Trúarjátningin Blær segir að trúarjátning hafi komið sér vel í rappinu.
Trúarjátningin Blær segir að trúarjátning hafi komið sér vel í rappinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Blær var ánægð með fermingarfötin sem voru öll keypt í Sautján og hefði viljað nota þau meira, en hún óx fljótt upp úr þeim og klæddist kjólnum því bara í þetta sinn.

Blær Jóhannsdóttir, leikkona og rappari, var alin upp af vinstrisinnuðum trúleysingjum og segir að það hafi ekki beinlínis verið í þökk fjölskyldunnar þegar hún ákvað að fermast. „En þetta var mín ákvörðun og þau studdu mig nú alveg og efndu til mjög veglegrar fermingarveislu,“ segir Blær.

„Ég var í raun ekkert búin að pæla í fermingunni þegar ég tek allt í einu eftir því að allar vinkonurnar voru að fara eitthvað eftir skóla. Ég vildi endilega vera með og komst að því að þær voru byrjaðar í fermingarfræðslu. Mér var leyft að skrá mig í fermingarfræðsluna og kom ekki að sök þó ég hefði misst af nokkrum tímum,“ segir hún. „Það var sumsé ekki vegna mikillar trúar að ég lét ferma mig, heldur aðallega vegna þess að mig langaði að vera með í hópnum.“

Trúarjátningin nýtist í rappinu

Blær stóð sig vel í fermingarfræðslunni og man trúarjátninguna enn. „Þessi þekking hefur komið sér vel í rappinu. Um daginn samdi ég t.d. rapp fyrir hönnunardeild LHÍ og skaut þar inn trúarjátningunni nema hvað eg skipti út nokkrum orðum fyrir fatahönnunarlingó. Útkoman vakti mjög mikla lukku.“

Man Blær aðeins glefsur úr sjálfri fermingarathöfninni, en man betur það sem gerðist fyrir og eftir athöfnina í Hallgrímskirkju. „Frændi minn og frænka sem bjuggu úti á landi komu til Reykjavíkur vegna fermingarinnar og gistu í íbúð sem stéttarfélagið þeirra hafði úthlutað þeim. Ég gisti þar nóttina fyrir ferminguna og horfði á Spy Kids um kvöldið. Vaknaði ég svo eldsnemma um morguninn og fór í hárgreiðslu á stofu sem var á Grettisgötunni en er ekki lengur til.“

Á meðan Blær sat í stólnum á hárgreiðslustofunni fletti hún í gegnum eitthvert íslenskt glanstímaritið og las af miklum áhuga viðtal við jafnaldra sinn, þrettán ára stúlku, sem hafði eignast barn með sautján ára strák. „Ég man að ég hugsaði sem svo að nú væri ég sumsé komin í fullorðinna manna tölu, fyrst fólk á mínum aldri væri farið að eignast börn.“

Kjóllinn var hvítur og ermalaus, skórnir hvítir og á þeim sylgja með gervidemöntum. „Ég var mjög ánægð með að allt það sem ég klæddist á fermingardaginn var keypt í Sautján,“ segir Blær. „Mig langaði til að nota kjólinn meira en óx nánast strax upp úr honum og klæddist honum aðeins þennan eina dag.“

Átti að vera aftast

Var Blær yngst í fermingarbarnahópnum en hún hafði verið færð upp um bekk á sínum tíma. Þar sem hún var yngst var hún líka sú lágvaxnasta af börnunum. Minnist Blær þess hvað hún var feiminn táningur, og leist henni ekki á blikuna þegar presturinn tók að raða börnunum upp og búa hópinn undir að ganga inn kirkjugólfið.

Hér er rétt að skjóta því inn að Blær og foreldrar hennar deildu lengi við Þjóðskrá um Blævar-nafnið og hafði nafnið ekki fengist formlega skráð á þessu tíma. „Presturinn kallaði mig oft Þuríði, sem er fornafnið mitt. Þegar hann raðaði okkur krökkunum upp fór hann eftir stafrófsröð og man ég að besta vinkona mín Auður var fremst og þannig koll af kolli: Auðunn, Berglind, Bjarni og svo framvegis. Fyrstu tvö börnin fengu í hendur risastóra kertastjaka með logandi kertum, en ég lenti aftast og var ein því ekki var jafn fjöldi barna í hópnum. Mér þótti þetta vera fulláberandi staður í röðinni og leist ekki á að augu allra í kirkjunni yrðu á mér.“

En þá skipti presturinn um skoðun. „Hann vitnaði í Biblíuna og sagði: „Þeir síðustu koma fyrstir“ og benti mér að koma fremst í röðina. Ég fékk gríðarstóran kross til að halda á. Allan tímann var ég logandi hrædd um að missa krossinn eða detta á rassinn, en gerði það þó ekki.“

Veislan fór fram í sal á Lækjarbrekku og að því er Blær fær best munað deildi hún veislunni með frænda sínum sem fermdist á sama tíma. „Vitaskuld var gestabók við innganginn og mér fannst fjarska gaman að skrifa í hana sjálf og bætti einhverju við með reglulegu millibili. Þar sendi ég gestunum skilaboð, teiknaði broskarla og tók heilu og hálfu blaðsíðurnar í að bjóða fólk velkomið og hvetja það til að skrifa í bókina.“

ai@mbl.is