Upplifun „Trúarhugmyndir okkar eru sjaldan þær sömu við 14 ára og 54 ára aldurinn,“ segir Oddur sem sést hér með fermingarbörnum síðasta árs, efst til hægri.
Upplifun „Trúarhugmyndir okkar eru sjaldan þær sömu við 14 ára og 54 ára aldurinn,“ segir Oddur sem sést hér með fermingarbörnum síðasta árs, efst til hægri.
Fjölbreytt sýn rúmast innan kirkjunnar og segir sr. Oddur Bjarni að trúarhugmyndir fólks séu sjaldan þær sömu við 14 ára og 54 ára aldur.

Í litlum samfélögum vill oft verða meiri nánd á milli prests og íbúa. Sóknirnar eru smærri en á höfuðborgarsvæðinu, árgangarnir minni og fermingarbörnin ekki fleiri en svo að presturinn á ekki í nokkrum vanda með að læra nöfnin á þeim öllum.

Séra Oddur Bjarni Þorkelsson, prestur á Möðruvöllum í Hörgársveit, segir að byggðin virðist jafnvel fá á sig annan blæ þegar fermt er og hátíðlegt andrúmsloft yfir sveitinni. „Síðasta vor var kirkjan stappfull. Held ég að við höfum náð að troða inn 250 manns í messuna og ljómaði bros á hverju andliti. Þetta er tækifæri fyrir vini og ættingja að koma í heimsókn, oft um langan veg, fyrir íbúa svæðisins að samgleðjast fermingarbarninu og dagur sem fermingarbarnið og foreldrar þess geta verið stolt af; nýjum áfanga hefur verið náð í lífinu.“

Kynstrin öll af kökum

Nándin þýðir líka að prestinum er iðulega boðið í fermingarveislurnar og gantast Oddur með það að þar sé kannski komin skýringin á því að sniðlaus og víður kjóll skyldi hafa orðið fyrir valinu þegar prestshempan var hönnuð. Heimsóknum í margar fermingarveislur vill jú fylgja að smakka þarf mikið af kökum. „Síðasta vor var ég með tvo fermingardaga þar sem eitt barn fermdist fyrri daginn og þrettán þann seinni. Það er tölvert verkefni að mæta á þrettán staði á einum degi, og hvað þá í dreifbýli, og tók ég því þá úthugsuðu ákvörðun að fara aðeins í þau fermingarboð þar sem mér væri formlega boðið. Jafnvel með þeim takmörkunum reyndist það meira en að segja það að komast á alla staðina, og ekki endilega ráðlegt fyrir sælkera eins og mig að fá aðgang að öllum þessum kökum. Var ég enda ekki vel stemmdur um kvöldið, fullur af rjóma og í sykursjokki.“

Frætt á Facebook

Möðruvellir eru hluti af Dalvíkurprestakalli og er sr. Magnús G. Gunnarsson sóknarprestur. Oddur og Magnús skipta verkum bróðurlega á milli sín enda ófáar kirkjur á svæðinu sem nær meðal annars yfir Grímsey og Hrísey. Heldur Magnús utan um fermingarfræðsluna á Dalvík á meðan Oddur sér um börnin á svæðinu umhverfis Möðruvelli og á eyjunum. Vegalengdirnar geta stundum kallað á útsjónarsemi og gott skipulag við fræðslustarfið. „Í fyrra fermdi ég krakka á báðum eyjunum og gætti þess að nota ferðir þangað til að eiga góða fundi með börnunum. Þess á milli reiðum við okkur á Facebook-hóp þar sem foreldrarnir geta fylgst með framvindunni og eins nota ég mikið rafrænt fermingarfræðsluefni Þjóðkirkjunnar,“ útskýrir Oddur.

Fyrir nokkrum árum kom út nýtt kennslurit í fermingarfræðslu, Con Dios , og þykir hafa heppnast vel. Hafa útdrættir úr efninu verið settir á netið og hentar mjög vel á dreifbýlum stöðum. „Þar er líka að finna stiklur á myndbands- og hljóðupptökuformi sem hjálpar mjög þeim sem eiga máski erfiðara með að læra af texta. Samskiptin utan fræðslutímanna fara að mestu fram í gegnum Facebook-hópinn og þar set ég börnunum fyrir að skoða hitt og þetta í námsefninu.“

Valkostirnir gefa fermingunni meira gildi

Talið berst að gildi fermingarinnar á 21. öld og hlutverki trúarinnar í lífi fólks. Er eðlilegt að spyrja hvernig fermingin og fermingarfræðslan talar til unglinga á árinu 2016 og hvaða rullu kristnin spilar hjá Facebook-kynslóðinni. Oddur bendir á að það sé margt jákvætt við þá þróun að börnum standi fleira til boða en trúarleg ferming og verði það til þess að sú ákvörðun að fá kristilega fermingu hefur meira gildi. „Segja má að krakkarnir hafi meira svigrúm í dag. Ég man að þegar ég fermdist gerði ég það aðallega vegna þess að allir hinir gerðu það. Í dag virðist vera upplifun krakkanna að þau geti tekið sjálfstæða ákvörðun um það hvort þau fermast eða ekki, og ef þau hafa efasemdir er valið þeirra.“

Um leið er eins og svigrúm hafi skapast innan kirkjunnar fyrir fjölbreyttari skilning á trúnni. „Fermingarbörnin hafa ólíkar hugmyndir um trúna og Guð og skilgreina hana á mismunandi hátt, allt frá hvítklæddum karli sem situr á skýi uppi á himnum, yfir í ósýnilegt afl kærleika og umhyggju. Og það er líka viðbúið að hugmyndir þeirra muni breytast og þróast á næstu árum, ef ekki alla ævi. Trúarhugmyndir okkar eru sjaldan þær sömu við 14 ára og 54 ára aldurinn. Sumir munu styrkjast í trúnni og aðrir fjarlægjast hana, en þá situr eftir að fermingin er verðmæt hefð, fermingarfræðslan jákvætt veganesti og þegar upp er staðið munu allir eiga góðar minningar frá fermingardeginum.“

ai@mbl.is

Lóðrétt og lárétt bakland

Í boðskap trúarinnar má finna ýmis gildi sem geta hjálpað ungu fólki að fóta sig í flóknum heimi. Oddur segir hverja kynslóð glíma við sínar gildrur og leikur fermingarfræðslan hlutverk við að beina unga fólkinu á farsælli braut í lífinu. „Fyrr á dögum var t.d. mikil áhersla lögð á forvarnir í vímuefna-, áfengis- og tóbaksmálum en í dag beinum við sjónum okkar að hættum sem fylgja hinni svokölluðu klámvæðingu. Boðskapurinn er í grunninn sá sami nú og áður; að við berum virðingu fyrir okkur sjálfum, fyrir öðrum, og fyrir umhverfi okkar. Við brýnum líka fyrir fermingarbörnunum að þau eiga bakland í foreldrum sínum og vinum þegar þeim finnst þrýst á þau að gera eitthvað sem þeim ekki geðjast. Baklandið er bæði lóðrétt og lárétt; í Kristi og í fólkinu umhverfis okkur.“