Stand by Me Drengirnir lenda í óvæntum ævintýrum.
Stand by Me Drengirnir lenda í óvæntum ævintýrum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er stundum haft á orði að við fermingu komist maður í fullorðinna manna tölu. Sjálfsagt höfum við hvert okkar hátt á því og sitthvað fleira mótar okkur á leiðinni gegnum bernskumúrinn.

Það er stundum haft á orði að við fermingu komist maður í fullorðinna manna tölu. Sjálfsagt höfum við hvert okkar hátt á því og sitthvað fleira mótar okkur á leiðinni gegnum bernskumúrinn. Hvaða afgerandi atburðir það eru sem helst eru þar um ráðandi er persónubundið en víst er það, að til eru margar fyrirtaks bíómyndir sem segja frá ungu fólki á mótunarskeiði lífs síns. Hér eru nokkrar, ólíkar en allar vel þess virði að sjá.

Say Anything ... (1989)

Án vafa í hópi bestu unglingamynda sögunnar, borin uppi af John Cusack í sínu besta hlutverki sem sjarmaboltinn og sparkboxarinn Lloyd Dobler. Árið sem hann útskrifast úr gaggó verður hann hrifinn af úrvalsnemandanum Diane Court, sem verður um skeið kærastan hans, þvert á vilja föður síns sem vill að hún setji markið hærra og fari í fínan háskóla í Englandi. Feikivel skrifuð og leikin á alla kanta, skemmtileg og rómantísk, og gerði smellinn In Your Eyes með Peter Gabriel að eftirlætislagi bandarískra táninga næstu árin í kjölfarið.

School Ties (1992)

David Green (Brendan Fraser) fær inngöngu með námsstyk í úrvalsháskóla fyrir þá flugríku út á hæfileika sína í ruðningi. Um sinn er allt í velstandi en þegar ríkisbubbarnir komast að því að hann er gyðingur kárnar gamanið og í ljós kemur hverjir eru vinir og hverjir ekki. Í þessari mynd vöktu ekki minni spámenn en Matt Damon og Ben Affleck fyrst á sér einhverja athygli og sagan – um umburðarlyndi og skort þar á – á alltaf við.

The Year My Voice Broke (1987)

Allt of sjaldséð perla frá Ástralíu sem gerist árið 1962 og segir frá táningspilti sem býr í fámennu krummaskuði; fáir ljósir punktar í tilverunni nema besta vinkonan sem hann er líka yfir sig ástfanginn af. Hún fer að slá sér upp með íþróttakappanum í bænum, sem er óheflaður tréhaus og okkar manni finnst tilveran heldur ósanngjörn. En hvað er það sem ungar konur hrífast af?

Þessi frábæra mynd vakti mikla athygli á sínum tíma en hefur að ósekju fallið í gleymsku síðan. Það verður enginn svikinn af þessari.

Stand by Me (1986)

Þetta minni háttar meistaraverk er í hópi bestu mynda sem gerðar hafa verið eftir sögu Stephen King. Hér er minna um hrylling en vant er frá King en þeim mun betri saga um fjóra vini frá smábæ í Oregon árið 1959 sem leggja í langferð til að finna lík af dreng sem ku hafa orðið fyrir lest nokkrum dögum fyrr. Þannig ætla þeir sér að verða bæjarhetjur en gengi eldri pilta, með fantinn Ace fremstan, ætlar sér að vera fyrra til. Úr verður eftirminnileg ferð og ógleymanlegt bíó. Hér sést hvílíkur öndvegisleikari River heitinn Phoenix var, en barnungur á hann slíkan leik að hann varð stjarna nánast á einni nóttu.

Dazed & Confused (1993)

Brjálæðislega skemmtileg mynd um ungt fólk árið 1976 sem stendur frammi fyrir því að ákveða hvað það vill gera við líf sítt. Sumir kvíða framtíðinni á meðan aðrir kæra sig kollótta og bíða þess sem verða vill. en eins og kemur á daginn getur ýmislegt gerst á síðasta skóladeginum, svo ekki sé meira sagt. Þessi einstaklega skemmtilega mynd fékk dræma aðsókn í bíó á sínum tíma en hefur með tímanum orðið að dálæti víða um heim, og sjálfur Quentin Tarantino valdi hana eitt sinn á topp tíu listann sinn yfir bestu myndir allra tíma. Það er kannski fullmikið, en skemmtileg er hún.

jonagnar@mbl.is