Leiðtoginn Kim Jong-Un fylgdist á dögunum spenntur með prófunum á nýrri skotflaug Norður-Kóreumanna sem grandað getur skriðdrekum.
Leiðtoginn Kim Jong-Un fylgdist á dögunum spenntur með prófunum á nýrri skotflaug Norður-Kóreumanna sem grandað getur skriðdrekum. — AFP
Hersveitir Norður-Kóreu skutu í fyrrinótt á loft sex skammdrægum flugskeytum og höfnuðu þau í sjónum úti fyrir ströndum landsins.

Hersveitir Norður-Kóreu skutu í fyrrinótt á loft sex skammdrægum flugskeytum og höfnuðu þau í sjónum úti fyrir ströndum landsins. Var þetta að líkindum gert til að undirstrika hernaðarmátt landsins, en fáeinum klukkustundum áður hafði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkt harðorða ályktun varðandi refsiaðgerðir gegn landinu.

Skotflaugarnar flugu, samkvæmt upplýsingum frá varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu, um 100 til 150 km vegalend áður en þær féllu í hafið austan við Norður-Kóreu. Sérfræðingar höfðu í gær enn ekki greint tegund þessara eldflauga.

Ráðamenn í Pyongyang hafa að undanförnu verið iðnir við alls kyns prófanir á Punggye-ri-kjarnorkutilraunasvæðinu í norðausturhluta landsins og meðal annars sprengt þar öfluga sprengju með sprengikraft innan við 10 kílótonn. Telja ráðamenn á Vesturlöndum þessar tilraunir lið í að þróa langdræga eldflaug sem borið getur kjarnaodd. khj@mbl.is