Dómkirkjan var böðuð sólskini og ég var gagntekinn af ábyrgð þegar ég var kominn í kyrtilinn,“ segir Bergþór Pálsson söngvari, þegar hann er beðinn um að rifja upp ferminguna sína. „Mér fannst þetta ótrúlega „fullorðins“ og ég man sælustrauminn sem leið um líkamann þegar kórinn söng: Leið oss ljúfi faðir.
Sautjándi október 1971 var fermingardagurinn minn, sem sagt haustferming. Ástæðan var sú að vorið áður voru mamma og pabbi í basli með að byggja yfir okkur ungana og flytja. Það átti að halda fermingarveislu heima og það var ekki einu sinni pælt í því að leigja sal. Þetta var sem sagt þegar eplakassi og kók voru munaður, sem var keyptur fyrir jólin. En til að halda veislu þurfti að vera búið að setja hurð fyrir klósettið og sópa burt mesta rykið.“
Frómas með rjóma
Góður dagur, 17. október, fyrir 45 árum?
„Þessi dagur var þá sá besti sem ég hafði lifað. Það sem stendur upp úr er að þetta var í fyrsta skipti sem ég gerði mér grein fyrir því hvað það er mikilvægt að eiga bakland í lífinu í velviljuðu fólki. Það kom færandi hendi, brosandi út að eyrum og mér fannst ég öruggur og umvafinn hlýju.“
Vel heppnuð veisla, á nýja heimilinu?
„Veislan var vel heppnuð, það var gúllas í matinn og frómas með rjóma í eftirmat. Allir voru sáttir. Á þessum árum skiptust kynin oft í hópa í boðum og í karlahópnum var pólitík mest áberandi. Afi hafði heyrt Gylfa Þ. Gíslason komast vel að orði í þinginu og mér er minnisstætt hvað hann hló dátt og lengi.
Pabbi settist við píanóið og tók fjárlögin, eins og alltaf í fjölskylduboðum. Gestirnir hópuðust í kring og sungu úr sér hjartað. Mamma og Fríða frænka þöndu raddböndin og voru orðnar þrútnar í framan af geðshræringu þegar komið var að: Fjær er hann ennþá frá iðgrænum dölum. Þetta er dásamleg minning.
Sautjándi október er því alltaf svolítil hátíð í huganum og í hvert skipti sem ég rekst á fermingarsystkinin hlýnar mér. Sameiginlegar minningar eru mikilvægar í lífinu.“
Fötin of lítil
Fékkstu aðstoð við að velja fermingarfötin?
„Mamma sendi mig í Herrahúsið og þar var ég strílaður upp samkvæmt nýjustu tísku. Breitt var betra. Jakkabörð og slaufur áttu samt eftir að breikka helmingi meira. Já, maður fór sem sagt gangandi eða í strætó þarna í fornöld. Reyndar er ég byrjaður á því aftur, næstum hálfri öld síðar.
Eiginlega var ég frekar ánægður með mig. Samt var ég svo óheppinn, eða heppinn eftir því hvernig á það er litið, að ég byrjaði að breytast í karlmann tveimur mánuðum fyrir fermingu, lengdist með ljóshraða og fötin gat ég ekki notað nema í þetta eina skipti.“
Fermingarmyndin, kannastu
við þig?
„Þegar ég sá fermingarmyndina fékk ég áfall því ég var ekki enn búinn að venjast því að vera með þrefalt nef. Myndinni var því stungið undir stól. Ekki skánaði það þegar tískan breyttist, 5 til 10 árum seinna var þetta um það bil lúðalegasti stíll sem hafði villst á mannkynið. Í dag er ég bara ánægður með þennan samviskusama unga mann og gæfi honum mín bestu meðmæli.“
beggo@mbl.is