Trú „Eftir að borgaralegar fermingar fóru að gerast algengari eru þau fermingarbörn sem fermast hér í kirkjunni líklegri til þess að fermast á trúarlegum forsendum, segir séra Eiríkur Jóhannsson, prestur í Háteigskirkju,“ sem hefur séð um fermingarfræðslu árum saman.
Trú „Eftir að borgaralegar fermingar fóru að gerast algengari eru þau fermingarbörn sem fermast hér í kirkjunni líklegri til þess að fermast á trúarlegum forsendum, segir séra Eiríkur Jóhannsson, prestur í Háteigskirkju,“ sem hefur séð um fermingarfræðslu árum saman. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Mikið verður um að vera í kirkjum landsins á næstunni. Fjölmennir hópar fermingarbarna staðfesta þar skírnarheitið eftir að hafa verið í fermingarfræðslu í vetur.

Séra Eiríkur Jóhannsson er prestur í Háteigskirkju og hefur annast fræðslu fermingarbarna þar ásamt sóknarprestinum, séra Helgu Soffíu Konráðsdóttur.

„Þegar ég kom hingað sem prestur í Háteigskirkju var ég búinn að vera átján ár í Hruna, rétt hjá Flúðum og þar áður var ég prestur á Skinnastað í Öxarfirði,“ segir séra Eiríkur Jóhannsson.

Er fermingarfræðslan öðruvísi í sveitinni en hér á höfuðborgarsvæðinu?

„Nei, hún er mjög svipuð. Þótt krakkar búi í sveit vinna þau sjaldnast á búum foreldra sinna, það er liðin tíð með aukinni tækni. Krakkar í sveit hafa nánast sömu áhugamál og möguleika og þau sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Fermingarfræðslan hér í Háteigskirkju hefst strax og skólinn byrjar á haustin. Krakkarnir mæta einn tíma í viku, á fimmtudögum. Eftir að borgaralegar fermingar fóru að gerast algengari eru þau fermingarbörn sem fermast hér í kirkjunni líklegri til þess að fermast á trúarlegum forsendum. Yfirleitt hafa þau rætt um ferminguna við foreldra sína eða aðra aðstandendur og koma í kirkjuna af því að þau hafa sjálf ákveðið að fermast þar.“

Veitir þú almenna trúarbragðafræðslu í fermingarferlinu?

„Já, við reynum að setja okkar fræðslu í samhengi við önnur trúarbrögð. Mér finnst mesta breytingin í sambandi við fermingar frá því að ég var ungur prestur vera sú að börnin koma mun fáfróðari inn í fermingarfræðsluna en áður. Fræðsla um trúarbrögð virðist hafa verið minnkuð í skólum og sennilega á heimilum líka. Börnin vita lítið um kristna trú og önnur trúarbrögð. Sem dæmi hafa fæst varla heyrt getið um Móses, sem allir þekktu áður. En þess skemmtilegra finnst þeim að heyra sögur úr Biblíunni.“

Mæta vel í messur

Eru fermingarbörn nútímans almennt trúuð?

„Já, þau eru mörg trúuð þótt þau láti ekki mikið á því bera út á við. Við förum, fljótlega eftir að fermingarfræðslan byrjar á haustin, með krakkana í Vatnaskóg og þar kannast þau oft vel við sig, að minnsta kosti strákarnir. Við erum jú hér á svæði íþróttafélagsins Vals með sína sterku tengingu við KFUM og KFUK. Krakkar tala sjaldnast um hvort þau biðji kvöldbænirnar sínar, það var ekki einu sinni þannig þegar ég var unglingur. Við byrjum yfirleitt fermingarfræðslutímana á að biðja saman bænir og ég verð var við að krakkarnir eru einlægir í bæninni. Þau mæta líka býsna vel í messur og við hvetjum þau til að sækja fleiri kirkjur en kirkjuna okkar.

Við Helga Soffía Konráðsdóttir, sóknarprestur í Háteigskirkju, erum saman með fermingarfræðsluna, sem er skemmtilegt og gefandi viðfangsefni í kirkjustarfinu. Þetta árið eru fermingarbörnin um sextíu úr tveimur skólum, Háteigsskóla og Hlíðaskóla. Krökkunum er skipt í þrjá hópa sem koma á bilinu klukkan fjögur til sex á daginn. Fleiri börn eru í Hlíðaskóla og því koma strákarnir sér og stelpurnar eru svo í öðrum hóp. Krakkarnir í Háteigsskóla eru öll saman.“

Hvort er þægilegra að hafa stráka og stelpur saman eða skipta hópnum upp eftir kyni?

„Stelpurnar eru oft jákvæðari en strákarnir eru mjög skemmtilegir, bara heldur meiri gangur í þeim. Mér finnst ekki mikill munur á krökkum nútímans og krökkum sem ég var með í fermingarfræðslu þegar ég var ungur prestur. Aðallega vissu krakkar áður fyrr meira um kristna trú en börn nútímans. Það gaf manni ráðrúm til að ræða meira um siðfræði og fleira því búið var að byggja grunninn. Nú þarf bæði að fræða börnin um boðskap frelsarans og segja dæmisögur úr Biblíunni.

