Lopi „Markaðsefnið frá Geysi finnst mér nánast alltaf fagurt
Lopi „Markaðsefnið frá Geysi finnst mér nánast alltaf fagurt
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúna Dögg Cortez, stafrænn stjórnandi hjá Brandenburg hrósar m.a. Skiltamálun Reykjavíkur

Á Brandenburg vorum við að vinna með margar skemmtilegar hugmyndir á síðasta ári en almennt fannst mér koma fram ýmsar góðar og vel útfærðar hugmyndir í misstórum útfærslum.

Mér fannst til dæmis #askgudmundur – mennska leitarvélin frá Inspired by Iceland flott og lifandi verkefni sem var skemmtilega útfært og vel til þess fallið að lifa yfir langt tímabil og ná góðri dreifingu. Íslendingar fá eflaust margir hverjir kjánahroll en fyrir markhópinn sýnist mér þetta hafa virkað vel.

Markaðsefnið frá Geysi finnst mér nánast alltaf fagurt og auglýsingarnar og tímaritið sem komu frá þeim á síðasta ári voru engin undantekning. Þau ná að viðhalda þessum sterka Geysisanda enda er ekki verið að hlaupa með stílinn eða skilaboðin út um allar trissur, hvorki í markaðsefni né í umgjörð verslana.

Myndbandið fyrir #sonnfegurd frá Dove fannst mér vel heppnað. Þarna er ekki verið að flækja skilaboðin með óþarfa útúrsnúningi. Myndbandið tengdist verkefninu The Body Project sem vinnur að bættri líkamsmynd stelpna á Íslandi og náði vel að sýna hvað líkamsmynd brenglast þegar komið er á unglingsárin.

Icelandair – Velkomin heim-serían – ekki annað hægt en að nefna hana þar sem þær auglýsingar segja sögur sem ná til manns.

Vefur Landsvirkjunar vegna Búrfellslundar fannst mér vel heppnaður. Í staðinn fyrir að leggja fram upplýsingar í tengslum við umhverfisáhrif í hundraða síðna prentaðri skýrslu var efnið gert aðgengilegra með þessum vef og greinilega mikið lagt í að koma upplýsingum fram með skýrum hætti.

Að lokum fannst mér veggurinn hjá Hönnunarmiðstöð í tengslum við Hönnunarmars – og fleiri veggir sem Skiltamálun Reykjavíkur hefur meðal annars séð um að mála – falleg þróun á framsetningu skilaboða og merkingum húsa. jonagnar@mbl.is