Björn Bjarnason
Björn Bjarnason
Eftir Björn Bjarnason: "Rúmri öld eftir að „ræðan mikla“ var flutt er ástæða til að hvetja Íslendinga til að átta sig á mikilvægi utanríkis- og öryggismála."

Í verðlaunabókinni Þegar siðmenningin fór fjandans til vitnar Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur í þingræðu sem Guðmundur Björnsson landlæknir flutti í ágúst 1914 í þann mund sem fyrri heimsstyrjöldin hófst. Bókarkaflinn um ræðuna ber millifyrirsögnina Ræðan mikla .

Guðmundur talaði í hartnær tvær klukkustundir og sagði að Íslendingar mættu ekki vera „þau börn að halda, að okkur einum sé óhætt og okkar framtíð“. Ljóst væri að Danir gætu ekki varið Ísland ef á reyndi. „En það er spá mín, að þessi skálmöld verði ekki skammvinn. Og nú spyr ég í fullri alvöru: Hvaðan kemur mönnum sú vissa, að Ísland sé óhult í þessum mikla ófriði?“ Þjóðverjum yrði ekki skotaskuld úr því að hernema Danmörku, það vissu allir. Á þeim stutta tíma sem liðinn væri frá því að Norðurálfuófriðurinn hófst hefði þegar sýnt sig að smáþjóðum væri hvorki stoð í vopnleysi né hlutleysi. Það sýndu örlög Lúxemborgar og Belgíu. „Trúa menn því að varnarleysið sé öruggasta vörnin?“ spurði Guðmundur. „Hver hefur heitið Íslandi griðum? Enginn!“

Taldi Guðmundur nauðsynlegt að landstjórnin leitaði samninga við bresk stjórnvöld svo að Íslendingar bæru ekki skarðan hlut frá borði ef Danir lentu í stríði við Breta eins og í Napóleonsstríðunum snemma á 19. öld. Taldi hann Íslendinga gera sig seka um „vítavert andvaraleysi“ í samskiptum við aðrar þjóðir. Menn yrðu að glöggva sig á því að „utanríkismálin eru aðalatriði í stjórnarfari þessa lands“. Sagðist hann oft hafa hugleitt „hvernig á því muni standa, að við Íslendingar erum svo hræðilega sinnulausir um okkar mesta vandamál, viðskipti okkar við önnur ríki, öll okkar utanríkismál“. „Við höfum aldrei lært að haga okkur eins og ríki, vitum ekki, hvað það er, kunnum það ekki, vitum ekki, að utanríkismálin eru nú orðin okkar mestu og vandasömustu velferðarmál.“

Eftir að hafa rakið efni ræðunnar segir Gunnar Þór Bjarnason (bls. 122):

„Aldrei fyrr hafði alþingismaður talað af slíkum þunga um utanríkismál Íslands. Ef til vill mætti segja að hann hafi verið á undan sinni samtíð. Ræðan vakti að minnsta kosti engin viðbrögð á þingi, kveikti engar umræður. Ráðherra [Sigurður Eggerz] tók einn til máls, svaraði fyrirspurninni [um hvernig hagsmuna Íslands yrði gætt ef sambandið við utanríkisráðuneytið í Kaupmannahöfn slitnaði] og sá ekki ástæðu til að teygja lopann. Taldi hann áhyggjur Guðmundar af öryggi Íslands óþarfar og fyrirspurnina til óþurftar. Íslenska landstjórnin hefði engar sérstakar ráðstafanir gert til að tryggja hlutleysi Íslands og ekki rætt við Bretastjórn um slíkt. Engar viðræður af því tagi væru á döfinni.“

Guðmundur Björnsson landlæknir sá betur hvað verða vildi en Sigurður Eggerz ráðherra og er því öllu vel til haga haldið í hinni ágætu bók Gunnars Þórs.

Hvatning til umræðu

Hið undarlega er að enn þann dag í dag, rúmri öld eftir að „ræðan mikla“ var flutt, er ástæða til að hvetja Íslendinga til að átta sig á hve miklu utanríkis- og öryggismál skipta.

