Jóhanna Hallgrímsdóttir fæddist í Hafnarnesi við Fáskrúðsfjörð 29. ágúst 1934. Hún andaðist á Landspítala Fossvogi 22. janúar 2016.

Hún giftist Daða Magnússyni 11. október 1958. Hann lést 1989.

Börn þeirra eru Magnús Daðason, giftur Svölu Pálsdóttur, Herborg Daðadóttir Brylowe, gift Drew Brylowe, Daði Daðason, giftur Ósk Svavarsdóttur, og Vignir Daðason. Barnabörnin eru 11 og barnabarnabörn sex.

Útför Jóhönnu fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 4. febrúar 2016, klukkan 13.

Elsku mamma mín. Nú þegar ég sest hér niður og hripa nokkur vel valin orð um þig og okkar samveru á þessari jörð verður mér í fyrsta skipti orða vant; að finna orð sem lýsa þér í þessari stuttu minningargrein er ekki auðvelt en orð eins og fegurð, kærleikur og guðdómleg koma upp í hugann.

Það eru mörg augnablikin sem ég upplifði með þér sem vekja hjá mér bros og hlýju, sér í lagi þau skipti er við sátum saman og hlógum að sögum sem þú sagðir af sjálfri þér, þegar þú varst yngri að árum, frá búskap þínum og föður míns.

Ég minnist þess einnig hve kærleiksrík og falleg þú varst og ert í huga mínum og þinna fleygu orðatiltækja sem ég því miður fattaði ekki fyrr en mörgum árum síðar eins og „upp skal fjöll klífa“ og „það ber ekki allt upp á sama dag“.

Það er nefnilega svo satt, mamma – það ber ekki allt upp á sama dag.

Þú vildir halda öllum góðum, fólk átti að vera alltaf gott og lifa í ást og friði. Ég minnist sögunnar þegar þú hafðir rjúpurnar í matinn sem Gummi frændi sendi okkur oft fyrir jólin, að mig minnir, og ég vildi ekki borða rjúpur því mér fannst þær vondar. Ég vildi bara lunda og þú hnýttir alltaf slaufu á lundann fyrir mig til að auðvelt væri að þekkja hann frá rjúpunum.

Það var ekki fyrr en 30 árum síðar að ég fór á villibráðarhlaðborð og bragðaði rjúpu í fyrsta sinn. Ég hitti þig daginn eftir og tjáði þér þau tíðindi og þú sagðir með stóískri ró: „Viggi minn, þú hefur allaf borðað rjúpur, ég batt bara slaufu á rjúpuna svo þú héldir það vera lunda – ég bara þorði ekki að segja þér frá því því ég var hrædd um að þú myndir reiðast.“

„Ótrúlegt,“ hugsaði ég með mér, móðir mín hafði með klækjum sínum leikið á mig og voru þau eflaust mörg skiptin sem á eftir fylgdu, það er hún þorði ekki að segja.

Mig langar að þakka þér fyrir að vera til staðar fyrir mig í gegnum árin, elsku mamma mín, og alla þá ást og hlýju sem þú sýndir mér og dóttur minni, henni Sigurbjörgu Nönnu, sem þú varst svo stolt af og talaðir mikið um í mín eyru.

Takk fyrir að gefast aldrei upp á mér mamma, takk fyrir að trúa á mig.

Mig langar einnig að senda þakkir til Heiðrúnar, Boddu, Gógó, Ellu Knúts og Hildar Kristjáns fyrir vinskap þeirra við móður mína og allra hinna sem komu nálægt lífi hennar í einhverri mynd – þið eruð mörg og þið vitið hver þið eruð.

Að lokum langar mig að skrifa niður hendingu sem ég orti vegna fráfalls föður míns árið 1989 og móður minni þótti mjög vænt um:

Nú kveður þú okkur með kossi og trú

úr Drottins forna landi

Þú friðinn munt finna

Þú friðinn munt fá

Þú friðarins andi

P.S. Bið að heilsa pabba og David Bowie.

