Herborg Aðalbjörg Herbjörnsdóttir fæddist 17. júní 1942 á Dísastöðum í Breiðdal. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 11. mars 2016.

Foreldrar hennar voru Herbjörn Guðmundur Guðmundsson, f. 5. október 1910, d. 6. júlí 1953, og Elísabet Magnúsdóttir, f. 5. mars 1919, d. 11. desember 1970.

Herborg giftist hinn 19. ágúst 1961 Sveini Reyni Pálmasyni, f. 26. apríl 1939. Þau skildu. Synir þeirra eru:

1) Jónas Viðar, f. 2. febrúar 1962, d. 12. ágúst 2013. Eiginkona hans var Sólveig Baldursdóttir. Þau skildu. Þau eiga eina dóttur.

2) Björn Halldór Sveinsson, f. 10. janúar 1963. Eiginkona hans er Kristín Hrönn Hafþórsdóttir, f. 31. janúar 1969. Þau eiga tvær dætur.

3) Birgir Örn Sveinsson, f. 11. maí 1964. Eiginkona hans er Svala Jóhannsdóttir, f. 30. janúar 1968. Þau eiga tvær dætur. Fyrri eiginkona Birgis er Vilborg Birningur Torfadóttir. Þau eiga einn son.

Systkini Herborgar eru: Kjartan, f. 11. júlí 1938, d. 7. nóvember 2007, Ásta María, f. 30. maí 1939, Hlíf Bryndís f. 21. október 1947, og Halldóra Petra, f. 13. apríl 1949, d. 6. apríl 1962.

Sambýlismaður Herborgar frá 1983 er Jakob Valdimar Kárason, f. 4. febrúar 1945.

Herborg ólst upp á Dísastöðum til tveggja ára aldurs. Þá flutti hún með foreldrum sínum í Ásunnarstaði í sömu sveit og var þar næstu þrjú árin. Árið 1947 flutti fjölskyldan í nýbyggt hús, Ágarð, þar skammt frá. Þegar faðir hennar andaðist 1953 hætti móðir hennar búskap. 1955 flutti fjölskyldan í Gljúfraborg, skammt frá þorpinu á Breiðdalsvík. 1957 flutti fjölskyldan í íbúðarhúsið Sætún á Breiðdalsvík. Þar bjó Herborg ásamt móður sinni og systkinum þangað til hún fór til náms í Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði, 17 ára gömul.

Hún settist að á Akureyri árið 1960 og bjó þar alla tíð síðan. Herborg vann lengst af hjá svonefndum Sambandsfyrirtækjum á Akureyri, einkum hjá Gefjun og síðar hjá Skógerðinni.

Herborg greindist með taugahrörnunarsjúkdóminn MS árið 1995. Hún bjó í heimahúsi allt til ársins 2012 en fluttist þá á Hlíð.

Útför Herborgar fer fram frá Glerárkirkju í dag, 18. mars 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elsku hjartans mamma, tengdamamma og amma okkar.

Nú ert þú farin yfir í Sumarlandið þar sem án nokkurs vafa er vel á móti þér tekið.

Einlægar þakkir fyrir alla ástina, kærleikann og yndislegu, dýrmætu minningarnar.

Við kveðjum þig með sárum söknuði og setjum tilfinningar okkar og orð í þetta fallega ljóð.

Hér að hinstu leiðarlokum

ljúf og fögur minning skín.

Elskulega amma góða

um hin mörgu gæði þín.

Allt frá fyrstu æskudögum

áttum skjól í faðmi þér.

Hjörtun ungu ástúð vafðir

okkur gjöf sú dýrmæt er.

Hvar sem okkar leiðir liggja

lýsa göfug áhrif þín.

Eins og geisli á okkar brautum

amma góð, þótt hverfir sýn.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Við sendum öllum ástvinum elsku Ebbu, mömmu, tengdamömmu og ömmu okkar, hlýju kærleik, ást og frið.

Björn Halldór, Birgir Örn, Kristín Hrönn, Svala og börn.

Mér er sagt að amma Ebba hafi verið stórfengleg kona. Hún var söngelsk og klár hljóðfæraleikari, ákaflega gjafmild og góð húsmóðir, systir og móðir. Ég þekkti hana öðruvísi en flestir aðrir, bæði sem barnabarn hennar og vegna þess að ég þekkti hana aldrei án sjúkdómsins. Amma veiktist þegar ég var mjög ung og man ég lítið eftir henni öðruvísi en í hjólastól. Sem barn eyddi ég miklum tíma í Vættagilinu. Við frænkuskottin fórum oft til hennar eftir skóla, settum upp leikrit, klæddum okkur í handmálaðar slæður, borðuðum súkkulaðirúsínur, horfðum á Spaugstofuna, settum upp mannúðlegar músagildrur, föndruðum úr gömlum mandarínukössum og virtum fyrir okkur gersemarnar sem amma hafði sankað að sér. Þolinmæði ömmu fyrir látunum í okkur var endalaus. Hún bauð okkur bara Seven-Up og horfði á næsta leikrit.

