Alteregó „Bláskjár er líka notað yfir bláeygt fólk, svo það hentar mér vel.“
Alteregó „Bláskjár er líka notað yfir bláeygt fólk, svo það hentar mér vel.“
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Ég tók upp listamannsnafnið Bláskjár fyrir tveimur árum þegar ég byrjaði að syngja af einhverri alvöru. Fram að því hafði ég verið lengi í tónlist, en fyrst og fremst spilað á píanó og trommur.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ég tók upp listamannsnafnið Bláskjár fyrir tveimur árum þegar ég byrjaði að syngja af einhverri alvöru. Fram að því hafði ég verið lengi í tónlist, en fyrst og fremst spilað á píanó og trommur. Þegar ég fór að syngja fann ég fyrir ákveðinni feimni. Ég bjó mér því til alteregó sem nefnist Bláskjár, sem er lítil ofurhetja með bláa skikkju sem ég ímynda mér að ég klæðist þegar ég kem fram. Ofurhetjan Bláskjár er aldrei hrædd við að koma fram,“ segir Dísa Hreiðarsdóttir um tilurð listamannsnafns síns. „Bláskjár er líka notað yfir bláeygt fólk, svo það hentar mér vel.“ Spurð hvort hún sé enn jafn feimin að syngja svarar Bláskjár því neitandi. „Þegar ég byrjaði að syngja fannst mér röddin mín ekki hljóma fallega, en ég er alveg búin að taka hana í sátt núna.“

Segir sögur frá hjartanu

Bláskjár hyggst leika eigin tónlist á tónleikum á Loft hosteli í Bankastræti í kvöld kl. 21. Þar kemur einnig fram Íris Hrund Þórarinsdóttir sem notar listamannsnafnið ÍRiS, en báðar eru þær starfandi með hljómsveitinni Grúska Babúska. „Það er einhver þráður sem tengir okkur og tónlistin okkar passar vel saman á einum og sömu tónleikunum. Þetta eru fyrstu tónleikarnir sem við höldum saman sem sólólistamenn, en vonandi verða þeir fleiri,“ segir Bláskjár og bendir að þær muni báðar flytja sólóverk sín sem tilheyra nýjum og væntanlegum útgáfum. Bláskjár hyggst síðar í þessum mánuði senda frá sér stuttskífuna As I pondered these things , sem hefur að geyma sex frumsamin lög. „Tónlistin mín er í grunninn þjóðlagatónlist eða alþýðutónlist sem ég er búin að mixa upp. Þannig er þetta blanda af akústískri og elektrónískri alþýðutónlist, þar sem áhersla er lögð á sögumennsku og að túlka tilfinningar,“ segir Bláskjár sem semur textann við helming laganna. „Í þremur lögum samdi ég hins vegar tónlist við gömul ljóð eftir Davíð Stefánsson, Guðrúnu Árnadóttur frá Oddsstöðum og Stefán Ólafsson. Mér finnst gott að segja sögur frá hjartanu sem og túlka textana frá öðrum.“

Einir tónleikar í mánuði

Aðspurð hvers vegna Bláskjár hafi stigið fram fyrir tveimur árum segir listakonan að kveikjan hafi orðið í Listaháskóla Íslands. „Ég var í mastersnámi og útskrifaðist með MMus-gráðu í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi frá LHÍ vorið 2014. Um svipað leyti kynnti ég Bláskjá til sögunnar,“ segir listakonan sem áður hafði lokið BA-námi í tónsmíðum með áherslu á sviðslistatónlist frá sama skóla.

Að sögn Bláskjás setti hún sér það sem nokkurs konar áramótaheit að leika á a.m.k. einum tónleikum í mánuði. „Maður þarf að vera sýnilegur til þess að tónlistin rati sem víðast,“ segir Bláskjár, sem hlaut góðar viðtökur við tónsköpun sinni á síðasta ári, en smáskífan hennar „Silkirein“ var meðal annars valin „íslenska lag ársins 2015“ á tónlistarblogginu Rokmusic ásamt því að komast inn á lista yfir 150 bestu lög ársins hjá tónlistarblogginu Beehype. Þess má að lokum geta að aðgangur að tónleikunum í kvöld er ókeypis.