Ekki er ástæða til að sitja auðum höndum föstudaginn 5. febrúar næstkomandi því þá verður Safnanótt á Seltjarnarnesi haldin hátíðleg á Bókasafni bæjarins frá kl. 19-24.
Mikið verður um dýrðir en safnanóttin nær hápunkti sínum þegar Jói og Thea leiða alla saman í stórskemmtilegt grímuball. Koma öskudagsbúningarnir þá að góðum notum. Söngurinn mun einnig óma en Inga Björg Stefánsdóttir skipuleggur stóra söngdagskrá þar sem fram koma kórar á Nesinu og ungir söngvarar í fremstu röð. Þá verður Elsa Nielsen, bæjarlistamaður, með úrval af skrautlegu hráefni til grímugerðar en ballgestir geta borið sínar eigin persónulegu grímur sem gerðar eru á staðnum. Rúsínan í pylsuendanum verður svo tónlistarsveifla með einum eftirsóttasta trúbador landsins, Bjössa Greifa.
Safnanóttin teygir sig einnig í sýningarýmið í Nesi en þar stendur yfir útskriftarsýning Ljósmyndaskólans.