Bókmenntafélag jafnaðarmanna og Alþýðuflokkurinn efna til hátíðarsamkomu í Iðnó í Reykjavík laugardaginn 5. mars. Tilefnið er 100 ára afmæli Alþýðuflokksins en flokkurinn og Alþýðusamband Íslands voru stofnuð 12. mars 1916.
Á laugardag verður einnig opnuð í Iðnó sýning á áróðursspjöldum sem Wilhelm Beckmann gerði fyrir Alþýðuflokkinn. Þar verða einnig ljósrit af 19 listaverkum sem ýmsir listamenn gerðu fyrir Sunnudagsblað Alþýðublaðsins á árunum 1934 til 1936.
Alþýðuflokkurinn var stofnaður sem stjórnmálaafl verkalýðsfélaganna í landinu og tóku sjö verkalýðsfélög í Reykjavík og Hafnarfirði þátt í stofnun hans. Í framhaldinu voru stofnuð félög jafnaðarmanna um land allt og flokkurinn bauð fyrst fram í kosningum árið 1916 og árið 1926 varð hann aðili að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna. Formlegu starfi hans lauk þegar hann tók þátt í stofnun Samfylkingarinnar en flokkurinn var þó aldrei lagður niður og lifir enn.
Á hátíðarsamkomunni í Iðnó laugardaginn 5. mars kl. 14 verður fjallað um sögu flokksins, jafnaðarstefnuna og mikil áhrif flokksins til hagsbóta fyrir íslenska alþýðu og á þróun velferðarsamfélagsins.
Í framhaldi afmælishátíðarinnar verða fluttir átta fyrirlestrar um Alþýðuflokkinn og jafnaðarstefnuna á laugardögum í mars og apríl og síðan í september og fram í október að bók Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings um 100 ára sögu Alþýðuflokksins kemur út.
Þá munu jafnaðarmenn í „rauðu bæjunum“ Hafnarfirði og á Ísafirði efna til hátíðarfunda í september nk. í tilefni af afmælinu.