Eigandi Color Run „Við höfum fengið fyrirspurnir frá framkvæmdaaðilum Color Run í Skandinavíu, en þar hafa menn áhuga á að kynna sér markaðssetninguna hér heima,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson.
Eigandi Color Run „Við höfum fengið fyrirspurnir frá framkvæmdaaðilum Color Run í Skandinavíu, en þar hafa menn áhuga á að kynna sér markaðssetninguna hér heima,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir að hafa reynt fyrir sér í hinum ýmsu starfsgreinum og m.a. unnið við markaðsstörf, fjölmiðla, hjá fjármálafyrirtæki og hafa rekið skemmtistað þá stofnaði Davíð Lúther Sigurðarson framleiðslufyrirtækið Silent sem nú starfar fyrir flestar auglýsingastofur landsins.

Mér fannst vera gat á markaðnum og það vantaði fyrirtæki sem m.a. tæki að sér að vinna viðburðamyndbönd fyrir fyrirtæki,“ segir Davíð sem stofnaði Silent 2009 og var í fyrstu eini starfsmaðurinn. Í dag starfa á bilinu 8-12 manns hjá Silent, en að sögn Davíðs er starfsmannafjöldinn nokkuð sveiflukenndur eftir verkefnum og árstíðum. Meðal starfsmanna eru þó lögfræðingur, viðskiptafræðingur og kvikmyndatökufólk, svo fátt eitt sé nefnt, sem öll búa yfir ólíkri þekkingu og reynslu sem gagnast fyrirtækinu og viðskiptavinum þess.

Henta vel til kynningar og kennslu

Þó Silent hafi e.t.v. upphaflega verið stofnað til að mynda viðburði hefur framleiðsla Silent teygt sig í fjölda ólíkra átta sl. sjö ár.

„Auk þess að mynda viðburði, þá tökum við einnig að okkur gerð bæði kynningar- og kennslumyndbanda, svo dæmi séu tekin,“ segir Davíð. Hann bendir á að kennslumyndböndin henti mörgum fyrirtækjum til dæmis vel við kennslu og þjálfun nýrra starfsmanna og þetta eigi ekki hvað síst við um þau fyrirtæki sem eru með dreifða stafsemi og eru til að mynda staðsett á fleiri en einum stað á landinu. „Fólk meðtekur efni öðruvísi þegar fræðslan er sett fram á myndrænan hátt, en þegar því er fenginn þurr handbók til aflestrar.“

Kynningarmyndbönd sem Silent hefur gert mikið af að framleiða henta þá fyrirtækjum ekki síður vel. „Það er okkar trú að ef fólki stendur annars vegar til boða að horfa á myndbandskynningu fyrirtækis eða að lesa kynningartextann sem stendur á vefsíðunni, þá velji flestir myndbandið.

Í dag gefa fæstir sér tíma til að lesa langan texta og myndbandsmiðillinn hentar vel til að segja sögu fyrirtækis og gera fólki kleift að fylgjast með af áhuga og án þess að það taki endilega eftir fróðleiknum sem það er að meðtaka.“

Viðburðinn þarf að sýna strax

Myndatökur frá ráðstefnum og viðburðum eru líka vinsælt viðfangsefni hjá Silent, en fyrirtækið leggur mikla áherslu á skamman afhendingartíma.

„Myndband af viðburði verður að vera tilbúið fljótt,“ segir Davíð. „Myndataka á viðburði missir marks ef myndbandið er ekki aðgengilegt fyrr en tveimur – þremur vikum eftir að atburðurinn átti sér stað.“ Það getur því oft verið mikill handagangur í öskjunni hjá Silent við eftirvinnsluna.“

Davíð nefnir sem dæmi myndband sem Silent vann fyrir Wow Cyclothon í fyrra. „Þá keyrðum við hringinn ásamt hjólaliðunum og skiluðum myndbandi frá keppninni tæpum sólarhring eftir að henni lauk. Það var líka óneitanlega nokkuð sérstök stemning á skrifstofunni, þegar við hófumst handa við myndvinnsluna með fólki sem var þegar búið að vaka í tvo og hálfan sólahring við að mynda hjólreiðarnar. En starfsandinn hjá Silent er góður og það skiptir miklu máli á svona stundum,“ segir hann.