Í fermingarfræðslunni vinnum við út frá bók sem heitir Con Dios sem er tiltölulega ný á markaðinum. Ég bauð foreldrum fermingarbarnanna í fyrra að koma og fræðast um fermingarfræðsluna en það fékk ekki nógu góðar undirtektir. En þau sem komu voru áhugasöm.

Bókin Con Dios hefur fjölbreytta nálgun kennslufræðilega. Í henni eru meðal annars verkefni og myndir og þar er fjallað um kristna siðfræði með fleiru. Við bjóðum krökkunum upp á að skrifa spurningar á blað ef þeim liggur eitthvað á hjarta, þau eru stundum dálítið feimin að spyrja. Svo tökum við spurningarnar fyrir og svörum þeim.“

Pálmasunnudagur vinsæll

Kunna krakkarnir bænina Faðir vor?

„Já þau kunna hana þegar þau koma hingað. Ég man ekki eftir neinu barni sem ekki kunni Faðir vor áður en það kom í fermingarfræðsluna. Sum kunna líka aðrar bænir. Almennt finnst mér að unglingar nútímans séu mannvænlegt fólk og skemmtilegt sem hefur ríka réttlætiskennd og spyr gagnrýnna spurninga. Krakkarnir eru að spegla sig í heimi hinna fullorðnu. Fermingin hefur samt ekki sömu þýðingu og áður fyrr í lífi barna. Þá var ferming útskrift í heim hinna fullorðnu, þá þurftu þau að fara að sjá um sig sjálf og voru komin í fullorðinna manna tölu. Nú fer sú útskrift fremur fram þegar framhaldsskólaárin taka við, þá er manndómsvígsla nútímans.

Við höfum ekki upplýsingar frá skólum um þá krakka sem koma í fermingarfræðslu hingað. Það er að vissu leyti ágætt, þau koma þá með opnum huga og laus við allar greiningar. Þau eru skólasystkini og þekkjast yfirleitt talsvert og kemur misjafnlega saman eins og gengur. En við sjáum auðvitað stundum merki þess að sum þeirra séu höfð út undan. En við erum ekki það mikið með þeim að hægt sé að vinna eitthvað markvisst í þeim málum.“

Hver er vinsælasti fermingardagurinn?

„Langflest vilja fermast á Pálmasunnudag. Finnst gott að þeirri athöfn sé lokið fyrir páska. Ég verð ekki var við að krakkarnir séu að metast um fatnað eða veislur í sambandi við fermingu. Mesta breytingin frá því ég hóf preststörf er að nú eru veislur í ríkum mæli haldnar í sölum úti í bæ, áður voru þær fremur haldnar í heimahúsum.“

Trommurnar í Hruna

Séra Eiríkur er fæddur og uppalinn á Raufarhöfn á Melrakkasléttu.

„Ég var fermdur þar 1974 og fékk fremur stutta fermingarfræðslu. Meiri partinn var prestlaust á Raufarhöfn en svo kom séra Sigurvin Elíasson, prestur á Skinnastað í Öxarfirði, og var á Raufarhöfn í viku og tók okkur þá heim til sín í fermingarfræðsluna.“

Hvernig hagaðir þú fermingarfræðslunni austur í Hruna?

„Hún var mjög svipuð og gerðist á þeim tíma á höfuðborgarsvæðinu. En vegalengdirnar voru meiri. Krakkarnir komu í skólabíl heim að Hruna í safnaðarheimilið og foreldrarnir þurftu að sækja þá heim aftur. Þess vegna vorum við með fermingarfræðsluna sjaldnar en hér gerist og þá í tvo og hálfan kennslutíma í einu.

Hruni er þekktur staður úr íslenskum þjóðsögum. Flestir hafa heyrt söguna um dansinn í Hruna. Þar var þá prestur sem var mjög gefinn fyrir skemmtanir og gleðskap og svo fór að kirkjan og fólkið sem í henni var sukku í jörð niður vegna dansferðar, drykkju og spilamennsku prests og kirkjugesta. Einhverju sinni var ég með krakka uppi í Kirkjuláginni, rétt ofan við bæinn. Ég sagði þeim söguna af dansinum í Hruna og þá lagði einn strákurinn eyrað að jörðinni og sagði: „Ég heyri í trommunum.“

Leyfir þú tilvonandi fermingarbörnum að vera með símana sína í tímum?

„Já, ég bið þau bara að slökkva á símunum sínum og flest gera það. Ég tek ekki til þess þó það komi fyrir að út af bregði. Það hefur verið endalaus innreið nýrrar tækni frá því maður var sjálfur krakki. Þá var fermingargjöfin útvarpstæki með segulbandi – nú er það sennilega Iphone með þráðlausum hátalara.“

gudrunsg@gmail.com