ÍMARK-dagurinn Sannkölluð uppskeruhátíð auglýsinga- og markaðsfólks, en vegna örra breytinga á samfélagsmiðlaum þarf að fara yfir verðlaunaflokka Lúðursins ár hvert..
ÍMARK-dagurinn Sannkölluð uppskeruhátíð auglýsinga- og markaðsfólks, en vegna örra breytinga á samfélagsmiðlaum þarf að fara yfir verðlaunaflokka Lúðursins ár hvert..
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lúðurinn, íslensku auglýsingaverðlaunin, endurspegla vel hve fjölbreyttum aðferðum er beitt við að ná augum og eyrum neytenda, en markaðsfræðin sjálf hafa þó e.t.v. ekki breyst svo mikið, segir Friðrik Larsen, formaður ÍMARK, samtaka markaðsfólks á Íslandi.

Langanir okkar og viðbrögð við áreiti hafa ekkert breyst frá því fyrsta eiginlega neyslukynslóðin lítur dagsins ljós, hinir svo kölluðu „baby boomers“ sem fæðast á árunum 1946-64. Birtingarmáti auglýsinganna sem framkalla þetta áreiti hefur hins vegar tekið umtalsverðum breytingum frá þeim tíma,“ segir Friðrik.

Hann nefnir sem dæmi að árið 1986, þegar ÍMARK samtökin voru stofnuð, þá hafi verið tiltölulega auðvelt fyrir auglýsendur að ná athygli alls fjöldans. „Fyrirtæki sem vildi ná athygli landsmanna keypti síðu þrjú í Morgunblaðinu, fékk birta leikna auglýsingu á undan sjónvarpsfréttum RÚV og fékk svo birtar einhverjar útvarpsauglýsingar til viðbótar. Með þessu móti gat fyrirtækið verið nokkuð öruggt um að hafa náð til vel flestra.

Í dag er hins vegar kominn á legg hópur ungs fólks sem aldrei flettir dagblöðum eða horfir á línulega sjónvarpsdagskrá. Það þarf því klárlega að beita öðrum aðferðum en áður við að ná til þessa hóps – til að mynda í gegnum samfélagsmiðla,“ segir Friðrik og kveður íslenskar auglýsingastofur almennt vera vel meðvitaðar um þessa þróun.

Árleg endurskoðun á verðlaunaflokkum

ÍMARK samtökin fagna 30 ára afmæli sínu um þessar mundir og hafa verðlaunaflokkar Lúðursins tekið þónokkrum breytingum frá því hann var fyrst veittur. Friðrik segir raunar að örar breytingar á birtingarmáta auglýsinga, til að mynda með tilkomu samfélagsmiðla og þeim markaðstækifærum sem í þeim geta falist, valda því að hjá ÍMARK verði menn að fara yfir verðlaunaflokkana á hverju ári með það í huga hvort gera þurfi einhverjar breytingar.

„SnapChat til dæmis, liggja einhver markaðstækifæri þar?“ spyr Friðrik og svarar svo sjálfur að þar sé dómur til að mynda ennþá útistandandi.

Engar breytingar voru gerðar á verðlaunaflokkum Lúðursins í ár, að öðru leyti en því að sérstakur verðlaunagripur hefur nú verið hannaður fyrir ÁRU verðlaunin, sem veitt eru fyrir bestan árangur af auglýsinga- og markaðsherferð. Ellefu lúðrar verða því veittir að þessu sinni í stað tólf í fyrra.

Standa sig vel á alþjóðavettvangi

Friðrik segir margar áhugaverðar auglýsingar vera meðal þeirra sem hlotið hafa tilnefningu til Lúðursins í ár og það verði því spennandi að fylgjast með hverjir muni hljóta verðlaunin að þessu sinni. Hann segir íslenskar auglýsingastofur líka almennt standa sig vel í alþjóðlegum samanburði. „Það er margt gott að gerast hér heima og starfið lýsir metnaði, sem meðal annars kemur fram í því að íslenskar auglýsingastofur hafa hlotið fjölda alþjóðlegra tilnefninga og verðlauna.“ Sé enn fremur haft í huga að íslensku stofurnar, jafnvel þær stærstu, teljist óneitanlega smáar í alþjóðlegum samanburði – þar sem ein stofa geti verið með jafnvel þúsund manna starfslið – þá sé þessi árangur einkar ánægjulegur.

Þurfa að nýta bæði gömlu og nýju miðlana

Er hann er spurður hvort auglýsingar samfélagsmiðla séu ekki búnar gera gömlu miðlana óþarfa, segir Friðrik svo ekki vera. „Í dag verða auglýsendur að nýta sér bæði gömlu og nýju miðlana. Lítil fyrirtæki geta þó vissulega náð ágætis árangri með því að nota samfélagsmiðlana eingöngu.“ Sem dæmi tekur Friðrik að fyrirtæki sem framleiði kattamat, geti náð til nokkuð stórs hóps kattaeigenda með því að auglýsa bara inni á facebook-hópum sem kattaeigendur skoða. „Enda hefur það sýnt sig að kattaeigendur eru einkar duglegir að taka þátt í umræðum um dýrin á netinu. En með þessu móti þá nær fyrirtækið þó bara til hluta kattaeigenda og fyrirtækið er þar með búið að takmarka þann vöxt sem það getur náð.“

Vilji fyrirtækið eiga verulega vaxtarmöguleika þá verði það að reyna að ná til allra með því að auglýsa bæði í gömlu miðlunum – dagblöðum og sjónvarpi – og svo á samfélagsmiðlunum. „Það eru einfaldlega ekki allir á Facebook og enn í dag þá henta til dæmis vissir sjónvarpsþættir vel til að ná til stórs hóps af fólki í einu.“

Neytendur gagrýnni en áður

Friðrik starfar sem lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, auk þess að reka fyrirtækið LarsEn Energy Branding, en hann er doktor í markaðsetningu rafmagns og mun standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um orkumál hér á landi í haust. Blaðamanni finnst því vel við hæfi að fá fræðimanninn Friðrik til að setja á sig véfréttar-gleraugu og spá í framtíð auglýsingaiðnaðarins.

„Ég held að það eina sem menn geti verið öruggir um hvað framtíðina varðar sé að hún er óskrifað blað,“ segir Friðrik. „Við getum þó vissulega velt fyrir okkur neytendunum sjálfum og þeirra kröfum. Hvað þetta varðar þá erum þegar farin að sjá vissar breytingar, sem ég tel að eigi bara eftir að aukast. Unga fólkið í dag er þannig til að mynda farið að gera kröfur á fyrirtæki sem hinum svo kölluðu „baby boomers“ hefði aldrei dottið í hug að gera.“ Friðrik segir þetta ekki þurfa að koma á óvart – fyrsta neyslukynslóðin hafi verið að upplifa hluti í fyrsta skipti, sem síðan hafi orðið hversdagslegir fyrir þá sem á eftir komu.

Aukin gagnrýni neytenda í garð fyrirtækja sé hluti af þessari þróun. „Í dag gerir unga fólkið þá kröfu til fyrirtækja að þau séu umhverfisvæn og að það sé raunverulega eitthvað á bak við fullyrðingar fyrirtækja um að þau láti sig umhverfismálin einhverju varða. Svo kallaður grænþvottur – það er að vera með eitthvert hálfkák í þessum efnum – er nokkuð sem unga fólkið sættir sig alls ekki við. Þetta er nokkuð sem ég tel að eigi bara eftir að aukast og er eitthvað sem íslensk fyrirtæki gerðu vel að hafa í huga við sína framtíðar-stefnumótun.“ annaei@mbl.is