Kristjan Stefanson, hæstaréttardómari í Winnipeg í Kanada, andaðist á Grase-spítalanum í Winnipeg þriðjudaginn 2. mars síðastliðinn. Kristjan eða Kris, eins og hann var gjarnan nefndur, fæddist í Eriksdale í Manitoba 14. maí 1944 og var því á 72.

Kristjan Stefanson, hæstaréttardómari í Winnipeg í Kanada, andaðist á Grase-spítalanum í Winnipeg þriðjudaginn 2. mars síðastliðinn.

Kristjan eða Kris, eins og hann var gjarnan nefndur, fæddist í Eriksdale í Manitoba 14. maí 1944 og var því á 72. aldursári. Foreldrar hans voru Eiríkur Stefánsson, þingmaður íhaldsmanna á kanadíska þinginu 1958 til 1968, og Sigrún Sigfúsdóttir (Stefanson, áður Sigurdson). Foreldrar Eiríks voru Kristján Stefánsson (f. 1873) frá Undirvegg í Kelduhverfi og Rannveig Eiríksdóttir (f. 1877) frá Hrærekslæk í Hróarstungu í Norður-Múlasýslu. Foreldrar Sigrúnar voru Sigfús Sigurðsson (f. 1874) frá Klömbrum í Reykjadal og Sigurlaug Jónsdóttir Frímanns Sigurdson (f. 1878) frá Ási í Kelduhverfi. Eiríkur og Sigrún eignuðust fjóra syni, Dennis, sem lést 2010, Tom, Kris og Eric.

Kris ólst upp á Gimli. Hann lauk laganámi við Manitoba-háskóla 1969, var saksóknari í Manitoba frá 1973-1993 og hæstaréttardómari (Court of Queen's Bench) frá 1993.

Bræðurnir Kris og Eric Stefanson, fyrrverandi ráðherra í Manitoba, unnu að því að styrkja tengsl Manitoba við Ísland frá 1984 og heimsóttu Ísland saman í þeim tilgangi yfir 40 sinnum. Kris var í móttökunefnd Íslendingadagsins á Gimli í um 40 ár og þar af sem formaður í nær þrjá áratugi. Sem slíkur tók hann á móti öllum sérstökum gestum frá Íslandi, greiddi götu þeirra og hélt þeim og öðrum gestum sérstaka veislu í lok hátíðar á eigin kostnað. Fyrir tveimur árum heiðraði Íslendingadagsnefnd hann fyrir að hafa unnið manna mest í þágu vestur-íslenska samfélagsins í Manitoba í tengslum við samskipti þess við Ísland og útnefndi hann heiðursfélaga Íslendingadagsnefndar.

Kris var ókvæntur og barnlaus.

Haldið verður upp á líf Kris á Fairmont-hótelinu í Winnipeg kl. 17-19 fimmtudaginn 10. mars 2016.