Þýskaland Lögreglumenn standa vaktina í borginni München.
Þýskaland Lögreglumenn standa vaktina í borginni München. — AFP
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Lögreglan í Þýskalandi hefur handtekið 33 ára gamlan lækni sem grunaður er um að hafa talið ungan karlmann á að ganga til liðs við vígasamtök Ríkis íslams.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Lögreglan í Þýskalandi hefur handtekið 33 ára gamlan lækni sem grunaður er um að hafa talið ungan karlmann á að ganga til liðs við vígasamtök Ríkis íslams.

Fréttaveita AFP greinir frá því að fórnarlambið, sem var 24 ára gamall karlmaður með ríkisfang í Þýskalandi, hafi glímt við þroskaskerðingu. Á læknirinn að hafa nýtt sér það og heilaþvegið manninn með því að sýna honum myndbönd af vígamönnum hryðjuverkasamtaka Ríkis íslams og ofbeldisverkum þeirra.

Flugmiði aðra leið á vígaslóðir

Segir lögreglan lækninn því næst hafa keypt flugmiða aðra leið fyrir manninn til Sýrlands og Íraks. Þegar til Íraks var komið sprengdi Þjóðverjinn sig svo í loft upp á fjölmennum stað í borginni Baiji í norðurhluta landsins. Létust í tilræðinu minnst 12 íraskir hermenn. „Rannsókn hefur nú leitt í ljós að sjálfsvígssprengjumaðurinn var skertur andlega og áhrifagjarn og honum hafði því verið úthlutað hjálparmanneskju,“ hefur AFP eftir saksóknara í málinu. „Hvort árásarmaðurinn var sérstaklega valinn vegna síns andlega veikleika er óljóst.“

Er Þjóðverjinn einn af mörg þúsund Evrópubúum sem ferðast hafa til vígasvæða í Sýrlandi og Írak til að taka þar þátt í bardögum.