Umræða Helgu fannst jóladagatal PIPAR/TBWA áhugavert inlegg.
Umræða Helgu fannst jóladagatal PIPAR/TBWA áhugavert inlegg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hellga Ferdinandsdóttir textasmiður hjá EnnEmm hreifst af dillandi bossum

Það voru fjölbreytt verkefni sem fengu tilnefningar til Lúðursins í ár, en eftirminnilegustu auglýsingarnar eiga það allar sameiginlegt að mínu mati að fjalla um samfélagslega þætti. Auglýsingar af því tagi gefa auglýsingahöfundum oft meira frelsi til að fara á flug með hugmyndir og úrvinnslu þeirra. Það er svo ágætt þegar auglýsing byggist ekki á því að stafa ofan í mann eitthvað ákveðið sem fyrirtækið vill koma á framfæri heldur fær skemmtileg hugmynd að eiga alla athyglina.

Kallað eftir sjónvarpsþáttum um Sorpuauglýsingar

Yfirbragð herferðarinnar Sorpranos, sem Brandenburg gerði fyrir Sorpu, er svo hallærislega svalt að maður vill gjarnan sjá miklu meira af mafíulúðunum sem þar koma fram. Sumir eru jafnvel að kalla eftir „spin-off“-sjónvarpsþáttum. Textagerðin er líka framúrskarandi með öllum sínum útúrsnúningum og gleði eins og hesthausinn sem senda á dýralækni fax um. Ég var einnig hrifin af jóladagatali PIPAR/TBWA undir yfirskriftinni „Við öll – tölum saman, skiljum hvert annað“ þar sem tuttugu og fjórir íbúar á Íslandi af erlendum uppruna léðu málefnum innflytjenda og flóttamanna andlit sitt og rödd í stuttum viðtölum. Þar var á ferðinni óvænt og ágætt innlegg inn í umræðu sem íslenskt samfélag er bara rétt að byrja að taka alvarlega.

Dansað gegn krabbameini

Það má líka kalla það dálítið afrek að gera árveknisátak gegn ristilkrabbameini í karlmönnum svo skemmtilegt að allir vilja dansa með. Myndband sem var hluti af Mottumarsherferðinni „Hugsaðu um eigin rass“, sem Brandenburg vann fyrir Krabbameinsfélagið, stendur rækilega upp úr fyrir að sameina dillandi bossa og reggí frá Amabadama.

Á Lúðrinum í fyrra voru veitt ein aukaverðlaun fyrir textaskrif í auglýsingu en að því frátöldu eru textaskrif aðeins í forgrunni þegar kemur að verðlaunum fyrir útvarpsauglýsingar. Þannig má segja að textagerðin hverfi nokkuð í skuggann þegar kemur að Lúðurveitingum – fer ekki að koma tími á fastan textalúður? ai@mbl.is