Fróðleiksfús Emil Örn Benediktsson: „Mér finnst merkilegast að læra svona mikið um trúna. “
Fróðleiksfús Emil Örn Benediktsson: „Mér finnst merkilegast að læra svona mikið um trúna. “ — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Það stefnir í að pálmasunnudagur, 20. mars næstkomandi, verði mikill fermingardagur. Einn af fermingardrengjum þess dags er Emil Örn Benediktsson sem fermist frá Fella- og Hólakirkju.

Mér hefur líkað fermingarfræðslan mjög vel,“ segir Emil Örn Benediktsson fermingardrengur.

„Ég vissi bara dálítið um kristna trú áður en nú veit ég meira. Mér fannst merkilegt að læra um bænir. Ég kunni ekki faðirvor áður. Ég er ekki alinn upp í mikilli trú en ég var skírður og tvö eldri systkini mín eru fermd. Ég var bara svo lítill þegar þau fermdust að ég man ekki mikið eftir því.“

Hvaða prestur fermir þig?

„Hann heitir Guðmundur Karl Ágústsson og mér finnst hann mjög skemmtilegur. Hann ætlar að fara með okkur öll í Vatnaskóg bráðum og ég hlakka mjög mikið til þess. Mjög mörg skólasystkini mín fermast frá Fella- og Hólakirkju. Allir bestu vinir mínir eru að fermast, einn þeirra fermist sama dag og ég.“

Jesús Kristur var góður maður

Hvað finnst þér merkilegast við ferminguna?

„Mér finnst merkilegast að læra svona mikið um trúna. Við gerum verkefni úr fermingarbókinni. Þar er lögð áhersla á að Jesús Kristur var góður maður og sonur Guðs.“

Ertu búinn að velja þér fermingarföt?

„Ég verð bara í skyrtu og jakka með slaufu og í gallabuxum. Ég valdi mér Nike-strigaskó. Ég hugsa að flestir strákarnir verði í strigaskóm, að minnsta kosti þeir sem ég þekki. Stelpurnar verða í hælaskóm held ég. Ég valdi fötin mín sjálfur og keypti þau á mismunandi stöðum.“

Hvernig ætlar þú að hafa fermingarveisluna þína?

„Örugglega eins og venjulega veislu, það verður matur og kökur. Ég ræð einhverju um þetta en mamma mín ræður samt mestu af þessu. Veislan verður í sal í Kópavogi. Ég held að það sé um hundrað og fjörutíu manns sem er boðið.“

Peningar væru ágætir

Hvað langar þig að fá í fermingargjöf?

„Mér er eiginlega alveg sama – en peningar væru ágætir.“

Finnst þér fermingin breyta einhverju hjá þér?

„Já, þá er ég að staðfesta trúna og skírnina. Ég held samt að ég verði frekar feginn þegar fermingin verður búin því ég hef í allan vetur farið einu sinni í viku í fermingarfræðslu.“

Hver eru helstu áhugamál þín?

„Ég hef mestan áhuga á fótbolta. Ég æfi hjá Leikni í fjórða flokki.“

gudrunsg@gmail.com