Fjörutíu og níu merkingarmenn merktu alls 12.568 fugla af 77 tegundum á síðasta ári og er það rétt undir meðaltali síðustu 10 ára. Mest var merkt af skógarþresti, en ein tegund var merkt í fyrsta sinn hér á landi, ljóshöfðaönd, Anas americana. Á vef Náttúrufræðistofnunar hefur verið birt skýrsla um fuglamerkingar 2015.
Árið 2014 var aldursmet súlu slegið og gerðist það aftur árið 2015. Í bæði skiptin var um að ræða súlur sem voru merktar sem ungar í Eldey árið 1982. Fuglinn sem á aldursmetið nú fannst dauður á Orkneyjum í Skotlandi í ágúst síðastliðnum, þá rúmlega 33 ára gamall. Evrópumetið á ennþá bresk súla sem varð 37 ára og fimm mánaða.
Þá sást merkt álft við Arndísarstaði í Bárðardal í maí sem var orðin 28 ára og átta mánaða gömul. Þetta kann að vera elsta álft í Evrópu en það hefur ekki fengist staðfest.
Langförulasti fuglinn sem endurheimtur var í fyrra var kría sem merkt var sem ófleygur ungi sumarið 2013 í Óslandi við Höfn í Hornafirði. Hún fannst örmagna við Cape Town, S-Afríku í október síðastliðnum, 11.319 km frá merkingarstað.
Fuglar hafa verið merktir á Íslandi síðan árið 1921 hafa alls verið merktir 680.720 fuglar af 154 tegundum, mest af snjótittlingi eða rúmlega 80 þúsund fuglar.