Haukur Guðjónsson fæddist 3. maí 1926. Hann lést 20. febrúar 2016.

Haukur Guðjónsson var jarðsunginn 1. mars 2016.

Hann kunni að njóta og lifði góðu lífi. Hann var sjentilmaður fram á síðasta dag. Daginn áður en hann kvaddi vildi hann láta snyrta sig, fór í rakstur og klippingu. Við vissum ekki að daginn eftir myndi hann fara aftur á fund ömmu sem hann saknaði svo sárt. Auðvitað fór hann til þessa fundar á sjálfan konudaginn.

Við sem kveðjum þennan einstaka mann munum halda minningu hans á lofti með því að varðveita það sem skipti hann mestu máli, fólkið hans og gleðina.

„Hvernig gengur í pólitíkinni, eru karlarnir almennilegir við þig?“ spurði hann mig í hvert sinn eftir að ég byrjaði að hafa formleg afskipti af pólitík. Afi passaði upp á sitt fólk. Honum var annt um það að okkur liði vel og jafnframt að okkur gengi vel.

Afi var flinkur að hrósa fólki og seinni árin var hann orðinn verulega væminn á köflum. Það sagði ég honum reglulega og hann hló í hvert sinn og sagðist bara orðinn svo gamall, þetta fylgdi ellinni. Vinir mínir hafa sagt mér sögur af því þegar þeir hittu hann á Garðatorgi þar sem afi ræddi um hversu bjart væri yfir þeim og hversu lánsamir þeir væru með börn sín og fjölskyldur.

Afi hafði áhuga á mönnum og málefnum. Hann var barnakarl og börn hændust að honum. Hann var alltaf til í að fíflast eitthvað með þeim, veitti þeim óskipta athygli og gætti þess alltaf að eiga eitthvert góðgæti handa þeim. Góðgætið bar hann alltaf fram á bakka og fékk því viðurnefnið afi bakki, sem átti vel við þar sem afi og amma byggðu sitt hús og bjuggu lengst af á Bakkaflöt. Hjá afa bakka voru börn alltaf mikilvægustu gestirnir. Og mínir drengir fengu heldur betur að njóta þess. Afi var þeim góð fyrirmynd og þeir voru nánir og miklir vinir. Söknuður sona minna er því mikill. Það eru forréttindi fyrir unga snáða að fá að umgangast langafa sinn og langömmu. Þeir eyddu mörgum góðum stundum í faðmi þeirra þar sem hraðinn var minni, tíminn meiri og athyglin öll þeirra. Fyrir það er ég þakklát.

Hann afi minn var húmoristi og hörkutól. Stoltur og stór. Hláturmildur og hlýr. Hann stóð fast á sínu og elskaði sitt fólk. Hann kenndi mér að standa með sjálfri mér og gleyma aldrei að það þarf að vera gaman. Lífið er til að njóta.

Afi er eini maðurinn sem ég hef þekkt sem tók hatt sinn ofan þegar hann heilsaði. Nú tek ég ofan fyrir afa mínum um leið og ég þakka samfylgdina.

Áslaug Hulda Jónsdóttir.

Langafi minn, afi Haukur, lifði langa ævi og sá því tímana tvenna á sinni tíð. Ég ræddi við hann um æsku og uppvöxt fyrir skólaverkefni fyrir nokkrum árum. Hann sagði mér frá því þegar hann var að alast upp í Reykjavík með bræðrum sínum tveimur, þeim Jónasi og Sigurjóni. Hann mundi enn eftir því þegar hann flutti þriggja ára gamall milli hverfa og að flutningurinn fór fram á hestvagni um hávetur. Foreldrar hans voru dugnaðarfólk, faðir hans var sjómaður og móðir hans vann við saltfiskverkun. Þetta fólk byggði síðar stórhýsi við Mávahlíð með eigin höndum. Á þessum tíma þótti gott að hafa vinnu yfirhöfuð þannig að afa mínum fannst þau hafa notið nokkurrar blessunar. Sjálfur byrjaði hann að vinna sem sendisveinn hjá fisksala um 10 ára gamall. Hann fór með sendingar á reiðhjóli bæjarenda á milli. Hann réð sig á togara 16 ára gamall og enskan sem hann lærði í skóla kom sér vel þegar siglt var til Englands því þá gat hann túlkað fyrir félagana. Seinna var hann verkstjóri, bæði á láglendinu og upp til fjalla við stórframkvæmdir, t.d. við Sigöldu- og Búrfellsvirkjun. Hann vann stóran hluta starfsævinnar sem verkstjóri, síðustu starfsárin hjá Grjótmulningsstöð Reykjavíkur sem nú heitir Höfði malbikunarstöð. Þegar ég spurði afa hvort mikill munur væri á lífinu í gamla daga og nú sagði hann svo ekki vera. Vissulega væri meiri velmegun en annars reyndi fólk að gera eins vel og það gæti við sína nánustu.

Fjölskyldan hefur í gegnum tíðina átt margar góðar stundir á Garðatorgi og þar áður á Bakkaflöt. Þau afi og amma voru ráðagóð og gott fólk heim að sækja. Við verðum alltaf þakklát fyrir góðar stundir, veislur og punktapartíin góðu sem afi fann upp á. Þeim þótti alltaf gaman að fá okkur krakkana í heimsókn, ekki síst nú undir það síðasta þegar afi var orðinn gamall og lasinn.

Þorri Hauksson.