mig í sveit í eitt sumar þegar ég var á unglingsaldri.

Við vorum nánast jafngamlar, það munaði bara tveimur mánuðum, hún fædd í júní og ég í ágúst. Ég var svo heppin að kynnast henni þegar foreldrar mínir sendu mig í sveit í eitt sumar þegar ég var á unglingsaldri. Hún var yngsta barn foreldra sinna sem ráku myndarbú með kindum og kúm norður í landi. Henni fannst spennandi að fá jafnöldru úr höfuðborginni og mér fannst spennandi að kynnast sveitalífinu. Mín verkefni fólust meðal annars í því að reka kýrnar, bera heybagga, mála girðingarstaura í fjárhúsinu, aðstoða við eldhússtörfin og vera félagsskapur fyrir hana. Það kom fljótt í ljós að hún hafði jafngaman af því að prófa sig áfram í að setja augnskugga, maskara og varalit framan í sig, flétta hárið og gera sig fína eins og tilheyrir hjá unglingsstúlkum. Við höfðum líka báðar gaman af að dansa við skemmtilega tónlist. Hún var alltaf glöð og það var hlegið mikið þetta sumar. Hún hló að mér og ég hló að henni. Við áttum margt sameiginlegt og kannski var bara einn munur á okkur sem fólst í einum litlum litningi sem hún hafði umfram. Hápunktur sumarsins var þegar hún fékk vini sína í heimsókn. Þá var nú aldeilis fjör. Tónlistin sett í botn í stofunni og dansað eins og enginn væri morgundagurinn. Nýjasta vínylplatan frá HLH fuðraði næstum því upp á plötuspilaranum svo oft fór nálin á plötuna. Gleðin var stórkostleg í vinahópnum.

Mér varð hugsað til þessarar vinkonu minnar þegar ég las í vikunni fréttir af því að nú ætti að setja enn meiri kraft í að koma í veg fyrir að börn með Downs-heilkenni fæðist á Íslandi, með nýjum fósturskimunaraðferðum á Landspítalanum. Þeim hefur fækkað mikið börnunum sem hafa fæðst með heilkennið eftir að byrjað var að bjóða upp á skimun. Undanfarin tíu ár hafa börnin verið að öllu jöfnu 2 á ári en fyrir þann tíma fæddust allt upp í 10 börn á ári með þessi einkenni. Það er rétt hjá formanni Félags áhugafólks um Downs-heilkenni þegar hún segir að þetta sé mannkynsbótastefna og að mörgum siðferðilegum spurningum sé ósvarað. Hún segir erfitt að sjá annan tilgang með þessari skimun en að eyða eigi þessum einstaklingum. „Þessi hreinsunarstefna kostar mikið og ég held að fordómar séu ástæðan fyrir því að það er leitað að þessum tiltekna hópi.“ Það er þungur dómur þegar hún segist halda að ekkert hafi skapað jafnmikla fordóma gagnvart þroskahömluðum og þessi skipulagða leit á vegum ríkisins að Downs-heilkenninu.

Jafnaldra mín varð gleðigjafi og ég varð ríkari af því að kynnast henni. Ég er ekki í nokkrum vafa að kynni mín af henni hafa orðið til þess að draga úr fordómum mínum á lífsleiðinni, ekki eingöngu fordómum gagnvart þeim sem hafa þennan tiltekna aukalitning heldur dregið úr fordómum gagnvart öllum þeim sem feta ekki nákvæmlega sama einstigið. Víkkað huga minn og gert mig umburðarlyndari. Er nokkur ástæða til að draga úr fjölbreytni mannlífsins með þessum aðgerðum ríkisins? margret@mbl.is

Margrét Kr. Sigurðardóttir

Höf.: Margrét Kr. Sigurðardóttir