— Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er sjálfsagt, og léttir mjög veisluhaldið, að þiggja alla þá aðstoð sem ættingjar og vinir bjóða. Eva kökubloggari lumar á góðum ráðum.

Eva Rún Michelsen veit að það fylgir því að halda úti matarbloggi að þurfa að svara kalli ættingja og vina þegar halda þarf stóra veislu. Þó að Eva hafi ekki sjálf látið ferma barn veit hún ýmislegt um umstangið sem fylgir þessum tímamótum, fyrir utan að vera manna fróðust um kökubakstur.

Vefsíða Evu heitir Kökudagbókin (www.kokudagbokin.is) en þegar hún er ekki að galdra fram ómótstæðilegar kökur af öllum stærðum og gerðum þá heldur Eva um stjórnvölinn í Húsi sjávarklasans úti á Granda þar sem hún er framkvæmdastjóri.

Listinn gerður snemma

Að sögn Evu þarf fermingarveisla alls ekki að vera svo flókin né dýr og oft eru einföldustu veislurnar í heimahúsum þær ánægjulegustu. Er þó ágætt að byrja undirbúninginn fyrr en síðar, ákveða að hverju er stefnt, gera verkefnalista og jafnvel fara út í að gera kostnaðaráætlun.

„Vill barnið borgaralega fermingu eða fermast í kirkju? Hafa fjölskyldumeðlimir ákveðnar hugmyndir um veitingarnar? Á að hafa einfalda ístertu eða risastóra veislutertu skreytta með sykurmassa? Verður fermingarveislan kökuboð um miðjan dag eða kvöldverðarboð síðdegis?“ spyr Eva.

Þegar fengist hefur skýrari mynd af fermingardeginum er hægt að byrja skipulagið og punkta hjá sér kostnaðarliði jafnóðum og þeir verða ljósir. Er hægt að hringja og fá uppgefið verð á hinu og þessu og taka ákvarðanir í samræmi við það sem lagt var upp með. Kannski er hægt að spara peninga með því að elda og baka sjálfur, velja annan veislusal eða vera heima. „Verður líka að huga snemma að því hvaða dag á að halda veisluna, enda eftirsóttustu salirnir fljótir að bókast upp og plássin líka fljót að fyllast þá daga sem fermt er hjá stærstu sóknunum.“

Aðrir hafa líka plön

Eva segir líka ágætt að velja fermingardag í samráði við nánustu ættingja og með það löngum fyrirvara að fólk geti breytt hjá sér plönum. „Sumir höfðu kannski hugsað sér að fara í skíðaferðalag um páskana og þætti leiðinlegt ef það hittist þannig á að fermingin verður á sama tíma. Þegar búið er að hringja í nokkra og hlera hvernig stendur á hjá fólki má velja dagsetningu. Algengt er að fermingardagur sé festur með um 6 mánaða fyrirvara en nóg er að senda boðskortin um mánuði fyrir daginn, ef við á,“ segir Eva. „Boðskortin eru ekki nauðsynleg, sérstaklega ef ætlunin er bara að bjóða nánustu ættingjum. Þá þarf ekki endilega að kosta svo miklu til við gerð póstkortanna. Í minni fjölskyldu höfum við mikið reitt okkur á Myndsmiðjuna á Egilsstöðum en hægt er að hanna kortið á vefsíðunni þeirra og allt tilbúið yfir netið með nokkrum smellum.“

Það er aldrei fyrirhafnarlaust að halda boð fyrir nokkra tugi ættingja og fjölskylduvina og hvað þá ef gestafjöldinn er kominn upp í þriggja stafa tölu. Eva mælir eindregið með því að foreldrar fermingarbarnsins þiggi alla þá aðstoð sem þeim stendur til boða. „Fólk sem býðst að fyrra bragði til að leggja hönd á plóg er yfirleitt tilbúið að standa við það og upplagt að virkja ömmurnar, afana, frænkurnar og frændurna við matseldina, undirbúning og tiltekt.“

