Ásgeir Lúðvíksson fæddist í Reykjavík 24. mars 1937. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 15. febrúar 2016.

Foreldrar hans voru Lúðvík Bjarnason, f. 24. júní 1897, d. 15. október 1956, og Ingibjörg Jónsdóttir, f. 5. febrúar 1900, d. 16. apríl 1985. Eftirlifandi systkini Ásgeirs eru Gunnar Lúðvíksson, f. 1933, eiginkona hans er Margrét Nueva, f. 1952, og Rósa Sigríður Lúðvíksdóttir, f. 1935.

Ásgeir var í sambúð með Berthu Þórarinsdóttur um langt árabil, þau slitu samvistum. Síðar var Ásgeir í sambúð með Hrefnu Birgisdóttur um árabil, þau slitu samvistum.

Ásgeir fæddist og ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur og gekk þar í Melaskólann í Reykjavík og síðar í Verzlunarskóla Íslands. Hann vann við verslunarstörf ásamt foreldrum sínum og systkinum til að byrja með en síðar lá leið hans í útgerð. Ásgeir var einn stofnenda og hluthafa útgerðarfyrirtækisins Vísis sf. í Grindavík. Ásgeir var síðast til heimilis í Stóragerði 36, 108 Reykjavík.

Útför Ásgeirs fer fram frá Grensáskirkju í dag, 4. mars 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

„Ja, gú moren“ var óbrigðul símakveðja Ásgeirs Lúðvíkssonar, jafnt að morgni sem kveldi. Hress, ræðinn, gjöfull og líflegur. Slíka hringingu fékk ég kannski einu sinni í mánuði áður en heilsa hans brást. Hann sagði sögur af ferðum sínum og fólki sem varð á vegi hans og honum fannst eitthvað til koma. Honum fannst yfirleitt flestir nokkuð merkilegir. Var næmur á sérstöðu hvers og eins og náði að heilla viðmælendur sína með einstakri ljúfmennsku og lagni í mannlegum samskiptum.

Ég var sex ára þegar ég sá Ásgeir fyrst. Hann var vinur Jörgens móðurbróður míns, kom oft með honum að Seljalandi, sem var heimili bernsku minnar, býli í útjaðri Reykjavíkur í þá daga þar sem amma mín og afi bjuggu, býli sem kannski var ögn líkara dýragarði en hinum hefðbundnu. Þar ægði saman beljum, rollum, gæsum, hænum, hundum, köttum og kanínum að ógleymdu blæbrigðaríku mannlífi.

Það var alltaf veisla þegar Ásgeir bar að garði. Hann átti og rak í þá daga, ásamt Gunnari bróður sínum, kjötbúðina Bræðraborg við samnefndan stíg. Föðurarfleifð þeirra. Hann átti að jafnaði flotta bíla með stóru skotti sem ætíð var hlaðið alls kyns kræsingum þegar hann kom í heimsókn. Þær reiddi hann fram og ef ég man rétt eldaði sjálfur dýrindis máltíðir, sló upp eins konar „Babettes gæstebud“. Hann gleymdi heldur ekki smáfólkinu, hafði með sér nokkra Matchbox-bíla sem ég fékk að velja úr, valdi svo sjálfur annan og gaf mér. Það hefði verið hægt að svelta sig í nokkra daga fyrir einn slíkan, hvað þá tvo.

Síðar átti Ásgeir eftir að fara í útgerð með föður mínum og fleirum, þegar sá síðarnefndi var héraðslæknir á Flateyri. Útgerðin hét Fiskborg, fiskverkunin Ásborg og báturinn Hinrik Guðmundsson, 99 tonna sænskur eikarbátur með „drottningarrassgat“. Þetta vafstur átti vel við Ásgeir þótt hallað hafi heldur undan fæti, lauk reyndar með því að hún var lögð af. Fljótlega tók hann upp þráðinn á sama vettvangi og gerðist hluthafi og starfsmaður í útgerð Páls Pálssonar, Vísi, í Grindavík. Hlut sinn í þeirri útgerð seldi hann meirihlutaeigendum fyrir nokkuð mörgum árum.

Þær eru margar minningarnar sem sækja á þegar hugur er látinn reika til góðra og eftirminnilegra stunda og samskipta við Ásgeir Lúðvíksson. Hann leyfði mér að ferðast með sér austur á Kirkjubæjarklaustur á Rúgbrauðinu sínu, leyfði mér að keyra spöl og spöl en það sem mestu máli skipti var að hann hrósaði þegar vel tókst til en lét ógert að skammast þótt eitthvað færi úr böndunum.

Fyrir nokkrum misserum varð Ásgeir fyrir miklu áfalli sem leiddi til lömunar og örkumla. Hann lét hlutskipti sitt þó ekki verða til þess að slá sig út andlega, hélt ró sinni og yfirvegun allt til hinstu stundar.

Ásgeir Lúðvíksson var einstakur maður hvernig sem á persónu hans er litið, gamansamur, ljúfur, æðrulaus, fróður og vel lesinn. Mynd hans og minning öll mun fylgja mér meðan lifi.

Ég votta öllum ættingjum og ástvinum hans innilega samúð og bið Guð um að varðveita minningu góðs drengs og vinar.

Önundur S. Björnsson, Breiðabólstað.