Donald Tusk
Donald Tusk
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB), var ómyrkur í máli er hann ræddi við fjölmiðlamenn þar sem hann var staddur á Grikklandi í tengslum við gríðarlegan straum flóttafólks þangað undanfarna mánuði.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB), var ómyrkur í máli er hann ræddi við fjölmiðlamenn þar sem hann var staddur á Grikklandi í tengslum við gríðarlegan straum flóttafólks þangað undanfarna mánuði.

„Hvaðan sem þið eruð – komið ekki til Evrópu,“ sagði Tusk og beindi orðum sínum að efnahagslegum flóttamönnum sem hafa í hyggju að ferðast með ólögmætum hætti til ríkja Evrópu og sækja þar um hæli. Hafði Tusk skömmu áður setið fund með Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, þar sem flóttamannavandinn var til umræðu.

„Trúið ekki smyglurunum. Ekki hætta lífi ykkar og fjármunum. Það er til einskis,“ sagði Tusk ennfremur á fundi með blaðamönnum.

Vandinn í Grikklandi er nú afar mikill og þá meðal annars vegna þess að landamæri Makedóníu eru kirfilega lokuð. Hafa lögreglumenn sem þar standa vaktina einungis hleypt örfáum flóttamönnum í gegn.

Í Grikklandi eru nú um 30.000 flóttamenn og virðist ekkert lát vera á straumi fólks þangað. Telur Evrópusambandið minnst 12.000 þeirra lifa við afar slæmar aðstæður. khj@mbl.is