Mér sýnist við vera að selja meira af stökum gallabuxum með stökum jakka heldur en heilum jakkafötum,“ segir Emil þegar við tökum tal saman um það vinsælasta hjá fermingardrengjunum sem koma til hans að kaupa sér föt fyrir stóra daginn. „Við erum að vanda með úrval af jakkafötum enda eru margir sem vilja þau. En kosturinn við gallabuxurnar er auðvitað sá að það er hægt að nýta þær beint í skólann og hversdags, í framhaldinu af fermingunni á meðan tækifæri til að fara í jakkafötin eru færri.“ Emil bætir því við að þar séu fremstar Cheap Monday gallabuxurnar, sem eru bæði í vinsælum sniðum og líka á góðu verði.
Algengast að skarta hálstaui
Þó gallabuxur hafi rutt sér til rúms á kostnað jakkafatanna þá vilja flestir fermingardrengirnir skarta hálstaui þegar kemur að sjálfum fermingardeginum; það vilja jú allir vera fínir þegar þar að kemur. En hvort skyldu slaufur eða hálsbindin vera vinsælli?„Langflestir velja sér hálstau og þverslaufurnar eru heldur vinsælli,“ svarar Emil. „Hvað litina varðar þá er vinsælast að hafa sterka liti og þar er enginn litur sterkari en vínrauður. Það er mjög algengt að taka svartar buxur, hvíta skyrtu, gráan jakka og vínrauða slaufu. Við erum bæði með slaufur úr hefðbundnu míkrófíber-efni og svo líka prjónaðar slaufur, samanber prjónuð bindi. Þær eru virkilega vinsælar.“
Emil bætir því við að vínrautt með doppum sé einnig með því vinsælla, bæði í þverslaufum og hálsbindum, og sama sé að segja um vínrautt hálstau með rósamynstri.
„Þetta er vinsælasta litasamsetningin ef jakkinn er dökkgrár. Ef strákarnir vilja svo aftur frekar vera í khakí-lituðum buxum við ljósbláa skyrtu og dökkbláan jakka, þá eru þeir að taka karrýgula prjónaða slaufu. Það er líka mjög skemmtileg samsetning.“
Strigaskór og spariskór
Hvað skóna varðar er ekki síður mikið um strigaskó en hefðbundna spariskó úr leðri, að sögn Emils.„Adidas eru með alveg svarta og alhvíta strigaskó sem eru mjög vinsælir, einkum Stan Smith-týpan, sem er mjög stílhrein og flott, og svo líka Superstar, hvítir með svörtum röndum. Uppháir kolsvartir Converse All-Star virka líka alltaf og hægt að nota við spariföt og líka hversdags,“ bætir Emil við. „En fyrir þá sem vilja erum við líka með spariskó á góðu verði frá merkinu Bullboxer, sem henta vel í fermingarnar og eru á mjög góðu verði.“
Svart leður eða brúnt leður – hvort er vinsælla?
„Bæði. Þeir sem eru í gráum jakka taka svarta og þeir sem taka bláan jakka velja sér brúna.“
Að endingu nefnir Emil að til að fullkomna alklæðnaðinn sé skothelt að velja sér sokka sem ríma við hálstauið, og jafnvel klút í brjóstvasann líka. „Þannig samsetning gerir alveg punktinn yfir i-ið.“
jonagnar@mbl.is