Útsjónarsemi við skreytingar

Allur gangur er á því hvort fólki þykir ástæða til að eyða miklu púðri í skreytingar fyrir fermingarveisluna. Minnist Eva eigin fermingarveislu þar sem var látið duga að kaupa skreytt kerti og servíettur í stíl, áletraðar með nafni og dagsetningu, en það þekkist líka að farið sé alla leið með gegnumgangandi þema allt frá póstkorti til fermingartertu. „Í heimahúsum þarf oft minna að skreyta og hugsa ég að það sé frekar í veislusölunum sem fólk vilji skreyta mikið og gera rýmið meira að sínu.“

Með útsjónarsemi og smá vinnu má gera skreytingarnar ódýrari. Leggur Eva þannig til að nýta gamla efnisafganga til að gera dúka og safna krukkum frá ættingjum, og raða í þær litlum afskornum blómum. Talandi um sparnað, þá minnir Eva á sérhæfðu verslanirnar sem selja matvæli í stórum pakkningum. „Ég mæli t.d. með versluninni Stórkaup í Skeifunni sem er í eigu Hagkaupa. Margir halda að það þurfi fyrirtækjakennitölu til að versla í þessum búðum, en það er ekki alltaf raunin. Ef stór og mikil veisla er framundan getur margborgað sig að kaupa hráefnið í magnumbúðum.“

Oft er í mörg horn að líta á fermingardaginn og segir Eva ómetanlegt að hafa einhvern til taks sem getur reddað því sem aflaga fer og sem gætir þess að allt gangi smurt fyrir sig. „Það er auðvelt að gleyma sér í öllum hamaganginum og sjálfri hættir mér til að festast inni í eldhúsi þegar mikið liggur við. Fermingarbarn og foreldrar verða að fá tækifæri til að njóta dagsins og eiga skemmtilega stund með gestunum.“

ai@mbl.is

Saltaðar lakkrískaramellur

Ca. 80 stk. í munnbitastærðum

30 mínútur í vinnslu,

geyma yfir nótt

Sykurhitamælir eða annar

sambærilegur, analog eða digital

125 g ósaltað smjör

225 g sykur

200 g niðursoðin mjólk (e. sweetened condenced milk)*

175 ml síróp

ca. ½ tsk af grófu salti, t.d. flögusalt frá Norðursalti

10 g hrátt lakkrísduft (e. raw liquorice powder), t.d Johan Bülow sem fæst í Epal

1/4 tsk. svartur matarlitur

* Sæt niðursoðin mjólk fæst í flestum asískum matvöruverslunum eins og víetnamska markaðnum á Suðurlandsbraut og þeim sem er í Faxafeni.

Aðferð:

Smyrjið mót sem er 20×20 að stærð, setjið smjörpappír í formið og leggið til hliðar.

Setjið smjör, sykur, niðursoðna mjólk og síróp í pott, hitið á lægsta hita þangað til sykurinn blandast vel saman við og smjörið er bráðið.

Hækkið hitann þangað til karamellan sýður lítillega, setjið hitamælinn við og hrærið stöðugt í karamellunni þangað til þið náið 118°C hita. Það er mjög mikilvægt með þessa uppskrift að hræra stöðugt allan tímann því hún á auðvelt með að brenna ef ekki er fylgst með og hitinn of hár.

Þegar réttum hita er náð er saltinu, lakkrísduftinu og matarlitnum blandað saman við þangað til öll karamellan er orðin svört að lit. Hún gæti virkað grá, eftir því hvernig lit þið notið en verður svört þegar hún hefur kólnað.

Hellið í formið, stráið vel af salti yfir og leyfið að standa á borði í eina klukkustund áður en þið setjið í kæli yfir nótt.

Daginn eftir er óhætt að skera karamelluna í ferninga.

Best er að geyma hana í loftþéttum umbúðum.

Karamelluna má einnig frysta.

Jarðarberjadöðluterta

fyrir ca. 12-16 manns

Fékk þessa hjá fyrrverandi samstarfskonu minni, Kristínu Höllu – slær alltaf í gegn!

Döðlubotn

150 g hveiti

3 stk. egg, við stofuhita

200 g púðursykur

100 g döðlur, smátt saxaðar

80 g suðusúkkulaði, smátt saxað

1 tsk. lyftiduft

Aðferð:

Þeytið vel saman egg og púðursykur svo verði ljós froða.

Sigtið þurrefnin út í og blandið saman með sleif.

Blandið að lokum döðlum og súkkulaði saman við allt saman með sleif.

