Donald Trump og Hillary Clinton voru ótvíræðir sigurvegarar „ofurþriðjudagsins“ svonefnda, þegar kosið var í ellefu ríkjum Bandaríkjanna um þá sem gefa kost á sér til þess að verða forsetaefni stóru flokkanna tveggja. Hvort þeirra vann í sjö ríkjum, og stigu með því stórt skref í átt að útnefningu síns flokks.
Þeir repúblíkanar sem vilja koma veg fyrir að Trump verði frambjóðandi þeirra eftir flokksþingið í sumar þurfa að sameinast um einn frambjóðanda sem geti keppt við hann. Því miður er ekkert útlit fyrir að svo verði í bráð, þar sem bæði Ted Cruz og Marco Rubio, helstu keppinautar Trumps, náðu að vinna ríki á þriðjudaginn og vilja því báðir trúa því – og vilja ekki síður að aðrir trúi því – að þeir séu á sigurbraut.
Hinir tveir keppinautarnir, John Kasich, ríkisstjóri Ohio, og Ben Carson heilaskurðlæknir, hafa mun minni ástæðu til þess að halda að framboð þeirra séu lífvænleg, og raunin er orðin sú að Carson er að draga sig út úr keppninni. Kasich hefur hins vegar ekki sýnt á sér neitt sérstakt fararsnið.
Bæði Kasich og Rubio hyggjast bíða til 15. mars þegar kosið verður í heimaríkjum þeirra, Ohio og Flórída, og Cruz telur sig hafa sýnt fram á að hann sé sá sem helst geti sigrað Trump. Þeir telja sig því allir hafa að einhverju að keppa.
Á meðan vinnur tíminn með Trump og því lengur sem keppnin stendur á milli frambjóðendanna fjögurra, þeim mun minni líkur eru á því að Trump verði stöðvaður.