Skýrsluformið sem notað hefur verið um langt árabil hjá KSÍ hefur boðið upp á þennan möguleika en sárafá félög hafa nýtt sér það og uppfært skýrslurnar á meðan leikirnir eru í gangi. Helst að þetta sé gert í landsleikjum og þá aðallega hjá yngri landsliðunum.
Það eina sem KSÍ þarf að gera er að skylda félögin til að vera með einn mann í því á hverjum leik að afgreiða skýrsluna á þennan hátt. Eins og það er einfalt mál á öðrum áratug 21. aldarinnar og hægt að gera þetta í gegnum snjallsímann.
Körfuboltafélögin hafa uppfært sínar skýrslur „í beinni“ um árabil, og KKÍ sendir meira að segja niðurstöðurnar til fjölmiðla um leið og flautað hefur verið af. Þar er skráður fjöldi atriða, stig, stoðsendingar, fráköst, villur og margt fleira. Yfirleitt þarf fleiri en einn aðila til að sjá um „stattið“ í hverjum körfuboltaleik og þeir sem sjá um það þurfa heldur betur að vera með athygli á leiknum allan tímann.
Á meðan er það afslappað starf hjá einum manni að uppfæra mörk, spjöld og innáskiptingar í fótboltaleik og staðfesta að honum sé lokið um leið og hann er flautaður af.
Engin merki eru enn sjáanleg um að þetta verði tekið upp hjá KSÍ á þessu ári, allavega ekki það sem af er í Lengjubikarnum. En það er tími til stefnu og það væri óskandi að úr þessu yrði bætt áður en flautað verður til leiks á Íslandsmótinu 1. maí.