Öflugur Einar Rafn Eiðsson skoraði 9 mörk fyrir FH í gær og hér reynir Sturla Magnússon að stöðva hann. FH-ingar höfðu betur gegn bikarmeisturunum,
Öflugur Einar Rafn Eiðsson skoraði 9 mörk fyrir FH í gær og hér reynir Sturla Magnússon að stöðva hann. FH-ingar höfðu betur gegn bikarmeisturunum, — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Handbolti Guðmundur Hilmarsson Baldur Haraldsson Einar Sigtryggsson Ívar Benediktsson FH-ingar kipptu nýkrýndum bikarmeisturum Vals hressilega niður á jörðina þegar liðin áttust við í Valshöllinni í gær.

Handbolti

Guðmundur Hilmarsson

Baldur Haraldsson

Einar Sigtryggsson

Ívar Benediktsson

FH-ingar kipptu nýkrýndum bikarmeisturum Vals hressilega niður á jörðina þegar liðin áttust við í Valshöllinni í gær. Baráttuglaðir FH-ingar fögnuðu þar sanngjörnum sigri, 28:23, og styrktu þar með stöðu sína í neðri helmingi deildarinnar. FH-ingar náðu strax undirtökunum í leiknum og með góðri vörn þar sem Andri Berg Haraldsson og Ágúst Birgisson fóru mikinn og frábærri markvörslu Ágústar Elí Björgvinssonar voru FH-ingar skrefinu á undan bikarmeisturunum nær allan tímann. Þeir náðu fimm marka forskoti eftir 12 mínútna leik í seinni hálfleik og þennan mun náðu Valsmenn ekki að brúa.

Ágúst Elí hefur sýnt frábæra takta á milli stanganna eftir áramótin og engin breyting var á því í gær. Einar Rafn Eiðsson og Ásbjörn Friðriksson voru mjög öflugir í sókninni og ekki má gleyma hinum 16 ára gamla Gísla Þorgeiri Kristjánssyni sem átti flottan leik en karl faðir hans er Kristján Arason, einn besti handboltamaður landsins frá upphafi. Mikið efni þar á ferðinni. Valsmenn voru mjög daufir og hreinlega ryðgaðir og greinilegt að bikarfögnuðurinn sat enn í þeim. Geir Guðmundsson var sá eini sem sýndi einhvern lit hjá þeim rauðklæddu.

ÍBV í fjórða sætið

Eyjamenn unnu mikilvægan fjögurra marka sigur á Fram 31:27 eftir hræðilegan seinni hálfleik Framara.

ÍBV fór þar með upp fyrir Fram og í fjórða sæti deildarinnar.

Fyrri hálfleikur var í járnum og skiptust liðin á að hafa forystu. Mikið um tæknifeila og léleg skot en ÍBV leiddi í hálfleik 14:13.

Svo var komið að seinni hálfleiknum en þar mætti aðeins eitt lið til leiks. Eyjamenn skoruðu 6 mörk gegn einu marki Framara fyrstu 8 mínútur seinni hálfleiks og aldrei spurning um hvort liðið tæki stigin tvö.

Menn leiksins voru markmenn Fram sem vörðu samanlagt 23 skot. Kristófer Fannar Guðmundsson varði 18 skot en Valtýr Már Hákonarson 5 skot og varði Valtýr 63% þeirra skota sem hann fékk á sig.

Ekkert mál hjá Haukum

Haukar áttu ekki í miklum vandræðum með Akureyringa fyrir norðan og unnu ellefu marka sigur, 28:17. Vörn Haukanna var frábær lengstum og fyrir aftan hana vörðu markverðir liðsins til samans 27 skot, þar af tvö víti.

Haukarnir sýndu allar sínar bestu hliðar og spiluðu vel úr sínu. Í vörn þeirra eru hávaxnir og klókir þristar sem hreinlega jörðuðu skyttur Akureyringa frá fyrstu mínútu. Það var aðeins línumaðurinn Halldór Logi Árnason sem eitthvað hafði í þá að segja. Hann skoraði fimm mörk og fiskaði nokkur víti.

Í sókninni vissu menn upp á hár hvert þeirra hlutverk var og spiluðu menn árangursrík kerfi sem skiluðu dauðafærum. Hraðaupphlaup Haukanna misfórust mörg í fyrri hálfleiknum en þegar þau fóru að skila mörkum þá varð ekki aftur snúið.

Loksins heilsteyptur leikur

ÍR-ingar hafa ekki gefið upp alla von um að halda sæti sínu í deildinni. Þeir undirstrikuðu það með heilsteyptum leik gegn Gróttu á Seltjarnarnesi í gærkvöldi. Frábær varnarleikur strax í byrjun og mikil baráttugleði leikmanna ÍR-liðsins sló Gróttumenn út af laginu strax í byrjun. Lokatölur, 30:22, fyrir ÍR eftir að liðið var með sjö marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 14:7.

„Loksins náðum við heilum leik og það færði okkur tvö stig,“ sagði Bjarni Fritzson, annar þjálfari ÍR-liðsins. „Við höfum verið góðir eftir áramótin en því miður ekki náð heilum góðum leik heldur köflum hér og þar.“

Gróttumenn virtust ekki hafa jafnað sig eftir bikarleikina tvo í lok síðustu viku. Einföld mistök voru alltof mörg auk þess sem leikmenn voru ekki tilbúnir í þann harða slag sem leikmenn ÍR buðu upp á. „Þótt leikirnir um síðustu helgi sitji í okkur þá eigum við að gera betur en þetta,“ sagði Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Gróttu.

*Víkingar kvöddu deildina endanlega en þeir töpuðu 26:28 fyrir Aftureldingu í Víkinni. Árni Bragi Eyjólfsson fór á kostum og skoraði 15 mörk fyrir Aftureldingu.