Bókin Geymir góðar minningar.
Bókin Geymir góðar minningar.
Það er jafnan margs að minnast frá fermingardeginum og gaman að varðveita allar minningarnar. Þá er gestabók vitaskuld ómissandi til að rifja upp seinna meir hverjir samglöddust og tóku þátt í stóra deginum.

Gestabókin hentar fyrir alla stóru dagana á lífsleiðinni, hvort heldur er skírnarveisla, ferming, afmæli eða brúðkaup. Bókin er 44 síður og stærðin er 21x21 sentimetri.

Bókin er handþrykkt á umhverfisvænan pappír. Í forsíðunni er 300 gramma kvistpappír og 130 gramma Munken-pappír í innsíðum. Bókin er íslensk hönnun og framleiðsla.

Í einum elsta verslunarkjarna borgarinnar

Verkstæði Farva og verslun eru í Álfheimum 4. Þar eru allar vörur handprentaðar með silkiþrykksaðferðinni. Farvi tekur að sér að silkiprenta fyrir fólk og fyrirtæki á alla mögulega og stundum ómögulega hluti, eins og segir á heimasíðunni.

Að baki Farva standa hjónin Tobba (grafískur hönnuður) og Sæþór (grafískur hreyfihönnuður, silkiprentari og myndlistarmaður). Saman reka þau „batteríið“ á neðri hæðinni og búa svo ásamt þremur börnum sínum á efri hæðinni. Farvi er til húsa í einum fyrsta verslunarkjarna Reykjavíkur, Álfheimakjarnanum við Álfheimana. Auglýstur afgreiðslutími er mánudagar, miðvikudagar og föstudagar frá kl. 14-17 og þriðjudagar og fimmtudagar frá kl. 12-17.

jonagnar@mbl.is