Ágústa Sverrisdóttir fæddist á Akureyri 11. september 1946. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 26. janúar 2016.

Foreldrar hennar voru Andrea G. Jónsdóttir, f. 29. ágúst 1923, d. 4. júní 1991, og Sverrir Árnason, f. 22. júlí 1920, d. 26. september 2001.

Systkini Ágústu eru Hörður, f. 1940, d. 2015, Ingólfur, f. 1943, Árni, f. 1944, Ragnar, f. 1949, Ólafur, f. 1951, Gunnlaugur, f. 1952, og Guðný, f. 1956.

Ágústa giftist 31. desember 1964 Birni Heiðari Garðarssyni vélvirkja, f. 15. mars 1944. Björn er sonur Snjólaugar Þorleifsdóttur, f. 5. júlí 1921, d. 13. apríl 1989, og Garðars Björnssonar, f. 4. júlí 1921, d. 27. mars 2012. Ágústa og Björn eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Margrét, f. 15. nóvember 1964, eiginmaður Einar Sveinn Arason, f. 3. janúar 1963, sonur þeirra er Arnar Ingi, f. 22. nóvember 1980. Synir hans eru Haraldur Orri, f. 26. maí 2001, Almar Andri, f. 11. maí 2008, og Úlfur Logi, 30. maí 2010. 2) Andrea, f. 12. október 1966, eiginmaður Sveinn Berg Hallgrímsson, f. 13. apríl 1962. Börn þeirra eru: a) Björn Orri, f. 13. september 1986, sambýliskona Inga Lára Guðlaugsdóttir, f. 24. maí 1982. b) Ágústa Ýr, f. 22. febrúar 1989, sambýlismaður Julian Kumar, f. 16. október 1985. c) Björgvin Logi, f. 26. ágúst 1993, sambýliskona Eydís Helga Pétursdóttir, f. 6. desember 1995. d) Aldís Eir, f. 5. ágúst 1995. 3) Birgir, f. 30. mars 1968, eiginkona Kristín Hallgrímsdóttir, f. 17. nóvember 1966. Börn þeirra eru: a) Birta, f. 24. apríl 2003. b) Alex Breki, f. 26. maí 2005. Fyrir átti Birgir soninn Elvar Aron, f. 13. júlí 1993. Stjúpdóttir Birgis er Júlía Ingadóttir, f. 20. desember 1996.

Ágústa ólst upp á Akureyri og gekk í Barnaskóla Akureyrar og síðan í Gagnfræðaskóla Akureyrar. Ágústa og Björn bjuggu lengst af á Akureyri en fluttu til Reykjavíkur 1999 og síðan til Selfoss árið 2013. Ágústa vann hjá Iðnaðardeild Sambandsins, einnig vann hún lengi hjá KEA og síðast hjá Landsbankanum á Akureyri.

Útför Ágústu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 4. febrúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elsku amma.

Það er svo óraunverulegt að þú sért farin frá okkur. En það er mikilvægt að muna að þú lifir í hjörtum okkar um ókomna framtíð. Ég mun alltaf heyra hláturinn þinn þegar fjölskyldan hittist, því hláturinn þinn var hávær og dillandi. Það eitt að heyra hláturinn þinn útskýrði vel hver þú varst. Þú nefnilega gerðir bara það sem þú vildir og þurftir, hvað sem aðrir myndu segja um það.

Amma, ég er svo heppin að hafa fengið að umgangast þig og afa mikið í gegnum ævina. Ég man hvað við systkinin vorum alltaf spennt þegar þið komuð í heimsókn, þá sérstaklega þegar við bjuggum í gamla húsinu á Skálanesi, þar höfðum við systkinin góða glugga í eldhúsinu til þess að sjá nákvæmlega hvenær þið mynduð renna í hlað.

Fyrstu árin sem ég gekk í framhaldsskóla fékk ég svo að búa hjá ykkur afa og ég man aldrei eftir því að þið hafið skammað mig, óharðnaðan unglinginn sem eflaust gerði ýmislegt sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá ykkur. En það sem ég tók eftir á þeim tíma var hvað þú varst mikil skvísa, amma, þú varst alltaf með varalit í veskinu, helst tvo. Ég man alltaf eftir því þegar ég kom heim og þú sýndir mér nýju flíkina sem þú keyptir þér í tískuvöruversluninni sem seldi föt fyrir unglinga eins og mig. Þú varst kát með flíkina, en svo fer öðrum sögum af því hvort þú hafir notað hana. En þetta varst þú, amma, ef þú sást fallega flík í unglingatískuvöruverslun þá keyptir þú hana sama hvað fólk hugsaði.

