Fiskisúpa Bragðgóð, seðjandi og holl.
Fiskisúpa Bragðgóð, seðjandi og holl.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigrún Þorsteinsdóttir bloggar um hollan, hreinan og næringarríkan mat á cafesigrun.

Sigrún Þorsteinsdóttir bloggar um hollan, hreinan og næringarríkan mat á cafesigrun.com, þar sem hún deilir girnilegum uppskriftum og matarmyndum, og þó enn séu allnokkur ár í að hún fermi sín börn á hún ekki í vandræðum með að slá upp ímyndaðri veislu með gómsætum, heilsusamlegum veitingum sem höfða jafnt til eldri og yngri gesta.

Það eru einhver ár í fermingu barna minna, en ef ég væri að ferma þau núna myndi ég hafa veisluna í kringum kaffileytið,“ segir Sigrún Þorsteinsdóttir heilsukokkur, sem heldur úti hinu vinsæla matarbloggi cafesigrun.com. „Ég myndi vilja bjóða upp á bragðgóðar súpur og brauð, salat, léttar kökur og konfekt. Ég er alfarið á móti gosdrykkjum og myndi því bera hreint sódavatn fram með veitingunum eða jafnvel bragðbæta það með appelsínubitum. Mín hugmyndafræði er sú að í veislunni fái fólk vítamín í kroppinn og líði vel í maganum. Það er líka mikilvægt að þekkja þarfir gestanna og fá upplýsingar um alvarlegt ofnæmi og annað slíkt. Ef einhverjir eru með mjólkuróþol má vel hafa súpu í tveimur pottum, sem dæmi.“

Sigrún hefur verið grænmetisæta í 20 ár og byrjaði að blogga um hollan og heilsusamlegan mat árið 2003. „Hollustan hefst heima eru mín einkunnarorð, og það er einmitt heiti fyrstu matreiðslubókar minnar, sem kom út síðastliðið haust og hefur fengið mjög góðar viðtökur. Ég legg höfuðáherslu á heimatilbúinn mat úr góðu hráefni, þar sem allt er eldað frá grunni. Ég nota aldrei unna matvöru og kaupi til dæmis ekki kex, kjötálegg, pakkamat, örbylgjumat, skyndibita, gos, sælgæti og þess háttar. Einnig kaupi ég ávallt velferðaregg og allt annað sem ég get úr velferðarræktun, til dæmis kjúkling fyrir fjölskyldu og gesti. Í baksturinn nota ég ekki hvítt hveiti, ger eða hvítan sykur.“

Út með óhollt

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum, á borðinu – hver er grunnurinn að hollri og góðri næringu?

„Við eigum alltaf til ávexti, grænmeti, hnetur, baunir, ost og egg. Með þessu hráefni kemst maður ansi langt. Svo á ég alltaf stevíudropa til að nota sem sætugjafa, til dæmis út í AB mjólk, en maður þarf svo agnarlítið af stevíunni til að fá góða sætu.“

Er einfalt mál að skipta út hráefni í eldamennsku og bakstri, taka út óhollt, bæta inn hollari valkostum?

„Já, það er aldeilis ekki erfitt. Sem dæmi geri ég hvítlaukssósu í grænmetispítuna úr AB mjólk, hvítlauk og steinselju. Börnin mín þekkja ekkert annað og enginn kvartar. Ég er ekki einu sinni viss um að þau gætu borðað hefðbundnar tilbúnar sósur með 60% fituinnihaldi.

Svo nota ég gróft korn í allan bakstur, það er að segja grófmalað spelt í staðinn fyrir hvítt. Ég nota hýðishrísgrjón í grjónagraut og gróft speltpasta í staðinn fyrir fínt. Þetta kemst upp í vana og ef börnin koma með einhverjar mótbárur fyrstu vikuna eru þær horfnar í viku tvö, að minnsta kosti svona yfirleitt.“

Saddir og sælir

Fermingin – er ekkert mál að útbúa dýrindis veislumat, ljúffengan, hollan og næringarríkan og án allra aukaefna?

„Ekki ef maður sýnir fyrirhyggju og ákveður að svona ætli maður að hafa veisluna. Það þarf bara að skipuleggja allt vel, undirbúa það sem hægt er fyrir fram. Ég hef haldið ótal veislur og stundum jafnvel 70 manna boð og allir farið heim saddir og sælir.“

Bloggsíðan, cafesigrun, nýtur mikilla vinsælda; skemmtilegt, en væntanlega tímafrekt áhugamál?