Bakið við 200°C í 10 mínútur án blásturs (minni hiti ef með blæstri).

Svampbotn:

2 stk. egg, við stofuhita

100 g sykur

½ dl hveiti

½ dl kartöflumjöl

1 tsk. lyftiduft

Aðferð:

Þeytið saman egg og sykur þannig að úr verði létt og ljós froða.

Sigtið þurrefnin út í og blandið saman með sleif.

Bakið við 200°C í 5-10 mín. eða þangað gullinbrún og pinni kemur hreinn út.

Fylling og krem utan á köku:

4 dl rjómi

½-1 dós niðursoðin jarðarber

2-4 tsk. vanillusykur

50 g smátt saxað súkkulaði

Aðferð:

Takið jarðarberin úr dósinni í sigti með skál undir og geymið sírópið til að bleyta í botnunum.

Stífþeytið rjómann með vanillusykrinum.

Blandið jarðarberjunum saman við rjómann og þeytið stutt.

Bætið að lokum brytjuðu súkkulaði saman við.

Samsetning:

Bleytið vel í döðlubotninum (neðri botninum) með sírópinu af jarðarberjunum úr dósinni.

Setjið um helminginn af kreminu ofan á, setjið svo svambotninn ofan á og bleytið einnig í honum.

Smyrjið kökuna með afgangnum af jarðarberjarjómanum.

Skreytið með ferskum jarðarberjum og smátt söxuðu súkkulaði.

Tillit tekið til sérþarfa

Bestu gestgjafarnir reyna að skapa þannig umgjörð utan um fermingarboðið að allir geti fundið þar eitthvað við sitt hæfi og að gestahópurinn blandist vel. Úthugsuð sætaskipan getur t.d. orðið til þess að blanda gestahópnum saman og styrkja tengslin á milli ólíkra greina ættartrésins. Þá er líka upplagt að hafa sérstakt leikjaherbergi fyrir yngstu gestina ef von er á mörgum börnum. „Ef margir gestanna eru í eldri kantinum ætti að taka tillit til þess, s.s. með því að hafa örugglega nóg af kaffi, sykurmola frekar en strásykur, og flatkökur frekar en sushi,“ segir Eva.

Þá þykir það sjálfsagt í dag að taka tillit til sérþarfa gesta sem þjást af matarofnæmi og -óþoli. „Ef sumir gestanna eru með ofnæmi t.d. fyrir hnetum eða skelfiski, eða þola illa mjólkurvörur, ættu að vera valkostir í boði sem henta þeim. Gildir það sama með grænmetisæturnar og raunar alls ekki svo galið að hafa mikið af skornum ávöxtum og grænmeti fyrir börnin.“

Að mati Evu er líka betra að hafa of mikið en of lítið af veitingum. Er það synd ef gestir fara að verða feimnir við að fá sér ábót á diskinn þegar líður á veisluna því þeir vilja ekki verða til þess að allt klárist. „En um leið er rétt að muna að ef mikið er af alls konar veitingum þá þarf ekki endilega risastóra fermingartertu. Ef t.d. von er á 80 gestum og einhverjir 6-10 réttir og kökur í boði, þá ætti að geta dugað að panta 40-50 manna fermingartertu. Ekki fá allir sér sneið af fermingartertunni og þá hægt að skera minni sneiðar ef allir vilja smakka og nóg af öðru í boði til að metta gestina.“

Bananamuffins með súkkulaðikremi

Uppskriftin gefur 12 stk.

120 g hveiti (hægt að nota spelt eða heilhveiti í staðinn)

140 g sykur

1 msk. lyftiduft

1 tsk. kanill

1 tsk. engifer

hnífsoddur salt

80 g ósaltað smjör við stofuhita

120 ml mjólk

2 egg

1 þroskaður banani*

*Ég held að það sé hægt að leika sér heilmikið með þessa uppskrift, t.d. skipta út bönunum fyrir epli. Bæta við smá súkkulaðibitum, rolo, karamellukurli eða öðru gómsætu sem ykkur dettur hug.

Aðferð:

Hitið ofninn í 170°C.

Blandið saman þurrefnunum ásamt smjöri í hrærivél og hrærið saman á litlum hraða þangað til blandan er lík sandi.

