„Svokallað Moggabarn, sem hljómar eins og eitthvað sem einhverjir gætu óttast, er víst á leið í heiminn“

Ég er ekki kona einsömul og geng með barn undir belti. Ég er ólétt eftir samstarfsmann, sem er reyndar einnig kærastinn minn, en hið fyrra hljómar skemmtilegar og höfum það því þannig.

Svokallað Moggabarn, sem hljómar eins og eitthvað sem einhverjir gætu óttast, er víst á leið í heiminn.

Nú er ég frekar nýlega komin yfir þriggja mánaða markið, þegar óhætt telst að auglýsa ástandið, og hef síðan fengið ófáar fyrirspurnir um hvenær ég ætli að tilkynna þetta á Facebook. Þar sem ég er frekar illa innrætt að eðlisfari hef ég ákveðið að gera þessu fólki það ekki til geðs og sleppa því alfarið. Frekar tilkynni ég þetta í Morgunblaðinu eins og allt venjulegt fólk gerir.

En raunverulega ástæðan fyrir því að tilkynning um þetta rataði ekki á samfélagsmiðla var kvíðahnútur yfir framsetningunni.

Ég var síðast ólétt fyrir níu árum og það var fyrir tíð Facebook. Þá var lífið miklu auðveldara og ég man ekki til þess að nokkur einasta krafa hafi verið gerð um sérstaka fréttatilkynningu um efnið.

Ég tel mig hafa séð flest allt sem er til á Internetinu og þar á meðal úrval af misgóðum óléttutilkynningum. Sumar eru hefðbundnar með fallegri sónarmynd og aðrar eru frumlegar og sniðugar. Síðan eru einhverjar sem eru bara furðulegar og myndefnið er þá kannski þriggja mánaða gamalt jákvætt þungunarpróf eða rifinn smokkur.

Ef þessi tilkynningarskylda er viðurkennd þarf væntanlega einnig að tilkynna um kyn barnsins. Ekki skilur maður 800 nánustu vini sína og vandamenn eftir í lausu lofti. Þá er hægt að skera í köku, sem ýmist er með bleikri eða blárri fyllingu, eða mála óléttubumbuna í fyrrgreindum litum. (Já, ég hef séð báða kostina framkvæmda.)

Síðan þarf að sýna árangurinn þegar bumban er orðin stór. Þá er farið í myndatöku, þar sem foreldrarnir eru berir að ofan, og faðirinn heldur blíðlega um bumbubúann. Að því loknu þarf að skella vængjum á barnið og setja það í fötu fyrir krúttlega ungbarnamyndatöku eftir fæðingu. Auðvitað fer það líka beint á Facebook þar sem nokkur „like“ eru nauðsynlegur þáttur þess að eignast barn.

Allt framangreint hefur verið gert af fólki sem var líklega frekar eðlilegt áður en barnið kom undir. Með stækkandi bumbu virðist heilbrigt skynbragð á klisjur hins vegar dragast saman og hverfa að lokum algjörlega.

Því fylgir nokkurt álag að vera óléttur og eignast barn. Því fylgir líka töluvert álag að fylgjast með öllu þessu á samfélagsmiðlum. Það ríkir nefnilega þögult samkomulag um að bannað sé að gera grín að barnamyndum.

En ég spyr hvar þetta endar. Samfélagsmiðlar hafa einungis verið til í nokkur ár. Myndir frá getnaði virðast að minnsta kosti næsta rökrétta skrefið. Þetta veldur kvíðnu fólki eins og mér töluverðum áhyggjum. Hér með tilkynnist þess vegna að ég ætla ekki að taka þátt í þessu þangað til óléttuþokan leiðir mig í aðrar ógöngur.

sunnasaem@mbl.is

Höf.: sunnasaem@mbl.is