Óvæntar uppákomur vinsælar

Myndbönd af uppákomum njóta líka vaxandi vinsælda hjá viðskiptavinum Silent. Davíð er þar ofarlega í huga myndband sem unnið var í Krónunni fyrir jólin, þegar viðskiptavinir virtust bresta í söng einn af öðrum þar til saman var kominn jólakór sem tók lagið öðrum gestum til mikillar ánægju.

Fiðluleikur og rósagjafir, sem myndað var á N1 bensínstöð á Valentínusardaginn í fyrra, vakti ekki síður mikla lukku og fá myndbönd sem þessi jafnan mikið áhorf og dreifingu á samfélagsmiðlum.

Fjölmargar auglýsingastofur eru meðal viðskiptavina Silent í dag og segir Davíð auglýsingastofur í raun nú orðnar stærsta hóp viðskiptavina fyrirtækisins, þó fyrirtæki setji sig einnig í samband við Silent milliliðalaust.

„Við gerum mikið af því að mynda fyrir samfélagsmiðla, enda eru samfélagsmiðlar mikið notaðir til markaðssetningar í dag.“ Hann segir nokkurn mun geta verið á því myndefni sem unnið er fyrir samfélagsmiðla og fyrir hefðbundnu miðlana – dagblöð og sjónvarp.

Auglýsingar sem hugsaðar eru fyrir samfélagsmiðla þurfi að vera lifandi, en ekki þarf endilega að sama skapi að leggja jafn mikla áherslu á photoshop og aðra slíka myndvinnslu sem getur skipt miklu máli í prentmiðlum. „Auglýsingar á netinu þurfa að hafa skemmtanagildi,“ útskýrir Davíð. Skemmtun og jafnvel fræðsla séu lykilorð í þessu samhengi, þá sé það líka mikill kostur ef auglýsingin er þannig úr garði gerð að sá sem á hana horfir er ekki endilega að velta því mikið fyrir sér hvort um auglýsingu sé að ræða.

Netið gerir líka kröfu um örar breytingar á efni og fyrir vikið má vinnslan á efni fyrir samfélagsmiðla vera bæði hrárri og hraðari.

Silent vinnur mikið af efni fyrir samfélagsmiðla að beiðni auglýsingastofa sem síðan sjá um dreifingu efnisins og má því e.t.v. segja að nafn fyrirtækisins sé nokkuð lýsandi – Silent sé hinn þögli samstarfsaðili auglýsingastofanna. Silent framleiðir þó einnig annað efni fyrir auglýsingastofurnar og framleiddi Silent til að mynda myndband fyrir Öryggismiðstöðina sem er hluti Lúðurtilnefningar auglýsingastofunnar Pipar/TBWA í flokki umhverfisauglýsinga og viðburða.

Áhugi frá Skandinavíu

Davíð á síðan hið litríka Color Run-hlaup sem hlotið hefur tvær tilnefningar, annars vegar til ÁRU-verðlaunanna og svo til Lúðurverðlauna fyrir vef-banner. Davíð fékk Silent til að vinna að herferðinni að baki Color Run hér á landi ásamt Manhattan Marketing, Kontor Reykjavík og Loftfarinu. Hann er ánægður með tilnefninguna, enda var mikil vinna lögð í kynningu og að skapa stemningu fyrir fyrsta íslenska Color Run-hlaupinu sem haldið var í júní í fyrra.

Sú mikla vinna er líka þegar farin að skila sér út fyrir landsteinana. „Við höfum fengið fyrirspurnir frá framkvæmdaaðilum Color Run í Skandinavíu, en þar hafa menn áhuga á að kynna sér markaðssetninguna hér heima,“ segir Davíð sem var á fundi með forsvarsmönnum Color Run í Danmörku er blaðamaður náði í hann. „Hlaupið hefur enda fengið mikla athygli erlendis og var meðal annars valið þriðja besta götuhlaupið á Íslandi og viðbrögð sem þessi vekja óneitanlega athygli.“ annaei@mbl.is