„Bloggsíðan hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum 12 árum, mig grunaði aldrei að viðtökurnar yrðu svona góðar. Ég er einn af sálfræðingunum í teymi Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins, sem er einstaklega skemmtilegt starf með frábæru fólki. Allur frítími minn fer í bloggið og það eru ekki margar mínútur aflögu í lok dagsins, svona þegar börnin eru sofnuð.

Fyrir utan að kaupa inn allt hráefnið þróa ég uppskriftirnar, elda og baka, tek myndirnar, vinn þær ef með þarf og skrifa inn allar uppskriftir og texta. Svo það fer aldeilis tími í þetta gæluverkefni mitt. Þar fyrir utan forritar Jóhannes maðurinn minn vefinn, þannig að þetta er sannkallað fjölskylduverkefni. Vel að merkja, hann forritar í sínum frítíma líka og fær greitt fyrir í smákökum.“

www.cafesigrun.com

Fermingarveisla Sigrúnar

„Þessar uppskriftir eru allar margprófaðar í veislum, kaffiboðum og saumaklúbbum og hafa fengið mikið lof.“

Gulróta- og kókossúpa

Fiskisúpa frá Miðjarðarhafinu

Rúgmjölsbrauð með sólblómafræjum

Glútenlaust möndlubrauð

Basilíkupestó

Salat með sætum kartöflum og reyktum laxi

Döðluterta

Bláberjaostakaka

Grískar möndlukökur

Konfekt

Gulróta- og kókossúpa

fyrir 4

Mjólkurlaus, eggjalaus, glútenlaus, hnetulaus og vegan súpa sem hentar við öll tækifæri og er mild og fín fyrir alla gesti, stóra sem smáa. Mikilvægt er að nota bestu fáanlegar gulrætur til að súpan verði mátulega sæt.

1 stór laukur

ferskt engifer, biti á stærð við vínber

4 hvítlauksrif

300 g gulrætur

150 g sætar kartöflur

2 msk. kókosolía

1 tsk. karrí

2 gerlausir grænmetisteningar

750 ml vatn

150 ml kókosmjólk

1 tsk. salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

hvítur pipar

7-10 saffranþræðir

(má sleppa en gefur fallegan lit)

Afhýðið lauk, engifer og hvítlauk, gulræturnar og sætu kartöflurnar og saxið gróft. Hitið kókosolíuna í potti og steikið laukinn þar til hann fer að mýkjast. Bætið hvítlauknum og engiferinu út í og steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið karrí út í og hrærið vel.

Bætið helmingnum af vatninu (375 ml) út í ásamt gulrótunum og sætu kartöflunum. Sjóðið í um 30 mínútur eða þar til grænmetið fer að mýkjast. Bætið afganginum af vatninu ásamt grænmetisteningunum saman við og hrærið vel. Látið malla við vægan hita í 15 mínútur. Bætið kókosmjólkinni út í súpuna ásamt saffranþráðunum og salti og pipar eins og þarf.

Maukið súpuna í nokkrar mínútur í matvinnsluvél til að fá silkimjúka áferð eða notið töfrasprota.

Fiskisúpa frá Miðjarðarhafinu

Fyrir 2-3

Þessi súpa er bragðgóð, mild, seðjandi og ótrúlega holl. Súpan hentar vel fyrir þá sem hafa glúten- og mjólkuróþol. Í staðinn fyrir blandaða sjávarrétti má nota 100 g beinlausan og roðflettan fisk og 150 g hörpuskel og rækjur.

1 laukur

2 hvítlauksrif

100 g sveppir

1 tsk. kókosolía

1 tsk. salt (Himalaya eða sjávarsalt)

1 tsk. svartur pipar

0,5 msk. karrí

0,5 tsk. túrmerik

200 g tómatar, saxaðir (ferskir eða úr dós)

1 msk. tómatmauk

300 ml vatn

1 gerlaus grænmetisteningur

5 lárviðarlauf

250 g blandaðir sjávarréttir eða annað fiskmeti

75 g kræklingur (úr dós)

1 stór lófafylli steinselja, söxuð

1 tsk. fiskisósa (Nam Plah)

Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt. Skerið sveppina í þunnar sneiðar. Hitið kókosolíu í potti og steikið lauk, hvítlauk og sveppi í nokkrar mínútur. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva.

