ESÍ hefur um nokkurra ára skeið deilt við slitastjórn SPB og nú er þess beðið að Hæstiréttur taki málið til meðferðar. Búist er við niðurstöðu hans í vor.
ESÍ hefur um nokkurra ára skeið deilt við slitastjórn SPB og nú er þess beðið að Hæstiréttur taki málið til meðferðar. Búist er við niðurstöðu hans í vor. — Morgunblaðið/Ernir
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Eignasafn Seðlabanka Íslands hefur fengið 166 milljarða kröfu á hendur slitabúi Icebank samþykkta fyrir dómstólum.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að krafa Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) að upphæð 166 milljarðar króna, skuli viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferð Icebank (SPB). Málsaðilar hafa á undanförnum árum deilt um réttmæti kröfunnar en hún snýr að lánveitingu Seðlabankans til Icebank gegn veðum í verðbréfum sem Landsbanki Íslands, Glitnir og Kaupþing höfðu gefið út. Með lánveitingunni áframlánaði Icebank viðskiptabönkunum þremur þá fjármuni sem Seðlabankinn hafði lánað út á veðin.

Tómas Jónsson, formaður slitastjórnar SPB, vildi ekki tjá sig við Morgunblaðið þegar eftir því var leitað að öðru leyti en því að slitastjórnin hefði nú þegar ákveðið að skjóta málinu til Hæstaréttar. Slitastjórnin hefur þegar tilkynnt kröfuhöfum búsins þá ákvörðun.

Áður en dómur héraðsdóms gekk námu samþykktar kröfur í búið 85,7 milljörðum króna og er ESÍ eigandi að 94% allr þeirra krafna. Morgunblaðið flutti ítrekað fréttir af því á síðastliðnu ári að ESÍ væri, með milligöngu fjárfestingabankans Morgan Stanley, að kaupa kröfur á hendur SPB. Greitt var fyrir kröfurnar með kröfum á hendur slitabúi Kaupþings sem ESÍ átti í safni sínu.

Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms hækkar upphæð samþykktra krafna í 251 milljarð króna og verður ESÍ í kjölfarið eigandi að 98% heildarkrafna í búið. Með því ættu endurheimtur ESÍ að aukast um rétta 2 milljarða króna og verðmæti krafna annarra kröfuhafa lækka um sömu fjárhæð. Samkvæmt frumvarpi að nauðasamningi SPB myndu þá endurheimtur annarra kröfuhafa en ESÍ fara úr 60% niður í um það bil 18%.

Endanleg niðurstaða varðandi endurheimtur kröfuhafa munu þó einnig ráðast af úrlausn annars ágreiningsmáls milli ESÍ og SPB, þar sem SPB krefur ESÍ um 4 milljarða endurgreiðslu. Þá eru enn óútkljáð ágreiningsmál sem tengjast skuldajöfnun slitabúsins við SPB ásamt þróun á gengi gjaldmiðla og annarra eigna.

Héraðsdómur tók ekki undir sjónarmið lögmanns SPB sem hélt því fram að lánveitingar Seðlabankans til Icebank hefðu falið í sér málamyndagjörning, enda hefði forsvarsmönnum Icebank mátt vera kunnugt um þá erfiðleika sem uppi voru á fjármálamörkuðum, rétt eins og starfsmönnum Seðlabankans.