Harpa Þátttakendur koma frá 35 þjóðlöndum, fjórir eru ofurstórmeistarar og 30 eru stórmeistarar.
Harpa Þátttakendur koma frá 35 þjóðlöndum, fjórir eru ofurstórmeistarar og 30 eru stórmeistarar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is GAMMA-Reykjavíkurskákmótið hefst í Hörpu á þriðjudaginn en mótið er eitt sterkasta opna skákmótið sem haldið er í heiminum ár hvert. Um 250 manns taka þátt í mótinu sem hefur sjaldan verið sterkara.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

GAMMA-Reykjavíkurskákmótið hefst í Hörpu á þriðjudaginn en mótið er eitt sterkasta opna skákmótið sem haldið er í heiminum ár hvert. Um 250 manns taka þátt í mótinu sem hefur sjaldan verið sterkara. Meðal keppenda eru fjórir svokallaðir ofurstórmeistarar en það eru þeir sem hafa meira en 2.700 skákstig. Um 30 stórmeistarar eru með. Af 250 keppendum koma um 165 að utan en alls eru keppendur mótsins frá 35 þjóðlöndum á aldursbilinu 9-73 ára. „Hingað vilja allir koma,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands. „Á hverju ári hafa samband um 200 stórmeistarar sem vilja koma og tefla. Við getum ekki boðið öllum, það er ekki hægt, þannig að við veljum úr. Við höfum passað okkur að hafa sterka skákmenn, sterkar skákkonur, undrabörn og goðsagnir.“

Sterkar skákkonur

Mótið fer fram í Hörpu og er enginn aðgangseyrir. „Þetta er með sterkari mótum sem haldin hafa verið. Allir íslensku stórmeistararnir sem eru atvinnumenn taka þátt í því en gömlu meistararnir eru í hlutverki skákskýrenda.“

Sterkar skákkonur eru áberandi í ár. Má þar nefna hina þýsku Elizabetu Paetz, hina írönsku Söru Khademalsharieh og Tönju Sachdev frá Indlandi. Þá koma nokkur undrabörn eins og Fransesco Rambaldi frá Ítalíu, sem er aðeins 16 ára og einn yngsti stórmeistari heims, hinn norski Aryan Tari, sem er yngsti stórmeistari Norðurlanda, og bandaríska undrabarnið Awonder Liang. Hann er aðeins 12 ára og er sá yngsti í skáksögunni sem hefur unnið stórmeistara en það afrekaði hann níu ára.

Allir velkomnir í Hörpu

Íslenska heimavarnarliðið mætir með Hannes Hlífar Stefánsson fremstan í flokki en einnig eru þeir Hjörvar Steinn Grétarsson og Þröstur Þórhallsson með.

„Það verður mikið lagt í skákskýringarnar enda er þetta eitt stærsta opna skákmót heims og þá þarf að sinna alheiminum. Það verður teflt hér í níu daga og það verður hægt að fylgjast vel með á netinu, á heimasíðu mótsins, og þar verða beinar útsendingar. Það er enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.“