Kryddið með salti, pipar, karríi og túrmerik.

Setjið tómata, tómatmauk, fiskisósu, vatn, grænmetistening og lárviðarlauf út í pottinn.

Látið suðuna koma upp og látið malla í nokkrar mínútur.

Setjið frosnu sjávarréttina út í (eða fiskinn í litlum bitum) og sjóðið í 3-4 mínútur. Bætið kræklingnum út í (ásamt helmingnum af vökvanum úr dósinni) og hitið að suðu. Saxið steinselju yfir súpuna (og setjið um 1 msk. í hvern disk áður en súpan er borin fram).

Rúgmjölsbrauð með sólblómafræjum

Gerir 1 brauð

Það er góð tilbreyting að nota rúgmjöl og er best að nota xanthan-gúmmí (sem er náttúruleg afurð) með því til að gefa því bindingu og teygju, þar sem glútenið í rúgi er ekki eins teygjanlegt og til dæmis í spelti eða hveiti. Brauðið er langbest nýbakað úr ofninum.

500 g rúgmjöl

2 tsk. matarsódi

1 tsk. salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

4 tsk. xanthan-gúmmí

500 ml sojamjólk eða önnur mjólk

2 msk. kókosolía

2 tsk. mólassi

4 msk. sólblómafræ

Sigtið saman rúgmjöl, matarsóda, salt og xanthan-gúmmí í stóra skál. Hitið sojamjólk, kókosolíu og mólassa í litlum potti yfir vægasta hita, rétt til að losa mólassann. Hellið vökvanum saman við þurrefnin og hrærið vel. Deigið á alls ekki að vera of blautt.

Klæðið bökunarform með bökunarpappír. Smyrjið deiginu vel ofan í formið og gætið þess að það fari vel út í öll horn. Skerið rauf eftir endilöngu brauðinu, um 1 cm að dýpt. Dreifið sólblómafræjunum yfir brauðið. Bakið við 200 °C í 45-50 mínútur. Látið brauðið standa í um 30 mínútur á vírgrind áður en þið skerið það í sneiðar.

Glútenlaust möndlubrauð

Gerir 1 lítið brauð

Möndlumjöl er alveg einstaklega skemmtilegt hráefni. Þetta dýrlega brauð er best nýbakað úr ofninum en hentar einnig vel í brauðrist eða samlokugrill. Þið hristið kannski höfuðið yfir eggjamagninu en ekki gleyma því að egg eru nokkuð holl. Mikilvægt er að kókosolían sé fljótandi og að hunangið sé við stofuhita.

135 g möndlumjöl

25 g kókoshveiti

25 g sesammjöl (má sleppa)

55 g hörfræ, fínmöluð

¼ tsk. salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

1½ tsk. matarsódi

5 egg

60 ml kókosolía

1 msk. hrátt hunang eða hlynsíróp

1 msk. eplaedik eða hrísgrjónaedik

Hrærið saman í stórri skál möndlumjöl, kókoshveiti, sesammjöl, hörfræsmjöl, salt og matarsóda. Hrærið saman egg, kókosolíu, hunang og edik í annarri skál.

Klæðið lítið brauðform (um 750 ml) með bökunarpappír. Hellið blautefnunum út í þau þurru og

hrærið þar til allt blandast vel saman. Hellið deiginu í formið og gætið þess að það fari út í öll horn. Bakið við 180 °C í 25-30 mínútur.

Basilíkupestó

Gerir um 200 g

40 g furuhnetur

30-40 g fersk basilíkublöð

1 hvítlauksrif

20 g parmesanostur

1 tsk. salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

120 ml jómfrúarólífuolía

Þurrristið furuhneturnar á heitri pönnu. Saxið hvítlaukinn gróft. Setjið basilíkublöð, hvítlauk, furuhnetur, parmesanost, helminginn af olíunni og salt í matvinnsluvél og blandið í um 10 sekúndur. Skafið hliðar skálarinnar og setjið vélina af stað aftur. Hellið afganginum af ólífuolíunni saman við pestóið í mjórri en stöðugri bunu. Geymið í kæli.