Hvert sem leiðin liggur hjá þér núna, elsku amma mín, þá veit ég að þú gerir það með þínum einstaka hætti. Þú gerir það sem þarf að gera og hlærð langhæst því þannig er best að vera.

Nú glóir skyndilega ný fastastjarna

í bládjúpi næturhiminsins:

ástargjöf liðinna stunda

sem geislar frá sér lífi minninga.

(Jóhannes úr Kötlum)

Ágústa Ýr Sveinsdóttir.

Ágústa systir mín varð strax mikill gleðigjafi í litlu fjölskyldunni okkar í Brekkugötu 29 á Akureyri enda kom með henni loks stúlka eftir þrjá drengi foreldra okkar. Pabbi kallaði hana einlægt „heimasætuna“ og leyndi ekki aðdáun sinni á henni og öllum hennar athöfnum. Hún var sannkallað ljós í húsi, síbrosandi og þæg, grét ekki nema brýna nauðsyn bæri til og þá af fullri einurð því stórt skap leyndist undir niðri. Svo stækkaði hún með okkur bræðrum og lét til sín taka í 30 fermetra íbúðinni okkar þar sem allt lék í lyndi við leik og hverskonar bardús; hamingjan réð ríkjum og systurnar nægjusemi og nýtni í hávegum hafðar. Hún var að verða tveggja ára þegar við fluttum í Ránargötuna þar sem við spruttum úr grasi og fleiri börn bættust við og úr varð átta systkina hópur – sex drengir og tvær stúlkur.

Segir fátt af fjölbreytilegum atburðum sem þar gerðust næstu árin en oft var fjörið svo mikið að naumast varð við ráðið. Þarna spratt Ágústa systir eins og blóm í túni með sína ljósu lokka og heillaði alla sem á vegi hennar urðu. Hún reyndi stundum að róa okkur bræður þegar við vorum hávaðasamir og steyttum jafnvel görn hver við annan til að þróa með okkur karlmennskuna sem við héldum þá að væri æðst dyggða. Systir okkar hafði engan skilning á þeim rembingi, brosti til okkar og bað okkur að vera stillta. Það væri best. Þannig hafði hún góð áhrif á okkur eins og hún hefur haft allt sitt líf á sína nánustu; hún var kona friðar og sátta.

Farsæl unglingsár tóku við með skólagöngu, leik og starfi. Stundum þótti okkur bræðrum jákvæðni systur okkar ganga úr hófi þegar hún lét ekkert raska ró sinni þó ýmislegt hafi verið mótdrægt eins og gerist í lífsins ólgusjó. Þá brosti hún bara sínu blíðasta og fullyrti að allt gengi ágætlega enda þótt við hin hefðum af sama tilefni áreiðanlega barið lóminn og viljað láta vorkenna okkur. Nei, ekki hún systir okkar, hún tók flestu andstreymi með jafnaðargeði.

Árin liðu og fyrr en varði var hún orðin gjafvaxta og blómstraði sem aldrei fyrr. Þá kom Björn til sögunnar og litla systir okkar varð eiginkona hans og þar með ráðsett frú okkur bræðrum hennar til mikillar furðu. Björn féll strax vel inn í fjölskylduna og það svo að hin síðari ár var hann stundum kallaður sjöundi bróðir okkar systkina. Ekki er ofsögum sagt að rösklega fimm áratuga hjónaband þeirra Ágústu og Björns var einkar farsælt enda studdu þau hvort annað í blíðu og stríðu. Þar bar hæst umhyggju Björns fyrir systur okkar hin síðari ár þegar hún átti við vanheilsu að stríða. Þá komu mannkostir hans vel í ljós.

Þeim hjónum varð þriggja barna auðið sem öll eru mikið myndar- og gæfufólk og eru afkomendurnir þeirra alls fimmtán talsins. Það verður að teljast dýrmæt arfleifð.

Nú er Ágústa systir fallin frá langt fyrir aldur fram eftir stutta og harða baráttu við óvæginn sjúkdóm. Okkur, sem vorum svo gæfusöm að eiga hana að, er þakklæti efst í huga; minning hennar lifir og verður okkur öllum dýrmæt í sorginni.

Ingólfur Sverrisson.