Mér skilst að fyrst og fremst hafi amma tekið sjúkdómsgreiningunni með æðruleysi og tók ég aldrei eftir neinu öðru. Æðruleysið lýsir sér kannski best í því að hún var vön að klípa í litla kroppa með löngu klemmuprikinu sínu, sem átti annars að auðvelda henni að sækja fjarstýringuna. Hún var líka einlægur aðdáandi hjólastólaralls okkar sonardætranna og hvatti okkur áfram og að fara hraðar.

Amma Ebba var einkar handlagin kona og var alltaf sérstök gleði að opna gjafir frá ömmu enda hlakkaði í manni að sjá hvaða gersemi kæmi nú upp úr pakkanum. Það var ekki fermetri í Vættagilinu sem ekki prýddi handverk ömmu og hélt hún föndrinu áfram sem lengst og hún gat, enda ákaflega þrjósk og engin sjúkdómsgreining myndi taka það af henni, takk fyrir pent. Það besta við ömmu var kímnigáfan. Hún sagði manni góðar og skemmtilegar sögur, alveg fram á síðasta dag, um strákana sína, um æskuna, um karlana sem komu til hennar því hún bakaði alltaf svo gott brauð og lífið og tilveruna.

Elsku amma mín, mig tekur það sárt að hafa ekki getað kvatt þig almennilega. Ég hef ákveðið með sjálfri mér að ég ætla ekki að minnast þín sem sjúklings, heldur að halda í sögurnar sem þú sagðir mér af þér. Ég ætla að minnast þín fyrir gleðina, æðruleysið, húmorinn og hláturinn. Ég ætla að hlusta á systurnar segja af þér skemmtilegar sögur og á vini þína og fjölskyldu sem þótti svo ótrúlega vænt um þig. Þó samband okkar hafi litast af sjúkdóminum og við höfum ef til vill ekki gert það sem eðlilegt telst í sambandi ömmu og sonardóttur, þá vil ég meina að í staðinn höfum við átt eitthvað einstakt. Þú veist það kannski ekki, en þú hefur kennt mér svo margt um lífið og tilveruna bara með því að vera þú. Bara með því að gleyma því aldrei hvaðan þú komst. Þú kvaddir þennan heim með bros á vör, umvafin fólki sem elskar þig. Jónas Viðar hefur komið og tekið á móti þér inn í eftirlífið og það útskýrir brosið. Þú varst tilbúin að kveðja okkur og þó að við kveðjum þig með ákveðnum trega erum við líka tilbúin að kveðja þig, elsku amma.

Eins og þú orðaðir það best sjálf – „það þýðir ekkert annað“.

Silja Björk Björnsdóttir.

Það er bæði með sorg og gleði, sem ég kveð þig, systa mín, sorg yfir að hafa misst þig en gleði fyrir þína hönd að þú hafir fengið að kveðja, eins og þú varst oft búin að biðja um. Barátta þín við MS-sjúkdóminn stóð í yfir 20 ár en aldrei kvartaðir þú og vildir gera hlutina sjálf. Mér var sagt það á Hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri að þú hefðir neitað að láta hjálpa þér við að matast, þótt þú ættir erfitt með það.

Þú fæddist þegar ég var þriggja ára og ég fékk að sitja á sænginni hennar mömmu fyrsta daginn sem þú varst böðuð. Það er mín fyrsta minning um þig. Þegar þú stækkaðir fór ég að taka þig með í búið okkar. Þar undum við saman í moldarkökubakstri og skreyttum afurðirnar með blómum. Þú varst ekki há í loftinu, lítil og grönn, létt á fæti en hörkudugleg. Fórst snemma að vinna, varst hjálparkokkur í vegavinnu, afgreiddir vörur í Kaupfélaginu heima og margt fleira.

Ein minning kemur upp í hugann frá sautjánda afmælisdeginum þínum. Ball í Staðarborg. Ég man að mér fannst þú flott, dansandi létt og lipur í hvítri stuttermapeysu og svörtu pilsi og hvítum háhæluðum skóm. Ung og falleg eins og þú varst alltaf.

