Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Þessi nýju úrræði leysa heilmikinn vanda. Pláss á bráðadeildum teppast ekki jafn lengi og verið hefur og hægt verður að útskrifa fólk fyrr,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri flæðissviðs Landspítalans. „Að undanförnu hafa að jafnaði 30 manns sem hafa fengið þjónustu á bráðadeild beðið frekari úrræða. Með 18 rúma endurhæfingardeild þar sem fólk verður svo að jafnaði ekki lengur en 30 daga léttum við verulegu álagi af bráðalegudeildum.“
Tilkynnt var í gær um ýmsar aðgerðir í heilbrigðisþjónustu sem eiga að létta þann vanda sem við er að glíma á Landspítalanum við útskrift sjúklinga. Landakotsdeildin, sem hefur þegar verið opnuð, er ein þessara lausna. Endurhæfingarrýmum á hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík verður fjölgað úr 12 í 24, heimahjúkrun á að efla og helgaropnun verður tekin upp að nýju á Hjartagáttinni. Þá verður öldrunarteymi sjúkrahússins styrkt. Verulegar vonir eru bundnar við þessa efldu þjónustu sem á fjárlögum þessa árs er eyrnamerktur einn milljarður króna.
Síðustu árin hefur Hjartagátt Landspítalans aðeins verið opin virka daga, þó undantekningar hafi verið á því. Sjö daga þjónusta á að draga úr álagi á bráðadeildum og auka öryggi sjúklinga, segir Guðlaug Rakel.