[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borghildur fæddist á Ísafirði 4.3. 1931: „Þar var gott að slíta barnsskónum. Maður var alltaf úti að leika sér, hafði nóg að gera og bærinn allur var okkar leiksvæði.

Borghildur fæddist á Ísafirði 4.3. 1931: „Þar var gott að slíta barnsskónum. Maður var alltaf úti að leika sér, hafði nóg að gera og bærinn allur var okkar leiksvæði.“

Borghildur útskrifaðist úr landsprófsdeild Gagnfræðaskóla Ísafjarðar 1947: „Mér er minnisstætt þegar tvær bekkjarsystur mínar sögðu mér að þær ætluðu í Kennaraskólann nk. vetur. Ég varð steinhissa því kennsla var það síðasta sem ég hefði viljað leggja fyrir mig. Svo þróuðust hlutirnir þannig, án þess að þar lægi einhver staðföst ákvörðun að baki, að ég kenndi í rúm 40 ár og náði aldrei að fá leiða á því.“

Borghildur stundaði nám við Myndlista- og handíðaskólann í Reykjavík 1949-50, við Haandarbejdets Fremmes Skole í Kaupmannahöfn 1950-52 og útskrifaðist sem handavinnukennari 1952. Hún stundaði síðan nám við Kensington School of Language í London sumarið 1956, við Husflidshøjskole í Danmörku sumarið 1959, við Los Angeles Trade Technical College í Kaliforníu í fatahönnun, 1965-68, stundaði nám við KHÍ vorið 1974 og lauk prófum í uppeldis- og kennslufræði við KHÍ 1980-82. Auk þess hefur hún sótt fjölda sumarnámskeiða.

Borghildur kenndi við Námsflokka Reykjavíkur 1952-55, vann við verslunina Vogue 1954-56, kenndi við Húsmæðraskólann á Staðarfelli í Dalasýslu 1956-58, við Barnaskóla Garðahrepps (Flataskóla) 1958-62, kenndi á föndurnámskeiðum á kvöldin í þrjá vetur 1959-62 og var flugfreyja hjá Loftleiðum 1962-64. Hún sótti síðan um græna kortið í Bandaríkjunum, fékk þar atvinnuleyfi og flutti til Kaliforníu vorið 1964. Þar var hún gjaldkeri hjá Crocker Citizens National Bank í Los Angeles 1964-68 og síðasta árið aðalgjaldkeri bankans. Hún var gjaldkeri Íslendingafélagsins í Los Angeles 1966-68, gjaldkeri Sparisjóðs Kópavogs 1968-69, handavinnukennari í Hagaskóla 1969-79, í Melaskóla 1969-72, við Fjölbrautaskólann í Breiðholti 1977-2001 og deildarstjóri Myndlistarbrautar FB 1992-94. Þá var hún beðin að skipuleggja handíðabraut skólans en FB var fyrsti framhaldsskólinn sem stofnaði slíka braut. Handíðabrautin FB hófst sem fata- og textílbraut 1994 og var Borghildur fag- og deildarstóri hennar til 2000.

Borghildur er heiðursfélagi í Fatex – félagi fata- og textílkennara í framhaldsskólum. Eftir að hún hætti kennslu fór hún að taka grunn- og framhaldsskólanema í einkatíma í stærðfræði og hefur sinnt því síðan: „Ég hef alltaf haft mikla ánægju af einkakennslunni.“

Borghildur var formaður fjáröflunar jólakorta hjá Svölunum á árunum 2009-2012.

Fjölskylda

Borghildur giftist 23.8. 1970 Eðvarði Bjarnasyni, f. 14.1. 1926, rafmagnseftirlitsmanni. Foreldrar hans voru Bjarni Marteinsson, netagerðarmeistari á Eskifirði, og k.h., Gunnhildar Steinsdóttur húsfreyja.

Kjörbörn Borghildar og Eðvarðs eru Jóna Björg Eðvarðsdóttir, f. 5.4. 1980, lyfjatækninemi í Reykjavík og er sonur hennar Máni Elvar Traustason, f. 2002, og Gunnar Friðrik Eðvarðsson, f. 1.1. 1985, mannfræðingur í Reykjavík, í sambúð með Valdimari Ármann kvikmyndagerðarmanni og á Valdimar tvær dætur, Ingu Rán, f. 1994, og Maríu, f. 1996.

Systkini Borghildar: Þorvarður Björn Jónsson, f. 16.10. 1928, d. 23.10. 2013, verkfræðingur og fyrrv. framkvæmdastjóri fjarskiptasviðs Pósts og síma; Sigurður Kristján Jónsson, f. 1932, d. 1934; Valdimar Kristján, f. 20.8. 1934, prófessor emeritus, og Jón Albert, f. 21.9. 1936, d. 27.4. 2008, matreiðslumeistari og sendibílstjóri.

Foreldrar Borghildar voru Jón Kristjánsson, f. 22.9. 1890, d. 22.11. 1972, trésmíðameistari á Ísafirði og í Reykjavík, og k.h., Þorbjörg Valdimarsdóttir, f. 18.4. 1894, d. 29.5. 1968, verslunarmaður og síðar húsfreyja á Ísafirði og í Reykjavík.