Hratt fjölgar í röðum þeirra Íslendinga sem aðhyllast mínimalískan lífsstíl. Þetta er fólk sem hefur lært að það er gott að lifa lífinu laus við allan óþarfa.
Fermingargjafavalið getur orðið ögn snúið þegar mínimalísku nálguninni er beitt. Kannast lesendur eflaust við það hjá sjálfum sér að margar fermingargjafirnar voru lítið sem ekkert notaðar og enduðu fljótlega ofan í skúffu eða skáp þar sem þær söfnuðu ryki.
Vissulega væri hægt að gefa pening, en hvað á að velja ef kaupa á alvöru pakka handa fermingarbarninu? Hvað nýtist og endist? Hér að neðan eru nokkrar hugmyndir:
ai@mbl.is
Ferðataska fyrir lífstíð
Einhver bestu ráð sem hægt er að veita ungu fólki á leið út í lífið er að það láti eftir sér að fjárfesta í vandaðri ferðatösku.Það er freistandi að kaupa einhverja ódýra tösku úti í búð, en þá má reikna með að taskan fari að láta á sjá eftir nokkrar ferðir. Rennilásarnir byrja að gefa sig, saumar rakna upp, hjólin brotna, handfangið losnar eða sprungur koma í plastið. Þegar upp er staðið er sennilega ódýrast að kaupa dýra en vandaða tösku sem endist fyrir lífstíð, eða þar um bil. Svo er heldur ekki amalegt að draga fína „mont-tösku“ á eftir sér þegar strunsað er um flugvellina, og hvað þá ef taskan er þannig hönnuð að hún verður bara fallegri og öðlast meiri persónuleika eftir því sem hún er notuð meira.
Þýsku Rimowa-töskurnar þykja með þeim allra fínustu sem kaupa má. Er Rimowa þekktast fyrir þungar og sterkbyggðar áltöskur sem eru sannkallaðir erfðagripir, en henta samt ekki svo vel á tímum ört minnkandi farangursheimilda. Ekki gengur að nota 7 kg tösku og eiga bara eftir nokkur kíló fyrir farangurinn ef losna á við viðbótargjöld við innritun á flugvellinum.
Er þá betra að velja töskurnar sem Rimowa smíðar úr níðsterku plastefni. Útlitið er það sama en taskan nokkrum kílóum léttari.
Sport Multiwheel 75 taskan hér til hliðar er sniðugur kostur. Hún er dýpri en hefðbundnar töskur, nokkurs konar smákoffort, og lögunin m.a. hugsuð fyrir þá sem þurfa að ferðast með íþróttabúnað.
Taskan kostar um og yfir 700 dali vestanhafs.
Regnhlíf frá Davek
Það skiptast á skin og skúrir í lífinu og þegar rignir er vissara að eiga góða regnhlíf. Regnhlífaframleiðandinn Davek þykir gera mjög sterkbyggðar og stílhreinar regnhlífar. Á myndinni hér til hliðar má sjá hans smæstu regnhlíf sem er ögn minni en dæmigerður banani.Smæðin þýðir að auðvelt er að stinga regnhlífinni í vasann, hanskahólfið eða handfarangurinn. Vönduð smíðin þýðir að regnhlífin gefur ekki eftir þó að gusti.
Davek Mini kostar 49 dali á www.davekny.com.
Wayfarer-sólgleraugu frá Ray-Ban
Allir ættu að eiga ein vönduð sólgleraugu. Réttu sólgleraugun eru punkturinn yfir i-ið og henta jafnt að vetri til sem á sumrin, með jakkafötunum, lopapeysunni eða sundskýlunum.Wayfarer-sólgleraugun frá Ray-Ban eru klassísk og munu ekki fara úr tísku næstu áratugina. Þá eru þau vönduð og ef vel er um þau hugsað ættu þau að nýtast eigandanum langt fram á fullorðinsár.
Ray-Ban-gleraugun fást meðal annars hjá Optical Studio.