Þetta ár fórst þú í Húsmæðraskólann á Laugalandi. Um vorið komst þú heim og fórst á síld sem kokkur á Hafnareynni um sumarið. Um haustið fórstu til Akureyrar að vinna í bakaríi og varst búsett þar æ síðan. Þar giftir þú þig og eignaðist þrjá hrausta órabelgi, sem ég fékk að hafa í sveitinni hjá mér í mörg ár. Við vorum duglegar að heimsækja hvor aðra alla tíð. Þú komst oft akandi ein austur á meðan þú gast og ég fór svo í flugi á veturna og var hjá þér. Þú varst mikil listakona í höndunum, bæði við sauma og prjón. Og svo allir fallegu postulínsmunirnir sem þú málaðir og sendir okkur ættingjunum í jóla- og afmælisgjafir.

Einhverntíma var sýning inni í Eyjafirði á handverki ykkar sem voruð í postulínsmálningu. Mér var sagt að þinn bás hafi borið af. Þú varst reglusöm, þoldir illa ef hlutirnir voru ekki á réttum stað og lést í þér heyra ef ekki var eftir því farið. Þú varst tónelsk, hafðir fallega sópran rödd og söngst nokkur ár í Lögmannshlíðarkirkju og tókst m.a. þátt í kórsöng við jólamessu í sjónvarpi eitt árið. Þá var ég montin af litlu systur eins og ætíð.

Þegar þú varst að vinna í Gefjun varstu í starfsmannafélaginu og tróðst gjarnan upp með gítarinn þinn. Þegar þið fjölskyldan komuð í heimsókn austur fórum við systurnar gjarnan inn í stofu, þú með gítarinn minn og ég spilaði á orgelið. Eitt sinn fórum við Kjartan bróðir með Ferðafélagi Akureyrar, ásamt þér og Kobba. Við spiluðum og sungum og fólkið dansaði. Margar fleiri góðar minningar um þig geymi ég í hjarta mínu og kveð þig með þökk fyrir allt.

Elsku Kobbi, Bjössi og fjölskylda, Biggi og fjölskylda og aðrir aðstandendur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Ásta systir.

Hann var erfiður dagurinn þegar hin yndislega systir mín, Ebba, eins og hún var alltaf kölluð, kvaddi þennan heim. Þegar ég hugsa til baka var þessi stund samt ákveðinn léttir fyrir hana og alla aðstandendur eftir öll hennar erfiðu veikindi.

Í nóvember 1995 fékk hún þær slæmu fréttir að hún væri með taugalömun í miðtaugakerfi. Tæplega þrem árum seinna var hún komin í hjólastól og var því bundin honum í tæplega 18 ár. Síðustu 3-4 árin hefur hún dvalið á Hlíð og notið frábærrar umönnunar starfsfólksins, sem hér eru færðar alúðarþakkir fyrir. Einnig langar mig til að þakka þér, Kobbi minn, hvað þú hugsaðir vel um hana öll árin ykkar og ekki síst hinn erfiða tíma meðan glíma hennar við sjúkdóminn stóð yfir.

Fyrst eftir að Ebba veiktist reyndist henni erfitt að sætta sig við orðinn hlut en síðustu árin mætti hún mótlæti sínu með miklu æðruleysi. Mig langar að láta eftirfarandi ljóðlínur tala fyrir hennar hönd, en þær hafði hún fundið og sjálf sett á blað:

Leið mig eftir lífsins vegi

ljúfi Jesús, heim til þín.

Gæfubraut ég ganga megi

grýtt þó virðist leiðin mín.

Þolinmæði í þraut mér kenndu

þá má koma hvað sem vill.

Helgan anda af himni sendu

hjartað krafti þínum fyll.

Ebba var mikil listakona og málaði m.a. fagrar postulínsmyndir. Til eru margir fallegir munir, sem ættingjar og vinir eiga eftir hana, jafnvel heilu matar- og kaffistellin. Henni þótti gaman að taka á móti fólkinu sínu og hafa það í kringum sig.

Ég gæti endalaust skrifað um þig, elsku Ebba mín, og alla vináttuna, sem aldrei bar skugga á. Ég mun ætíð minnast orða þinna, þegar þú misstir yndislega drenginn þinn Jónas Viðar fyrir tæpum þremur árum að við ættum að vera glöð yfir lífinu og meta það sem við hefðum. Þér til heiðurs vil ég fylgja skoðun þinni eftir með þessum viturlegu orðum: „Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látin sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.“

Innilegar samúðarkveðjur frá mér og fjölskyldu minni fáið þið, elsku Kobbi, Bjössi og fjölskylda, Biggi og fjölskylda, Karlotta og aðrir aðstandendur.

Megi góður guð blessa minningu Ebbu, systur minnar.

Hlíf Bryndís.