Hefðir Didda segir upplagt að gefa foreldrum fermingarbarnsisn blómvönd í tilefni dagsins.
Hefðir Didda segir upplagt að gefa foreldrum fermingarbarnsisn blómvönd í tilefni dagsins. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef vel er hugsað um túlípanana geta þeir enst í allt að tvær vikur eftir fermingarveisluna.

Við ráðleggjum fólki að skeyta veisluborðið með háum blómvöndum svo að framsetningin verði ekki „flöt“ eins og kökurnar sem þar hefur verið stillt upp,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, eða Didda eins og hún er oftast kölluð. Didda er eigandi blómabúðarinnar 18 Rauðar rósir í Hamraborg.

Hún segir ýmsa liti verða fyrir valinu þegar skreyta á fermingarveisluna með blómum. Hvíti liturinn er vinsæll, líka bleikur og blár, lime-grænn og fjólublár. „Síðan er gaman að velja servíuettur og kerti í stíl.“

Greinar af kirsuberjatré

Diddu þykir fara vel á því á fermingardaginn að velja blómaskreytingar sem hafa á sér náttúrulegt yfirbragð, t.d. með því að setja grein af kirsuberjatré í vöndinn. „Kirsuberjatrén skarta sínu fegursta á þessum árstíma með pínulitlum, hvítum eða bleikum blómum. Túlípanar hafa verið mjög vinsælir um þetta leyti, sem og páskaliljur og gerberur. Þá eru nellikur að koma aftur inn, mjög fallegt blóm til að nota í skreytingar, fáanlegt í mörgum litum.“

Algengt er að fara þá leið að kaupa einn eða tvo blómvendi í veglegri kantinum og stilla upp á matar- eða kökuhlaðborðinu og setja síðan minni blóm á hvert gestaborð. „Sumir láta okkur gera litlar skreytingar sem má setja á borðin, eða láta útbúa skreytingu í kringum fermingarkerti sem sett er á stað þar sem það fær að njóta sín.“

Blóm gera fermingardaginn tvímælalaust hátíðlegri og lífga upp á heimilið eða veislusalinn. Didda segir ekki endilega þurfa að skreyta í hólf og gólf til að ná fram þessum áhrifum og einfaldir og stílhreinir blómvendir geri heilmikið. „Auk þess að skreyta innandyra eru margir sem velja að hafa blóm í pottum fyrir utan heimilið til að bjóða gesti velkomna“

Ef rétt er hugsað um blómin geta þau haldist falleg lengi eftir fermingardaginn. Muna þarf að hreinsa blómavasana með klórblöndu og setja rósirnar í volgt vatn en túlípanana í kalt. Rósir þurfa mikið vatn en túlípanar lítið. „Til að blómin endist enn betur má geyma þau á köldum stað á nóttinni. Má jafnvel setja túlípanana inn í ísskáp á meðan allir sofa. Getur túlípanavöndurinn þá enst í allt að tvær vikur.“

Rós fest við umslagið

Þá er upplagt að gefa blóm á fermingardaginn. Segir Didda að vel fari á því að gefa foreldrunum blómvönd í tilefni dagsins og ef á að gefa fermingarbarninu pening má skreyta umslagið með fallegri slaufu og einni rós. „Þetta gerir gjöfina glæsilegri og kemur líka í veg fyrir að umslagið týnist fyrir misgáning. Margir eru hræddir við að fyrirferðarlítil umslögin fari á flakk, en ef þau eru fest við stóra rós týnast þau ekki svo glatt.“

Á fermingardaginn er iðulega mikið lagt í hárgreiðslur stúlknanna og getur komið mjög vel út að festa blóm í hárið. Brúðarslörið er blómategund sem oft verður fyrir valinu. „Krúsi, chrysanthemum, er líka hentugt í hárið, enda lítil blóm og sumarleg. Við höfum einnig brugðið á það ráð að taka rósarblöð sem við föndrum með og búum til úr þeim lítil blóm sem auðvelt er að festa í hárið.“

ai@mbl.is