[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristjón fæddist á Landspítalanum í Reykjavík klukkan fimm mínútur í sjö að kvöldi 4.2. 1976. „Ég ólst upp hjá móður minni í Reykjavík til fimm ára aldurs. Þá flutti ég til föður míns í Bolungarvík og bjó næstu árin hjá honum og afa mínum og ömmu.

Kristjón fæddist á Landspítalanum í Reykjavík klukkan fimm mínútur í sjö að kvöldi 4.2. 1976. „Ég ólst upp hjá móður minni í Reykjavík til fimm ára aldurs. Þá flutti ég til föður míns í Bolungarvík og bjó næstu árin hjá honum og afa mínum og ömmu. Þau eignuðust fjórtán börn og munaði ekki um eitt örverpi.

Amma færði mér kakó í rúmið og las fyrir mig þar til ég lognaðist út af. Á meðan lá afi inni í rúmi og las Íslendingasögurnar. Hann var einstæður persónuleiki sem heillaði fólk upp úr skónum svo það gleymdi honum aldrei. Ömmu verður líklega best lýst með þeim orðum að hún sagðist aldrei hafa drepið neina lifandi veru um ævina, nema eitt sinn flugu – og það var óvart.“

Á sumrin var Kristjón á sínum ættaróðölum, á Seljanesi og Dröngum á Ströndum: „Þeir staðir eru handan við rúm og tíma. Þar vaknar fólk þegar það er búið að sofa. Á Ströndum eru fjöllin snarbrött og hrikaleg og inni í fjörðunum sogar djúpið fjöllin til sín og þeytir þeim upp á yfirborðið. Selur klýfur sjóinn og horfir forvitinn á landið á meðan æðarkollan úar í fjörunni og krían gargar í varpinu. Í matinn var selkjöt, æðarkollu- og kríuegg. Það voru forréttindi að eyða æskunni þar sem tími náttúrunnar ríkir.“

Jólum, páskum og hluta úr sumri eyddi Kristjón hjá móður sinni í Reykjavík og heimsótti ömmu sína, Jóhönnu Kristjónsdóttur, og langömmu og langafa, Elísabetu og Kristjón, en hann lést þegar nafni hans var átta ára: „Við nafnarnir vorum mestu mátar. Við langamma spiluðum lönguvitleysu út í eitt og skáluðum í kók í gleri við eldhúsborðið á Reynimel.“

Fjórtán ára flutti Kristjón með föður sínum og fóstru, Jónu Sveinsdóttur, og tveimur systkinum, Gunnari og Önnu, til Hveragerðis þar sem hann lauk grunnskóla. Þá lá leiðin í ML og loks Fjölbrautaskóla Suðurlands án þess að ljúka námi. Kristjón var mikið í íþróttum og stefndi á atvinnumennsku í knattspyrnu. Hann hafði lítinn áhuga á að feta í fótspor ættingja og skrifa í blöð, semja bækur eða leikrit. En genin láta ekki að sér hæða og rétt eftir tvítugt kom út fyrsta skáldsaga hans hjá Máli og menningu.

Þá varð hann yfir sig ástfanginn og eignaðist tvíbura, Alexíu og Jóhönnu, en móðir þeirra er Helga Eygló Guðjónsdóttir. Fyrir átti hún Indíönu Ósk. Þremur árum síðar kom svo Helena Mánadís Helgudóttir í heiminn.

Næstu fjögur árin vann Kristjón hjá Íslenskri erfðagreiningu og skrifaði greinar í blöð og tímarit og starfaði síðan í tvö ár með Hrafni Jökulssyni, frænda sínum, við að reka skákfélagið Hrókinn. Þá skrifaði hann tvær bækur til viðbótar, skáldsöguna Frægasti maður í heimi og tók saman gamansögur af Ströndum.

Kristjón varð blaðamaður við Pressuna árið 2012 og seinna réðu Björn Ingi og Arnar Ægisson Kristjón sem ritstjóra Pressunnar og svo seinna dv.is eftir að Vefpressan festi kaup á DV: „Þar starfa ég með hæfileikaríkum blaðamönnum á skemmtilegasta vinnustað landsins.“

Helstu áhugamál Kristjóns eru bókmenntir, fjölmiðlar og kvikmyndagerð. Svo er hann forvitinn um mannlegt eðli og líkt og afa hans, Kristni frá Dröngum, þykir honum vænst um forvitnina sem afi hans kallaði kjarna mannlegrar tilveru og sagði nauðsynlegt að halda henni við: „Þegar sá dagur rennur upp að ég uppgötva að forvitnin er farin, þá kalla ég þetta gott og þakka fyrir mig.“

Fjölskylda

Börn Kristjóns eru Indíana Ósk Róbertsdóttir, f. 8.9. 1991; Jóhanna Líf Kristjónsdóttir, f. 14.4. 1997; Alexía Sól Kristjónsdóttir, f. 14.4. 1997, og Helena Mánadís Helgudóttir, f. 8.6. 2000.

Hálfbræður Kristjóns, sammæðra, eru Garpur I. Elísabetarson, f. 26.4. 1984, kvikmyndagerðarm. í Reykjavík, og Jökull I. Elísabetarson, f. 26.4. 1984, stærðfræðingur í Reykjavík.

Hálfsystkini Kristjóns, samfeðra, eru Gunnar Óli Guðjónsson, f. 30.11. 1986, landslagsarkitekt á Selfossi, og Anna Jakobína Guðjónsdóttir, f. 11.10. 1988, hjúkrunarfr. í Reykjavík.

Foreldrar Kristjóns eru Guðjón Kristinsson, f. 4.10. 1954, hleðslumeistari á Selfossi, og Elísabet Kristín Jökulsdóttir, f. 16.4. 1958, rithöfundur í Reykjavík.

Stjúpmóðir Kristjóns er Jóna Valdís Sveinsdóttir, 22.12. 1959, skrúðgarðyrkjumeistari í Reykjavík.