[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
23. umferð Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Hún er mjög mikil keppnismanneskja. Um leið og hún stígur inn á völlinn þá vaknar eitthvert innra dýr hjá henni.

23. umferð

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Hún er mjög mikil keppnismanneskja. Um leið og hún stígur inn á völlinn þá vaknar eitthvert innra dýr hjá henni. Hún hatar að tapa,“ sagði Hafrún Hálfdánardóttir, leikmaður Stjörnunnar, um landsliðskonuna Margréti Köru Sturludóttur, liðsfélaga sinn. Morgunblaðið hefur varpað kastljósinu á einn leikmann úr Dominos-deild kvenna í körfubolta eftir hverja umferð í vetur, og nú er komið að Margréti Köru sem hefur leikið afar vel á sinni fyrstu leiktíð eftir þriggja ára hlé.

Margrét Kara er 26 ára gömul. Hún lék áður með Keflavík og KR og varð Íslandsmeistari með báðum liðum, og hún var svo kjörin besti leikmaður úrvalsdeildarinnar tímabilið 2011-2012. Þá varð hún hins vegar að taka sér barneignarleyfi og fluttist til Noregs, en sneri heim í fyrra og ákvað að taka fram körfuboltaskóna með Stjörnunni, sem er nýliði í Dominos-deildinni. Þar hefur hún verið lykilmaður og að meðaltali skorað 10,9 stig, tekið 12,4 fráköst og átt 4,4 stoðsendingar í leik.

„Hún er mjög mikill íþróttamaður. Hún býr að því að hafa haldið sér í formi þessi ár sem hún var í burtu, og þurfti því ekki að byrja á að vinna það upp. Hún var ekki lengi að ná sinni snerpu og styrk og svo er „touchið“ að koma smám saman. Hún býr yfir endalausri vinnusemi og er gríðarlega öflugur frákastari,“ sagði Hafrún, en Margrét Kara er í þriðja sæti yfir leikmenn með flest fráköst í deildinni í vetur.

„Hún ætti í raun ekki að vera að taka svona mörg fráköst, því hún er ekki það hávaxin og margar eru hávaxnari en hún. Hún tekur þetta hins vegar á grimmdinni og ákveðninni. Hún er algjör vinnuhestur og það er mjög gott að vita af henni með sér í liði,“ bætti Hafrún við, og segir að utan vallar sé líka gott að hafa Margréti Köru í liðinu:

„Hún er svolítill fjörkálfur. Hún er mjög félagslega sterk, tekur sig sjálfa ekki of alvarlega og er dugleg við að djóka og fíflast í öllum.“

Eins og Hafrún nefndi í byrjun er Margrét Kara mikil keppnismanneskja, vön því að ná árangri og því hefur tímabilið í vetur ekki síst verið erfitt fyrir hana. Stjarnan er í 6. sæti deildarinnar með aðeins sex stig eftir 20 leiki, tólf stigum á eftir næstu liðum.

„Þetta er búið að vera svolítið erfitt fyrir hana, eins og okkur allar. Þessi staða sem við erum í núna er sérstaklega skrýtin. Við eigum fjóra leiki eftir og það var orðið nokkuð ljóst fyrir landsleikjahléið í febrúar að við værum ekki á leiðinni í úrslitakeppnina. Það er mjög skrýtið fyrir keppnismanneskju að átta sig á því að við séum ekki á leiðinni þangað, en eiga samt eftir slatta af leikjum. Þetta er búið að vera drullusvekkjandi og ég veit að henni [Margréti Köru] hefur þótt þetta leiðinlegt, að vera ekki í titilbaráttu,“ sagði Hafrún.

Margrét Kara gat hins vegar fagnað á dögunum þegar íslenska landsliðið vann sinn merkilegasta sigur frá upphafi, með því að leggja sterkt lið Ungverja að velli í undankeppni EM. Hún hafði verið kölluð inn í landsliðið fyrir þann leik, og leikinn við Portúgal nokkrum dögum fyrr, eftir að hafa verið frá landsliðinu í fjögur ár. Hún skoraði úr öllum skotum sínum gegn Ungverjum, samtals sjö stig, og tók tvö fráköst. Hafrún kvaðst ekki hissa á því að Margrét Kara næði að stimpla sig svo fljótt inn í landsliðið, eftir langt hlé:

„Það kom mér ekkert á óvart. Maður sá það svo skýrt í Laugardalshöllinni gegn Ungverjalandi að hún á heima í þessum hópi.“