Auður Jónsdóttir rithöfundur birti greinina Varhugaverðir tímar á vefsíðunni Kjarnanum 9. febrúar. Greinina skrifaði Auður í Þýskalandi. Þar minnist hún á einkennilega árás sem rússnesk stjórnvöld gerðu fyrir skömmu á lögregluna í Berlín og þýsk yfirvöld með ásökunum um að þau gerðu ekki nóg til að upplýsa mál ungrar stúlku af rússneskum ættum sem sagði útlendinga hafa rænt sér í Berlín. Síðar játaði stúlkan að hún hefði falið sig á heimili vinar síns til að komast hjá því að upplýsa stranga foreldra sína um að hún skrópaði í skólanum. „En ráðamenn í Rússlandi vilja ólmir telja sínu fólki trú um að þarna hafi flóttamenn nauðgað rússneskri stúlku og það sé Merkel að kenna,“ segir Auður og síðan í lok greinarinnar:

„Hér í Þýskalandi sýður á sjónvarpinu því það er svo hressilega rætt saman í öllum umræðuþáttunum þar sem fólk skiptist á skoðunum um þessi mikilvægu mál. Er ekki löngu kominn tími á eldheitan umræðuþátt í íslensku sjónvarpi um alþjóðastjórnmál og sögulegar hræringar í heiminum?“

Umræðuþættir í sjónvarpi eru eitt, annað að átta sig á því hvert stefnir og hvernig hag Íslendinga sé best gætt.

Miklar hræringar

Hræringarnar í næsta nágrenni okkar eru vissulega miklar. Full ástæða er til að fylgjast náið með þeim og ræða. Hér skulu nefnd fimm atriði sem skipta miklu:

1. Atkvæðagreiðslan í Bretlandi um hvort Bretar verða áfram í ESB eða ekki. Segi Bretar sig úr ESB ýtir það undir frekari sundrungu innan sambandsins á tímum þegar samstaða Evrópuríkja gagnvart Rússum er mikilvægari en hún hefur verið í aldarfjórðung.

2. Þróun Schengen-samstarfsins. Þar er um tvíþætt samstarf að ræða: að tryggja vegabréfalaus landamæri innan Schengen-svæðisins og sporna gegn því að þetta frelsi sé misnotað til dæmis til glæpastarfsemi. Gæsla ytri landamæra svæðisins er hrunin í Grikklandi og samstarfið því í uppnámi. Við þessar aðstæður skiptir aðild að eftirlits- og löggæsluhlið samstarfsins miklu.

3. Áherslan á sameiginlegar varnir NATO-ríkjanna og aukna viðveru bandarísks herafla í Evrópu, eins nálægt landamærum Rússlands og unnt er, kallar á aukinn viðbúnað bandamanna Íslendinga á Norður-Atlantshafi og afnot af landi hér til að tryggja öryggi á hinni mikilvægu samgönguæð yfir hafið milli Evrópu og Norður-Ameríku.

4. Ákvörðun Hvals hf. um að hætta stórhvalaveiðum auðveldar öll samskipti við bandarísk stjórnvöld. Frá 1. apríl 2014 hafa þessi forsetafyrirmæli t.d. gilt innan bandaríska stjórnkerfisins: „Ráðherrar og aðrir háttsettir embættismenn meti hvort heimsóknir háttsettra aðila til Íslands séu við hæfi í ljósi þess að veiðar á langreyði eru hafnar á nýjan leik og áframhaldandi verslun með afurðir þeirra veiða.“

5. Nauðsyn þess að friðarsamkomulag vegna Úkraínu sé virt svo að létta megi af viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi. Kremlverjar nota þær sem átyllu til að setja viðskiptabann á íslenskan fisk og önnur matvæli.

Séu utanríkismálin ekki sífellt lifandi þáttur í opinberum umræðum er hætta á að ótti skapist vegna tortryggni og vanþekkingar. Á engu sviði er auðveldara að stunda hræðsluáróður en þegar samskipti við aðrar þjóðir eru á döfinni. Öflugasta vörnin gegn þeim áróðri er opin umræða um þá hagsmuni sem í húfi eru og hvernig best sé að tryggja þá.

Höfundur er fv. ráðherra.

Höf.: Björn Bjarnason