Helgi Sigurjónsson fæddist 19. janúar 1919. Hann lést 20. febrúar 2016.
Útför Helga var gerð 29. febrúar 2016.
Elsku afi okkar hefur nú kvatt þessa jarðvist. Vegna aldursbils okkar systkina eigum við mismunandi æskuminningar um Helga afa. Helgi og Sibba ólust sín fyrstu ár upp með afa og ömmu inni á heimilinu þar sem foreldrar okkar stunduðu búskap með þeim í Torfum. Þá þótti gott að geta kíkt yfir í afa og ömmu eldhús ef þar bauðst eitthvað betra en í mömmu og pabba eldhúsi. Afi og amma flytja til Akureyrar árið 1977 og eiga yngri systkinin, Silla, Þórir og Obba, því sínar fyrstu minningar um afa úr Glerárgötunni þar sem þau bjuggu til margra ára. Það voru fastir liðir í bæjarferðum að fara í hádegismat í Glerárgötuna og var þar oft margt um manninn. Við krakkarnir lékum okkur oft í „Gulur rauður, grænn, og blár“ í stiganum sem lá á milli hæða en pössuðum okkur alltaf á að hafa ekki of hátt til að trufla ekki Óla og Mæju á neðri hæðinni.
Afi var mikill safnari, átti gríðar margar bækur og safnaði meðal annars frímerkjum. Við systkinin áttum líka okkar frímerkjabækur sem pabbi hjálpaði okkur að safna í og fengum við oft bunka af bréfsnifsum með frímerkjum á með okkur heim frá afa.
Afi okkar lifir í minningunni sem mikill dugnaðarforkur og göngugarpur. Hann var duglegur að ganga um götur bæjarins og hélt sér þannig í formi fram á síðari árin. Það brást varla að á ferðum manns um eyrina og miðbæinn rakst maður á afa á fullri ferð með stafinn sinn, annaðhvort í heilsubótargöngu, búðarferð eða í sendiferð fyrir vini sína sem áttu fyrirtæki í miðbænum.
Elsku afi, við munum ávallt geyma þig í hjörtum okkar og ylja okkur við minningar um þig um ókomin ár. Við munum vel eftir fallega hvíta þykka hárinu þínu, brúna vinnusloppnum þínum þegar þú vannst í timburporti KEA, hversu hlýr faðmur þinn var, hvernig þú hristist allur til þegar þú hlóst innilega, hvernig þú hossaðir okkur á hnjánum á þér og hvernig „heillin“ fylgdi á eftir því sem þú sagðir við okkur. Við höfum líka verið svo heppin að fá að kynna börnin okkar fyrir þér, sem nú eru orðin fimmtán talsins, og eiga þau líka margar góðar minningar um þig.
Hvíl í friði.
Helgi, Sigurbjörg, Sigurlaug, Þórir og Þorbjörg.
Við spjölluðum mikið saman og ég gat alltaf leitað til þín, þú vissir miklu meira en aðrir um mig og hjálpaðir mér oft að læra. Ég tók oft viðtöl við þig á öllum skólastigum um hin ýmsu atriði, lífið í gamla daga, hvernig uppeldið var og vinnan og lífið hér áður fyrr. Þú hafðir svo gaman af þessu og ég kynntist þér betur og við hlógum mikið. Ég hjálpaði þér oft í hinum ýmsu verkum eins og að þrífa allar bækurnar þínar fyrir jólin. Þú áttir rosalega mikið af bókum og þurfti að taka hverja einustu bók úr hillunni, þurrka af henni og ryksuga hana. Þú varst með mikið skipulag á bókunum þínum, það var hægt að fletta upp í bók sem allt var skipulega skrifað niður eftir stafrófsröð höfunda. Við fundum okkur alltaf eitthvað til að binda inn eins og litlu bækurnar mínar 50 sem eru bundnar inn í sex bindi og strákarnir mínir eru svo heppnir að fá að lesa núna.
Þegar jólin nálguðust þá skreytti ég og jú þú varst vanafastur og auðvitað átti jólaskrautið sinn stað.
Þegar ég sagði þér að ég væri ólétt að Róbert Darra varstu svo spenntur og alltaf að velta því fyrir þér hvort hann væri strákur. Ég veiktist mikið eftir fæðinguna og þú gast ekki beðið lengur, ákvaðst að koma upp á sjúkrahús og kíkja á prinsinn. Ég á svo flotta mynd þar sem þú situr með hann í fanginu uppi á sjúkrahúsi, stoltur langafi. Eins þegar ég var ólétt að Helga Frey þá fannst þér ég nú orðin frekar digur og hvort hann væri nú ekki að koma út. Það kom að því og þegar ég sagði þér að ég ætlaði að fara að skíra á morgun þá sagðir þú: „Aumingja drengurinn, hann fær nú örugglega ekki fallegt nafn.“ Húmorinn alltaf til staðar hjá þér. Hinsvegar þegar þú heyrðir nafnið kom kökkur í hálsinn og heyrðist að þú varst rosalega ánægður með enn einn nafnann. Það var sárt að kveðja en ég fékk góðan tíma með þér og strákarnir mínir líka. Nú lifa minningarnar og ég mun segja strákunum allt sem við brölluðum saman.
Þín afastelpa,
Sædís Eva.