Salat með sætum kartöflum,

reyktum laxi og ólífum

Fyrir 3-4

1 sæt kartafla (á stærð við mjög stórt avókadó)

1 lófafylli pekanhnetur

200 g reyktur lax, roð- og beinlaus

½ haus jöklasalat

1 vel þroskað avókadó

1 lófafylli döðlur

1 lófafylli þurrkuð trönuber

1 lófafylli svartar ólífur

Byrjið á því að flysja sætu kartöfluna, skerið svo í bita sem eru álíka stórir og jarðarber. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu og raðið bitunum á hana. Bakið við 180 °C í um 35-40 mínútur.

Ristið pekanhneturnar á heitri pönnu í 7-9 mínútur og saxið svo gróft. Skerið laxinn í bita.

Fjarlægið steininn úr avókadóinu og skerið í bita.

Skerið döðlurnar í bita. Skolið jöklasalatið og saxið frekar gróft. Raðið því á stóran disk. Raðið sætu kartöflunum, pekanhnetum, laxi, avókadói, döðlum, trönuberjum og ólífum ofan á.

Döðluterta

Fyrir 10-12

Ég hef gert þessa köku fyrir ótal afmælisveislur, fermingarveislur, jólaboð, kaffiboð o.fl. Kakan hentar vel í alls kyns boð því hún er glútenlaus, eggjalaus og mjólkurlaus og er því upplögð þegar gestir hafa þess konar ofnæmi eða óþol.

125 g þurrkaðar döðlur

200 ml appelsínu- eða eplasafi

50 g heslihnetur

50 g kasjúhnetur

100 g möndlur

1 tsk. vínsteinslyftiduft

1 vel þroskaður banani (og e.t.v. tveir ofan á)

1 msk. kókosolía

1 tsk. kanill

0,5 tsk. salt (Himalaya eða sjávarsalt)

45 g kókosmjöl

100 ml lífrænt framleiddur

barnamatur án sykurs; epla-, peru

eða apríkósumauk

Ef ekki eru notaðir bananar ofan á má nota ber eða aðra ávexti.

Saxið döðlurnar gróft og setjið í lítinn pott ásamt appelsínusafanum. Sjóðið döðlurnar í um 10-15 mínútur.

Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðið af.

Setjið heslihnetur, kasjúhnetur og möndlur í matvinnsluvélina og blandið í 10-15 sekúndur eða þangað til hneturnar eru orðnar nokkuð fínt malaðar (en ekki duftkenndar). Setjið í stóra skál.

Setjið döðlurnar í matvinnsluvél með u.þ.b. helmingnum af appelsínu- eða eplasafanum, gætið þess að deigið verði ekki of blautt. Bætið afganginum af vökvanum út í ef þarf. Setjið í stóru skálina.

Stappið bananann. Bætið kókosolíu, banana, salti, kókosmjöli, kanil og vínsteinslyftidufti út í skálina og hrærið mjög vel.

Klæðið 24 cm bökunarform að innan með bökunarpappír. Hellið deiginu út í formið og þrýstið vel niður í botninn. Bakið við 180 °C í um 20-25 mínútur.

Þegar kakan er komin úr ofninum, stingið hana þá alla með litlum, beittum hníf og smyrjið barnamatnum strax yfir hana í þykku lagi. Leyfið kökunni að kólna í um klukkustund. Skreytið með ferskum, vel þroskuðum ávöxtum t.d. kíví, mandarínum, jarðarberjum, hálfum vínberjum o.s.frv. Einnig er gott að setja bananasneiðar ofan á, sem og kókosflögur.

Gott að hafa í huga

Passið að deigið verði ekki of blautt, annars endið þið með döðlumús! Í staðinn fyrir banana má nota vel þroskaða peru eða vel þroskað mangó. Nota má Brasilíuhnetur og pekanhnetur á móti möndlunum. Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi. Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.