Hellið mjólkinni varlega í blönduna og hrærið þangað til allt er vel blandað saman.

Bætið eggjunum út í og munið að skafa meðfram hliðum gerist þess þörf.

Setjið stappaðan bananann út í síðast og blandið saman við með sleif.

Setjið í muffinsmót með ísskeið (skammtara) eða sprautupoka og bakið í 20 mínútur eða þangað til kökurnar eru gullnar að lit og halda lögun þegar snertar léttilega.

Leyfið kökunum að kólna áður en kremið er sett á.

Súkkulaðikrem og skreyting

300 g flórsykur

100 g ósaltað smjör við stofuhita

40 g kakó, t.d. Cadbury's

3 msk. mjólk

40 g rifið súkkulaði (til að skreyta ofan á – má sleppa)

Aðferð:

Hrærið saman smjör, flórsykur og kakó á meðalhraða og blandið vel saman.

Hægið á snúningnum og bætið við mjólkinni, smávegis í einu.

Hrærið allt saman á miklum hraða í allt að 5 mínútur. Eftir því sem þið hrærið lengur því léttara og ljósara verður kremið (extra creamy ef svo má segja).

Kanilsnúðarnir

hennar Karitasar

1 poki ger

150 g smjörlíki

5 dl mjólk

½ tsk. salt

1 ½ dl sykur

1 ½ tsk. kardimommudropar

1 egg

u.þ.b. 1 ½ l hveiti

Aðferð:

Blandið þurrefnunum saman.

Bræðið smjörlíki og mjólk upp að ca 37°C.

Blandið vökvanum við þurrefnin og hnoðið vel, a.m.k. 5-7 mínútur.

Leyfið deiginu að hefast í a.m.k. 30-40 mínútur við stofuhita.

Penslið léttilega með bræddu smjörlíki, stráið vel af kanilsykri yfir.

Rúllið upp og skerið niður sneiðar.

Raðið á plötu með smjörpappír.

Bakið í 10-15 mínútur við 250°C, án blásturs.

Snúðana má gera fyrirfram og geyma í frysti. Takið út um morguninn sem á að bera þá fram og leyfið að þiðna.

Hvít hindberjaterta

12 manna terta

5 dl hveiti

1 tsk. salt

2,5 dl sykur – skipt til helminga

250 ml rjómi

2 msk. nýmjólk

2 tsk. lyftiduft

4 stórar eggjahvítur (við stofuhita)

1 tsk. vanilludropar

1/4 tsk. möndludropar (má sleppa og setja meiri vanillu eða annað bragð)

250 g hindber*

1 dl (rúmlega) af hindberjasultu

½ marengs-krem

50 g ristaðar kókosflögur

*Ég notaði frosin hindber og lét þau standa í soðnu vatni í 1-3 mínútur.

Aðferð:

Hitið ofninn í 160 gráður. Setjið smjörpappír í botninn á 2 (eða 3) 20 cm formum og spreyið hliðarnar með olíu. **

Blandið saman hveiti, salti og helmingnum af sykrinum og leggið til hliðar.

Takið aðra skál og blandið saman rjóma, mjólk, lyftidufti, bragðefnum og restinni af sykrinum.

Þeytið eggjahvíturnar sér þangað til þær verða stífar.

Blandið rjómablöndunni*** saman við hveitið og bætið svo við þeyttu eggjahvítunum.

Blandið að lokum hindberjunum við deigið, ekki hræra of mikið en nóg til að blandist.

Bakist í u.þ.b. 25 mínútur eða þangað til kakan er gullinbrún (sést vel á jaðrinum) og/eða kemur til baka þegar léttilega er snert með fingrinum.

Leyfið botnunum að kólna alveg áður en hún er sett saman.

Setjið hindberjasultu á milli botnanna og skreytið svo með marengs-kremi og kókosflögum.

** Þar sem ég á bara eitt form í hverri stærð baka ég helminginn af deiginu fyrst og læt hitt standa á meðan. Það gengur alveg með þessa tertu.

