Magnús Rannver Rafnsson
Magnús Rannver Rafnsson
Eftir Magnús Rannver Rafnsson: "Góðu fréttirnar eru hinsvegar í stuttu máli þessar; hefðbundnar lausnir í formi gömlu stálgrindarmastranna eru ekki boðlegar í íslensku samfélagi."

Nils Gústavsson skrifaði grein í Morgunblaðið nýlega fyrir hönd vinnuveitanda síns Landsnets, ásamt Sverri Jan Norðfjörð starfsbróður sínum. Þessari grein ber að fagna. Skrif þessara herramanna eru að vísu hefðbundið útspil Landsnets gagnvart greinaskrifum mínum um fyrirtækið, en bera með sér skýr skilaboð. Enn er mörgum spurningum sem settar hafa verið fram í öðrum miðlum, ósvarað. Ég ítreka óskir um svör. Það er krafa uppi í samfélaginu um meira gagnsæi, því væri eðlilegt að stjórnendur Landsnets tækju sig nú til og svöruðu hinum fjölmörgu spurningum sem hvíla þungt á þjóðinni. Hundrað milljarðar eru þungur baggi að bera.

Góðu fréttirnar eru hinsvegar í stuttu máli þessar; hefðbundnar lausnir í formi gömlu stálgrindarmastranna eru ekki boðlegar í íslensku samfélagi. Það er rétt að hrósa Landsneti fyrir þennan afbragðs góða áfanga sem felst í því að viðurkenna að fagurfræðileg gæði eiga fullan rétt á sér, ein og sér. Næsta skref er að finna leiðir til þess að tryggja fagurfræðileg gæði, án þess að margfalda framleiðslukostnað í samanburði við þekktar lausnir. Annað skref væri að tryggja fagurfræðileg en jafnframt umhverfisleg gæði, án þess að auka framleiðslukostnað. Þar á eftir væri hægt að setja sér markmið um fagurfræðileg, tæknileg og umhverfisleg gæði, fyrir lægri fjárhæðir en þekkist.

Rétt er að minna á að gert hefur verið ráð fyrir „gömlu stálgrindarmöstrunum“ (skv. orðum Landsnetsmannanna sjálfra) í öllum áætlunum um framkvæmdir fyrir raforkuflutningskerfi á komandi misserum, þar með er talin Sprengisandslína, Blöndulína og Suðvesturlínur. Þær lausnir sem ætlunin er að bjóða okkur upp á skv. fyrirliggjandi gögnum, meðfram allri Reykjanesbrautinni, á Hellisheiði, í Blöndulínu eða á Sprengisandi, eru enn óásættanlegar lausnir fyrir raforkuflutningskerfi sem byggt er fyrir framtíðina.

Það er ennfremur rétt að undirstrika, að nýju skraut-tillögurnar sem Landsnet kynnir til leiks eru einstaklega dýrar lausnir sem geta augljóslega aldrei orðið grundvöllur sáttar. Ég myndi giska á að kostnaðurinn sé margfeldi af verði hefðbundinna lausna, en Landsnet gæti varpað betra ljósi á það fyrir okkur. Mögulega er nýlegum gjaldskrárhækkunum ætlað að dekka aukinn kostnað við alla þessa nýsköpun og þróunarvinnu sem staðið hefur yfir mörg ár vegna mannvirkja sem gerð eru úr stáli, fyrir lausn sem á aðeins að nota á nokkrum velvöldum stöðum, jafnvel bara einu sinni. Það ber að hafa í huga að stál er ekki nýtt efni enda allar lausnir þekktar fyrir deili, útfærslur og tengingar. Hver er kostnaðurinn eiginlega?

Það væri afar forvitnilegt að fá betri upplýsingar um þessi mál, hvað Landsnet rannsakaði og þróaði svona mikið og af hverju það varð svona dýrt, hverslags tækniþróun hafi þarna átt sér stað, hvaða árangur hafi náðst og hvaða markmið hafi í leiðinni verið uppfyllt. Það væri einn en bara einn þáttur í því að skapa aðstæður fyrir mögulega sátt. Þegar kemur að sáttatali, þá er leitt að sjá að Landsnet opinberar sífellt betur að fyrirtækið virðist ekki átta sig á kjarna vandans. Það er áhyggjuefni. Íslenskt samfélag á rétt á ítarlegri og skýrari upplýsingum í þessu samhengi: um kostnað, áætlanir um kostnað, kaup á ráðgjöf og hið meinta samstarf við Statnett og hvað það feli í sér. Því íslenskur almenningur á rétt á gagnsærri stjórnsýslu og lætur ekki gabba sig.

Skúlptúrar eru í eðli sínu dýr mannvirki og geta dregið að sér mikla athygli. Það sem slíkt getur átt fullan rétt á sér og getur verið skemmtileg tilbreyting við ákveðnar aðstæður. Það er hinsvegar ekki lausn á vandanum, hann verður enn til staðar í öllum sínum víddum. Ef afrakstur margra ára rannsóknar- og þróunarstarfs sem kostaði voðalega mikla fjármuni eru þrír rándýrir skúlptúrar gerðir úr stáli, þá er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af því hvernig fyrirtækið fer með fjármuni almennings. Rándýr skúlptúr er jú rándýr skúlptúr hvort sem hann er vel heppnaður eða ekki og óþarfi að gera því skóna að hann sé eitthvað annað. Sé hinsvegar um að ræða nýja lausn sem er bæði hagkvæm, umhverfisvæn og tæknilega betri en það sem þekkist, horfir málið öðruvísi við. Þess sjást þó engin merki.

En nú er rétt að njóta augnabliksins og fagna því að „gömlu stálgrindarmöstrin“ heyra sögunni til ef rétt er skilið og að komin er upp ný staða á markaði fyrir raforkuflutningskerfi. Þetta hlýtur að kalla á töluverðar breytingar í fyrirliggjandi áætlunum um raforkuflutningskerfi framtíðarinnar. Það er jákvætt.

Höfundur er verkfræðingur.

Höf.: Magnús Rannver Rafnsson