Bláberjaostakaka

Fyrir 10-12

200 g gróft hafrakex eða speltkex úr heilsubúð

50 g múslí (gott múslí með rúsínum og hnetum án viðbætts sykurs)

2,5 msk. kókosolía

5 msk. hreinn appelsínusafi (eða meira eftir þörfum)

500 g Philadelphia Light (rjómaostur en ekki smurostur)

250 g kvarg eða hreint skyr

3 stór egg

3 msk. agavesíróp

2 tsk. vanilludropar (úr heilsubúð)

100 g fersk (ekki frosin) bláber eða 3 msk. bláberjasulta, án viðbætts sykurs

200 g grísk jógúrt

200 ml bláberjasulta án viðbætts sykurs

Fyrst skuluð þið byrja á því að búa til botninn:

Setjið kex og múslí í matvinnsluvél og malið þangað til það er orðið að dufti. Einnig má setja kexið í poka og fara með kökukefli yfir. Setjið mulninginn í skál.

Dreypið kókosolíunni og appelsínusafanum yfir með teskeið. Hrærið vel. Gætið þess að mulningurinn sé „rakur“, þ.e. að hægt sé að klípa hann saman án þess að hann verði blautur eða grautarkenndur. Bætið meiri appelsínusafa við ef þið teljið þurfa.

Klæðið 26 cm bökunarform (með lausum botni) með bökunarpappír (þannig að hann fari upp á brún).

Setjið mulninginn í botninn og þrýstið honum vel niður með fingrunum. Gott er að leggja plastfilmu ofan á svo að mulningurinn festist ekki á höndunum.

Bakið við 150 °C í 20 mínútur.

Á meðan botninn er að bakast skuluð þið undirbúa fyllinguna: Setjið í hrærivélaskál (einnig má nota handhrærivél), Philadelphia Light, quark (eða skyrið), egg, agavesíróp og vanilludropa. Hrærið í 10 sekúndur eða þangað til fyllingin er silkimjúk.

Bætið bláberjunum varlega saman við og hrærið þangað til berin hafa dreifst vel, en ekki þannig að kakan verði fjólublá. Ef þið notið 3 msk. af sultu, hrærið þá á minnsta hraða með handhrærivél (eða hrærivél) í um 2 sekúndur og gætið þess sérstaklega að hræra ekki of mikið.

Takið botninn úr ofninum, kælið í um 10 mínútur og hellið fyllingunni svo út í. Bakið við 150 °C í 40-45 mínútur. Það getur verið að þurfi að baka hana skemur (fer eftir ofni). Potið varlega í miðju kökunnar, ef hún virkar ekki þétt þarf að baka hana lengur. Hún ætti að vera svolítið mjúk í miðjunni en ekki hlaupkennd. Ef hún er hlaupkennd, bakið hana þá í 10 mínútur í viðbót. Kakan stífnar svo þegar hún kólnar. Ef þið þurfið að baka hana lengur en 55 mínútur, eða ef hún er farin að dökkna um of eftir 40 mínútur, setjið þá álpappír yfir kökuna. Athugið að kakan getur verið dyntótt varðandi baksturstíma, ég þurfti einu sinni að baka hana í 1,5 tíma en yfirleitt nægja 50 mínútur.

Slökkvið á ofninum og leyfið ostakökunni að kólna alveg inni í honum (gjarnan yfir nótt). Þegar ostakakan er orðin köld, dreifið þá jógúrtinni yfir og leyfið kökunni að standa í ísskáp eins lengi og þið getið, allt að 2 tíma ef það er mögulegt. Því næst skal setja afganginn af bláberjasultunni ofan á. Smyrjið varlega svo að jógúrt og sulta blandist ekki saman. (Ástæðan fyrir því að gott er að láta jógúrtina stífna ofan á kökunni í dálítinn tíma).

Gott að hafa í huga

Það er fínt að gera þessa köku daginn áður en á að nota hana því hún verður bara betri ef maður geymir hana í einn dag. Kakan geymist í um þrjá daga í ísskáp. Einnig er hægt að nota alls kyns önnur ber/sultur en bláber/bláberjasultu t.d. rifsber, hindber, blönduð ber o.fl. Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Grískar möndlukökur

Þessar kökur eru ekki ósvipaðar kransakökubitum en heldur stökkari. Þær eru frábærar með kaffinu.

Gerir um 30 kökur

375 g möndlumjöl (malaðar möndlur)

170 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)

3 eggjahvítur

1 tsk. möndludropar (úr heilsubúð)

60 g möndluflögur

Malið hrásykurinn augnablik í hreinni kryddkvörn.