*** Ég þeytti rjómablönduna léttilega áður en ég blandaði saman við þurrefnin, þessu má líklegast sleppa.

Marengs-krem

125 g sykur

¾ tsk glúkósi (fæst hjá Allt í köku og í Hagkaup) má líka nota heimagert sykursíróp

1,5 msk. vatn

3 stórar eggjahvítur, við stofuhita

Aðferð:

Setjið 110 g af sykrinum, glúkósa og vatn í pott og blandið saman. Fáið upp suðu og hitið upp að 110°C/230°F (best að vera með sykurhitamæli).

Stífþeytið eggjahvíturnar í hrærivél og bætið við restina af sykrinum á meðan verið er að sjóða sykurinn.

Þegar sírópið hefur náð réttu hitastigi, takið það strax af hitanum og hellið í mjórri bunu við eggjahvíturnar meðan hrærivélin er í gangi (passið að fari ekki á þeytarann svo þið fáið ekki sykurslettur á ykkur).

Hrærið í vélinni í 7 mínútur og þá er kremið klárt.

Heimagerð hindberjasulta

(gerir um 3 krukkur)

800 g hindber, kramin*

800 g sykur (má minnka)

*Ég notaði frosin hindber og kramdi þau með kartöflustöppu áður en ég sauð þau.

Aðferð:

Takið til stóran og rúmgóðan pott.

Hitið krömdu berin þangað til þau byrja að sjóða.

Sjóðið berin í 2 mínútur.

Bætið sykrinum við og blandið vel saman.

Fáið upp suðu og sjóðið í aðrar 2 mínútur (2-4 eftir því hversu þétt sultan á að vera).

Takið af hitanum.

Hrærið með þeytara í 4 mínútur (ég setti í Kitchenaid-vélina og lét hana um verkið). Hellið í hreinar krukkur og lokið.

Myndin tekin eftir prufugreiðsluna

Fyrirhöfnin getur verið meiri af því að láta ferma stelpu en strák. Segir Eva að leitin að rétta fermingarkjólnum geti t.d. verið vandasamari en leitin að fínum jakkafötum á strákinn, og hvað þá ef til stendur að fá lánaðan upphlut í réttri stærð. Ekki nóg með það heldur dugar að senda strákana í klippingu nokkrum dögum fyrir stóra daginn á meðan stúlkurnar fara margar hverjar í prufugreiðslu og heimsækja svo hárgreiðslustofuna aftur að morgni fermingardagsins. „Það má draga ögn úr umstanginu með því að fara í fermingarmyndatökuna strax eftir prufugreiðsluna, frekar en að ætla sé að þjóta til ljósmyndarans á sjálfan fermingardaginn. Þetta hefur líka þann kost í för með sér að hafa má myndirnar tilbúnar og til sýnis í fermingarveislunni.“
Heimagerðir sykurpúðar

455 g sykur

340 ml vatn

1 msk. glúkósi (liquid glucose) – fæst í Hagkaup

9 stk. matarlímsblöð (gelatín)

2 stk. eggjahvítur af stórum eggjum (ca. 3/4 dl)

1 tsk. vanilludropar

flórsykur*

maísmjöl eða kartöflumjöl*

*Þessu er blandað saman, engin ákveðin hlutföll en ég setti ca. 3/4 flórsykur og 1/4 kartöflumjöl.

Aðferð:

Setjið sykur, glúkósa og 200 ml af vatni í pott. Hitið að suðu og haldið áfram að hita þangað til blandan nær 127°C (260°F).

Á meðan blandan sýður, bleytið matarlímsblöðin í 140 ml af vatni og stífþeytið eggjahvíturnar.

Þegar blandan er tilbúin, takið pottinn af hellunni. Hellið matarlíminu varlega í pottinn og færið svo yfir í hitaþolið ílát til að stoppa suðuna.

Hellið svo blöndunni varlega í hrærivélina með stífþeyttu eggjahvítunum og setjið svo vanilludropana í. Blandan mun svo þykkna hægt og rólega. Þeytið í um 5-10 mínútur eða þangað til blandan heldur lögun sinni á þeytaranum.

Spreyið/smyrjið fatið vel og setjið flórsykursblönduna á meðan blandan þeytist. Hellið svo blöndunni í fatið og leyfið henni að standa í a.m.k. klukkutíma áður en þið skerið hana og berið fram. Munið að hafa nóg af flórsykursblöndunni til að velta bitunum upp úr.