Kær kveðja. Þinn sonur,

Vignir (Viggi Daða).

Elsku Nanna.

Kynni okkar hófust um leið og ég sá dóttur þína og varð yfir mig ástfanginn af henni.

Ég vil þakka þér fyrir allan þann stuðning og ást sem þú færðir fjölskyldu okkar en það hlýtur að hafa verið erfitt að horfa á eftir dóttur þinni rífa sig upp og flytja hinum megin á hnöttinn og stofna fjölskyldu. Ég mun alltaf virða þann stuðning er þú veittir okkur í gegnum árin og eftirsjá mín að hafa ekki náð að setjast niður með þér yfir kaffibolla og ræða um alla heima og geima við þig og tjá þér hversu yndislega dóttur þú ólst af þér og hversu mikið hún elskar þig og virðir. Þín verður sárt saknað.

Með ástarkveðju.

Þinn tengdasonur,

Drew.

Elsku Nanna amma.

Jafnvel þótt ég og þú töluðum ekki sama tungumálið fann ég alltaf hversu nánar við vorum og það var eins og við töluðum sama mál.

Það gaf okkur tækifæri til að þróa með okkur sérstakt samband sem byggðist á ást, virðingu og hlátri.

Þú gerðir Ísland að svo sérstökum stað í hjarta mér og bróður míns, Ísland var eins og annað heimili í huga okkar. Bæjarfélagið, heimili þitt og allar þær minningar sem ég hef í hjarta mínu hjálpa mér að finna fyrir nærveru þinni og friði. Þessi hlýja tilfinning umlykur okkur á þessari erfiðu stundu, þar sem sorgin læðist inn eins og þoka, en birta þín lýsir okkur veginn.

Við eigum eftir að sakna þín, amma. Ég heyri ennþá hlátur þinn og rödd þína hljóma í þögninni, öll hjörtun sem þú snertir með nærveru þinni finna fyrir söknuði.

Ég hef kannski misst þig í persónu en andi þinn svífur yfir vötnum og ást mín á þér dvínar ei. Ég veit þú fylgist með okkur öllum.

Þar til við hittumst aftur.

Ástarkveðja,

Sabrina.

Elsku Nanna amma.

Ég hef fengið það ótrúlega tækifæri að kalla þig ömmu mína í 22 ár. Það hryggir mig að hafa aldrei átt við þig alvöru samskipti vegna tungumálaörðugleika en samt fann ég sterka tengingu milli okkar. Ég dáðist alltaf að orku þinni og elju til hreyfingar, allir þessir löngu göngutúra sem þú fórst og hafðir gaman af. Nú ertu loksins gengin til náða, elsku amma mín, og gengur með honum afa um fjöll og firnindi, sá tími er kominn fyrir ykkur að hittast á ný.

Ég ætla ekki að kveðja þig endanlega, elsku amma, því ég veit við hittumst á ný síðar. Mér þykir endalaust vænt um þig og ég á eftir að sakna þín mikið en ég veit að þú munt vera í hjarta mér að eilífu. Þangað til næst, Nanna amma, elska þig og sakna.

Reiff.

Kæra Nanna.

Minningar mínar eru margar og góðar og þá sér í lagi sú minning um góðmennsku þína og hversu góð fyrirmynd þú varst og ert í huga okkar vinkvennanna. Við klæddumst flottustu buxum í bænum, framleiddum á Krossholti, „made in Krossholt“, sem þú saumaðir á okkur, ef ekki hálfa Keflavík. Alltaf varstu til í að keyra okkur á „djammið“ þegar Hebba dóttir þín og vinkona okkar kom til landsins. Þú fórst á dansiball á meðan við skemmtum okkur niðri í bæ og eftir djammið sóttir þú okkur og sást til þess að allir kæmust heim heilir á húfi. Elsku Nanna mín, við áttum margar góðar stundir er þú fluttir á Nesvelli og ég vona að þér líði vel núna, elsku vinkona, haltu áfram að dansa. Hittumst á balli hinum megin og ég skal keyra.

Þín vinkona,

Hildur.