Kampakát Rithöfundarnir Elísabet Kristín Jökulsdóttir og Guðbergur Bergsson voru að vonum kát með tilnefningarnar í gær.
Kampakát Rithöfundarnir Elísabet Kristín Jökulsdóttir og Guðbergur Bergsson voru að vonum kát með tilnefningarnar í gær. — Morgunblaðið/Golli
Ljóðabókin Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur og skáldsagan Þrír sneru aftur eftir Guðberg Bergsson hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd.

Ljóðabókin Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur og skáldsagan Þrír sneru aftur eftir Guðberg Bergsson hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd.

Frá Danmörku eru tilnefndar ljóðabækurnar Legacy eftir Klaus Høeck og Ming eftir Bjørn Rasmussen. Frá Noregi eru tilnefndar skáldsögurnar De urolige eftir Linn Ullmann og Historie om et ekteskap eftir Geir Gulliksen.

Frá Finnlandi eru tilnefndar skáldsögurnar Graniittimies eftir Sirpa Kähkönen og Maskrosgudens barn eftir Sabine Forsblom. Frá Svíþjóð eru tilnefndar ljóðabókin Sånger och formler eftir Katarina Frostenson og skáldsagan I varje ögonblick är vi fortfarande vid liv eftir Tom Malmquist.

Frá Færeyjum er tilnefnd skáldsagan Eg síggi teg betur í myrkri – Forspæl til ein gleðileik eftir Carl Jóhan Jensen; frá Grænlandi smásagnasafnið Zombiet Nunaat eftir Sørine Steenholdt; frá samíska tungumálasvæðinu er tilnefnd ljóðabókin savkkuhan sávrri sániid eftir Sara Margrethe Oskal og frá Álandseyjum er tilnefnd skáldsagan Mirakelvattnet eftir Carina Karlsson.

Samkvæmt upplýsingum frá Norðurlandaráði er við val á verðlaunaverki litið til verka sem hafa verið gefin út í fyrsta skipti á síðustu tveimur árum. Ef um er að ræða verk á öðru tungumáli en dönsku, norsku eða sænsku þá er litið til síðustu fjögurra ára. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt allt frá árinu 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem ritaðar eru á norrænu tungumáli. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumáli nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.

Dómnefnd Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs útnefnir verðlaunahafann, en úrslit verða tilkynnt við hátíðlega athöfn 1. nóvember nk. í tónleikahúsi DR í Kaupmannahöfn í tengslum við Norðurlandaráðsþing. Í verðlaun eru 350 þúsund danskar krónur.