Þeytið eggjahvíturnar í tandurhreinni og fitulausri skál og bætið sykrinum út í smátt og smátt þangað til eggin eru orðin stífþeytt og glansandi og toppar farnir að myndast. Bætið möndludropunum út í og hrærið í 2 sekúndur. Veltið (ekki hræra) möluðu möndlumjölinu út í og reynið eins og þið getið að „merja“ ekki loftið úr eggjunum.

Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Setjið blönduna í sprautupoka og sprautið 5-7 cm skeifur á bökunarplötunni. Þið gætuð þurft tvær plötur. Myljið möndluflögurnar aðeins og dreifið þeim yfir kökurnar. Ýtið létt ofan á. Bakið við 180 °C í um 15-20 mínútur eða þangað til kökurnar eru orðnar gullbrúnar.

Ekki opna ofninn fyrstu 15 mínúturnar.

Gott að hafa í huga

Ef þið fáið ekki möndlumjöl, setið þá möndlur eða möndluflögur í augnablik í matvinnsluvél eða blandara. Blandið þangað til það er orðið fínkornótt án þess að það verði olíukennt.

Athugið að rapadura-hrásykur er frekar dökkur og ef þið viljið ljósari kökur er betra að nota aðra gerð af hrásykri. Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Konfekt

Gerir um 30 konfektmola

Gera má konfektið glútenlaust með því að nota hrískökur í staðinn fyrir haframjölið. Það passar dásamlega vel með kaffibollanum.

25 g döðlur (ef mjúkar þarf ekki að leggja þær í bleyti)

25 g gráfíkjur

50 g dökkt, lífrænt súkkulaði (með hrásykri)

1 banani, vel þroskaður

1 tsk. vanilludropar (úr heilsubúð)

1 tsk. kanill

3 msk. kakó eða carob

40 g haframjöl (eða hrískökur)

30 g kókosmjöl

Nokkrar matskeiðar appelsínusafi (ef þarf).

Kókosmjöl, kakónibbur, söxuð trönuber, saxaðar heslihnetur o.fl. til að velta konfektinu upp úr.

Saxið döðlurnar gróft og leggið í bleyti í klukkustund. Athugið að ef þær eru mjúkar þarf ekki að leggja þær í bleyti og má saxa þær strax. Snúið stubbinn af gráfíkjunum, saxið fíkjurnar gróft og leggið í bleyti í klukkustund. Saxið súkkulaðið smátt.

Hellið vatninu af og setjið fíkjur, döðlur og banana í matvinnsluvél. Blandið í um 1 mínútu eða þangað til orðið er nokkuð vel maukað. Bætið vanilludropum, kanil og kakói út í og blandið í 10 sekúndur. Setjið í stóra skál.

Bætið haframjöli, súkkulaði og kókosmjöli út í skálina og hrærið mög vel.

Setjið aftur í matvinnsluvélina í nokkrum skömmtum og maukið í um 5 sekúndur hvern skammt. Gætið þess að deigið verði ekki að algjöru mauki en það á að límast vel saman ef klipið saman með fingrunum. Ef deigið er of þurrt má setja svolítinn appelsínusafa eða eplasafa út í það og hræra aðeins. Kælið deigið í um klukkustund.

Mótið litlar kúlur og veltið upp úr kókosmjöli, kakónibbum, trönuberjum, heslihnetum o.fl.

Geymist í nokkra mánuði í frysti en einnig í 1-2 vikur, í plastboxi í ísskáp.

Gott að hafa í huga

Deigið getur verið blautt eða þurrt, allt eftir því t.d. hvort bananinn er stór eða ekki. Ef ykkur finnst deigið blautt skuluð þið setja það inn í ísskáp og skoðið eftir klukkutíma hvort það er enn of blautt til að móta úr því kúlur. Ef það er of blautt, bætið þá aðeins meira af haframjöli við ásamt aðeins meira af kakói og kókosmjöli. Setjið svo aftur inn í kæliskáp í um 30 mínútur.

Hægt er að velta konfektinu upp úr kókosmjöli, sesamfræjum, möluðum möndlum, kakói, kakónibbum, hökkuðum möndlum, heslihnetum o.s.frv. Nota má þurrkaðar apríkósur (þessar brúnu, lífrænt ræktuðu) á móti döðlunum.

beggo@mbl.is