Í dag þykir vinsælt að skreyta borðin í fermingarveislunni með vorblómum, þá bæði á lauk og án. „Verða þá tegundir á borð við túlípana, páskaliljur og perlulauka oft fyrir valinu. Hægt er að nota t.d. vasa, krukkur og bolla undir blómin,“ segir Berta Björk Heiðarsdóttir og bætir við að blómaskreytingar af þessu tagi séu í senn stílhreinar og hátíðlegar.
Berta er blómaskreytir hjá blómabúðinni Blómagallerí á Hagamel.
Geta sloppið með minna en 5.000 kr.
Mörg laukblóm blómstra í kringum páskana og eiga mjög vel við þegar haldið er upp á fermingu. Bendir Berta líka á að páskaliljur og túlípanar þyki nokkuð ódýr blóm og hægt að fá mikið fyrir lítið. „Hér sleppur fólk oft með minna en 5.000 krónur fyrir blómaskreytingarnar í fermingarboðinu.“Að nota blóm með áföstum lauk hefur ýmsa kosti í för með sér. Þannig segir Berta að blómið fái næringu úr lauknum og endist því betur. „Það þarf ekki nema örlítið af vatni í vasann eða krukkuna, rétt til að ná til allra neðsta hluta lauksins. Einnig er sniðugt að nota vorblóm á lauk úti. Ef hitastigið er yfir frostmarki má koma blómunum fyrir í pottum og beðum utandyra og skapa þannig fallegri aðkomu fyrir gesti. Þessi blóm þola iðulega kalt veður, allt niður að frostmarki, svo fremi að það sé logn.“
Vilja ekki sleppa blómunum
Það virðist orðið nær ómissandi hluti af fermingarveislunni að skreyta með blómum, þó ekki væri nema með snotrum vendi sem stillt er upp innan um kræsingarnar eða við hlið gestabókarinnar. „Þessi siður er orðinn svo ríkur í landsmönnum að það var varla að merkja að blómasalan á þessum tíma árs drægist saman á erfiðustu hrunárunum. Fólk reyndi þá frekar að spara í öðrum kostnaðarliðum fermingarveislunnar.“Spurð hvað megi til bragðs taka ef fólk vill fá sem mest blómaskraut fyrir sem minnstan pening ráðleggur Berta að bæta við greinum, t.d. af kirsuberjatré. „Greinar sem eru farnar að bruma eru vorboði og það gerir heilmikið að hafa greinar í vasa með nokkrum blómum. Túlípanar eru tiltölulega ódýr blóm og stór og hægt að gera mjög fallegan blómvönd með fáum blómum. Er líka hægt að benda á blóm eins og anímónur og ranunculus sem eru alls ekki dýr á þessum tíma og mikil prýði að þó að ekki séu nema þrjú til fimm blóm í vasa.“
ai@mbl.is
„Safaspennt“ blóm í hárið
Oft er mikið lagt í fermingarhárgreiðsluna og hárið skreytt ferskum blómum. „Brúðarslörið hentar mjög vel sem hárskraut enda blóm sem endist vel án vatns. Einnig þekkist að nota stærri blóm eins og chrysanthemum, orkídeur og nellikur,“ segir Berta.Blómin má sækja að morgni dags, áður en hárgreiðslustofan er heimsótt, eða daginn áður og geyma í vatni. „Eitt er gott að passa upp á og það er að blómið sé „safaspennt“ eins og það er kallað í faginu. Hefur blómið þá fengið vel að drekka og lengi. Þetta hjálpar til að skrautblómin í hárinu haldist falleg allan daginn.“